Geturðu líkt eftir Pínehasi þegar þú tekst á við erfið verkefni?
ÞAÐ er afar dýrmætt að fá að þjóna sem safnaðaröldungur. Í orði Guðs segir þó að öldungar þurfi að takast á við erfið verkefni. Öðru hverju þurfa þeir að taka á málum þar sem rangsleitni hefur átt sér stað og dæma í „umboði Drottins“. (2. Kron. 19:6) Umsjónarmanni gæti einnig verið úthlutað verkefni sem honum finnst hann ekki tilbúinn að taka að sér. Þannig leið Móse þegar honum var falið ákveðið verkefni og lét það auðmjúklega í ljós með því að segja: „Hver er ég, að ég fari til faraós?“ – 2. Mós. 3:11.
Í Biblíunni er hægt að lesa frásagnir af umsjónarmönnum sem tókust farsællega á við erfið verkefni og hún er skrifuð undir innblæstri sama starfskrafts og útnefnir öldunga. Pínehas var sonur Eleasar og sonarsonur Arons og átti því í vændum að verða æðstiprestur. Þrír atburðir í lífi hans sýna hversu mikilvægt það er fyrir öldunga nú á tímum að takast á við erfið verkefni af hugrekki og góðri dómgreind, og leggja traust sitt á Jehóva.
Hann brást strax við
Pínehas var ungur maður þegar Ísraelsmenn bjuggu í tjaldbúðum á gresjunum í Móab. Í frásögu Biblíunnar segir: „Þjóðin [tók] að hórast með móabískum konum. Þær buðu fólkinu til fórnarmáltíða guða sinna og fólkið neytti og féll fram fyrir guðum þeirra.“ (4. Mós. 25:1, 2) Jehóva sló þá sem brutu af sér með banvænni plágu. Hvernig heldurðu að Pínehasi hafi liðið þegar hann frétti af rangsleitni þeirra og plágunni sem hlaust af?
Í frásögunni segir áfram: „Einn Ísraelsmannanna kom til bræðra sinna og hafði með sér konu frá Midían. Hann leiddi hana fyrir Móse og allan söfnuð Ísraelsmanna þegar þeir grétu við inngang samfundatjaldsins.“ (4. Mós. 25:6) Hvað átti Pínehas prestur gera? Hann var ungur en Ísraelsmaðurinn, sem syndgaði, var ættarhöfðingi og fór með forystu meðal fólksins í tilbeiðslunni. – 4. Mós. 25:14.
Pínehas óttaðist Jehóva en ekki menn. Þegar hann kom auga á þau tók hann sér strax spjót í hönd, gekk á eftir manninum inn í tjaldið og rak þau bæði í gegn. Hvernig leit Jehóva á hugrekki og festu Pínehasar? Jehóva stöðvaði pláguna samstundis og umbunaði honum með því að gefa honum „ævarandi“ fyrirheit um að niðjar hans myndu þjóna sem prestar. – 4. Mós. 25:7-13.
Safnaðaröldungar nú á tímum grípa auðvitað ekki til ofbeldis. En líkt og Pínehas ættu þeir að vera tilbúnir til að sýna festu og hugrekki. Skoðum dæmi: Guilherme hafði aðeins þjónað sem öldungur í nokkra mánuði þegar honum var falið að sitja í dómnefnd. Bróðirinn, sem gerst hafði sekur um rangsleitni, var öldungur sem hafði hjálpað Guilherme þegar hann var yngri. „Mér fannst óþægilegt að vera í þessari stöðu,“ segir hann. „Ég átti erfitt með svefn og velti því stöðugt fyrir mér hvernig ég gæti tekið á þessu máli án þess að láta tilfinningarnar trufla andlega sjón mína. Dögum saman bað ég til Jehóva og rannsakaði biblíurit okkar.“ Það hjálpaði Guilherme að byggja upp hugrekki til að takast á við þessar sérstöku aðstæður og veita bróðurnum sem syndgaði andlega hjálp. – 1. Tím. 4:11, 12.
Öldungar, sem sýna hugrekki og festu þegar erfið mál koma upp í söfnuðinum, eru til fyrirmyndar í hollustu og trúfesti. Aðrir safnaðarmenn þurfa auðvitað einnig að sýna hugrekki og segja frá alvarlegum misgerðum sem þeir fá vitneskju um. Þar að auki krefst það hollustu að hætta að umgangast vin eða ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. – 1. Kor. 5:11-13.
Góð dómgreind afstýrir ógæfu
Hugrekki Pínehasar var ekki bara hvatvísi ungs manns. Skoðum hvernig hann sýndi góða dómgreind og þagmælsku þegar honum bárust aðrar fregnir til eyrna. Ættkvíslir Rúbens og Gaðs og hálf ættkvísl Manasse höfðu reist altari nærri ánni Jórdan. Aðrir Ísraelsmenn ályktuðu að það væri ætlað til falsguðadýrkunar og hugðust grípa til vopna gegn þeim. – Jós. 22:11, 12.
Hvernig brást Pínehas við? Hann og höfðingjar Ísraels ræddu af varfærni við þá sem byggt höfðu altarið. Ættkvíslirnar, sem bornar voru sökum, útskýrðu mál sitt og sögðust í rauninni hafa byggt altarið til að „þjóna Drottni“. Ógæfu var þar með afstýrt. – Jós. 22:13-34.
Ef við heyrum ásökun á hendur trúsystkini okkar eða neikvæðan orðróm væri viturlegt að líkja eftir fordæmi Pínehasar. Ef við höfum góða dómgreind aftrar það okkur frá því að móðgast eða segja eitthvað neikvætt um trúsystkini okkar. – Orðskv. 19:11.
Hvernig getur góð dómgreind hjálpað öldungum að bregðast við eins og Pínehas gerði? „Þegar boðberi fer að tala um ágreining sem hefur komið upp á milli hans og einhvers annars, bið ég Jehóva strax um að hjálpa mér að taka ekki afstöðu heldur veita viðkomandi biblíulega leiðsögn.“ Þetta segir Jaime sem hefur verið öldungur í rúm tíu ár. „Eitt sinn leitaði trúsystir til mín vegna þess hvernig ábyrgur bróðir í öðrum söfnuði hafði komið fram við hana. Þar sem þessi bróðir var góður vinur minn hefði verið auðvelt fyrir mig að tala við hann. En þess í stað ræddi ég við systurina um nokkrar meginreglur í Biblíunni. Hún samþykkti að tala við bróðurinn sjálf til að byrja með. (Matt. 5:23, 24) Þau náðu samt ekki sáttum svo að ég hvatti hana til að hugleiða aðrar meginreglur í Biblíunni. Hún ákvað að leggja málið aftur fyrir Jehóva í bæn og reyna að fyrirgefa bróðurnum.“
Hvernig lyktaði málinu? „Nokkrum mánuðum síðar kom systirin að máli við mig,“ segir Jaime. „Hún sagði mér að bróðirinn hefði seinna iðrast orða sinna. Hann fór með henni í boðunarstarfið og sagðist meta hana mikils. Málið var leyst. Hefði það haft farsælli endi ef ég hefði skipt mér óþarflega mikið af og kannski virst hlutdrægur?“ Biblían gefur okkur þessi ráð: „Vertu . . . ekki of hvatur í málavafstur.“ (Orðskv. 25:8) Skynsamir öldungar hvetja fólk í söfnuðinum, sem á í deilum, til að beita meginreglum Biblíunnar og stuðla að friði sín á milli og sættast.
Hann leitaði ráða hjá Jehóva
Pínehas hlaut þann heiður að þjóna sem prestur hjá útvalinni þjóð Guðs. Eins og fyrr er frá sagt sýndi hann óvenjulegt hugrekki og góða dómgreind, jafnvel þegar hann var tiltölulega ungur. Honum tókst að leysa erfið mál á farsælan hátt vegna þess að hann treysti á Jehóva.
Gíbeumenn, sem voru af ættkvísl Benjamíns, nauðguðu og drápu hjákonu Levíta nokkurs. Í kjölfar þessa hörmulega atburðar sameinuðust Ísraelsmenn af hinum ættkvíslunum um að heyja stríð gegn ættkvísl Benjamíns. (Dóm. 20:1-11) Þeir báðu Jehóva um hjálp áður en þeir lögðu til orrustu, en biðu tvisvar ósigur og urðu fyrir miklu mannfalli. (Dóm. 20:14-25) Drógu þeir þá ályktun að bænir þeirra hefðu verið gagnslausar? Vildi Jehóva í raun að þeir gripu til aðgerða vegna illvirkisins sem hafði verið framið?
Pínehas, sem nú var æðstiprestur í Ísrael, tók enn og aftur staðfastlega á málum. Hann bað til Jehóva og sagði: „Eigum við enn að leggja til orrustu við niðja Benjamíns, bróður okkar, eða eigum við að hætta?“ Jehóva svaraði með því að veita þeim sigur á Benjamínítum, og Gíbea var brennd til grunna. – Dóm. 20:27-48.
Hvaða lærdóm getum við dregið við af þessu? Sum vandamál, sem upp koma í söfnuðinum, halda áfram þrátt fyrir lofsverða viðleitni öldunganna og bænir þeirra um hjálp Jehóva. Ef sú er raunin er mikilvægt fyrir öldunga að hugsa um orð Jesú: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ (Lúk. 11:9) Jafnvel þótt þeim finnist þeir ekki fá bænheyrslu strax geta umsjónarmenn verið vissir um að Jehóva muni svara bænum þeirra þegar honum finnst það tímabært.
Söfnuður á Írlandi var til dæmis í brýnni þörf fyrir ríkissal en fékk ekki samþykki fyrir honum hjá byggingarfulltrúanum á staðnum. Hann andmælti öllum tillögum bræðranna fyrir lóðina sem þeir vildu byggja á. Það leit út fyrir að það væri ekki um annað að ræða en að leita til yfirmanns skipulagsráðs sýslunnar. Myndu bænir koma að gagni eins og á dögum Pínehasar?
Öldungur í söfnuðinum segir: „Eftir margar bænir og beiðnir til Guðs settum við stefnuna á aðalskrifstofu skipulagsráðsins. Þar var mér sagt að það myndu sennilega líða nokkrar vikur áður en við gætum fundað með yfirmanninum. Okkur tókst hins vegar að ná tali af honum í fimm mínútur. Eftir að hafa skoðað nýju teikningarnar dreif hann í að gefa okkur leyfi til að halda áfram, og eftir það lagði byggingarfulltrúinn í heimabæ okkar lykkju á leið sína til að hjálpa okkur. Þessi reynsla sýndi okkur hversu kröftug bænin er.“ Já, Jehóva mun svara bænum einlægra öldunga sem treysta á hann.
Pínehas bar mikla ábyrgð í Ísrael til forna en vegna þess að hann treysti á Guð og sýndi hugrekki og góða dómgreind gekk honum farsællega að leysa úr erfiðum málum. Jehóva hafði velþóknun á umhyggju Pínehasar fyrir söfnuðinum. Um 1.000 árum síðar skrifaði Esra undir innblæstri að Jehóva hefði verið með Pínehasi. (1. Kron. 9:20) Megi Jehóva vera með öllum sem taka forystuna meðal fólks Guðs nú á dögum, og einnig öllum öðrum trúföstum þjónum hans.