Hvers vegna eru vottar Jehóva hlutlausir í stjórnmálum?
Af trúarlegum ástæðum taka vottar Jehóva ekki afstöðu í pólitískum málum. Afstaða okkar er byggð á kenningum Biblíunnar. Við gætum ekki hagsmuna ákveðinna stjórnmálaflokka eða frambjóðenda og greiðum atkvæði með þeim. Við bjóðum okkur hvorki fram í embætti né tökum þátt í hreyfingum til stjórnarbreytinga. Við teljum Biblíuna gefa traustan grunn fyrir stefnu okkar í þessum málum.
Við fylgjum fordæmi Jesú en hann vildi ekki gegna pólitísku embætti. (Jóhannes 6:15) Hann sagði lærisveinum sínum að „tilheyra ekki heiminum“ og gaf skýrt til kynna að þeir ættu ekki að taka afstöðu í pólitískum málum. – Jóhannes 17:14, 16; 18:36; Markús 12:13–17.
Við sýnum ríki Guðs hollustu. Jesús talaði um þetta ríki þegar hann sagði: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina.“ (Matteus 24:14) Sem málsvarar ríkis Guðs höfum við það verkefni að boða komu þess. Við erum því hlutlaus í stjórnmálum allra landa, þar á meðal þess lands sem við búum í. – 2. Korintubréf 5:20; Efesusbréfið 6:20.
Þar sem við erum hlutlaus getum við boðað öllum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs frjálslega, sama hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa. Við reynum að sýna í orðum okkar og verkum að við treystum á ríki Guðs til að leysa vandamál heimsins. – Sálmur 56:12.
Við forðumst stjórnmáladeilur og njótum fyrir vikið einingar í alþjóðlegu bræðrasamfélagi. (Kólossubréfið 3:14; 1. Pétursbréf 2:17) Þeir sem tilheyra trúfélögum sem blanda sér í stjórnmál eru oft sundraðir. – 1. Korintubréf 1:10.
Virðing fyrir yfirvöldum. Þó að við tökum ekki þátt í stjórnmálum virðum við vald þeirra stjórna sem við búum við. Það er í samræmi við boð Biblíunnar: „Allir eiga að vera undirgefnir yfirvöldum.“ (Rómverjabréfið 13:1) Við hlýðum landslögum, borgum skatta og erum samvinnufús þegar yfirvöld gera ráðstafanir til velfarnaðar þegnum sínum. Við tökum ekki þátt í tilraunum til að grafa undan stjórninni heldur fylgjum við því ráði Biblíunnar að biðja fyrir „konungum og öllum sem eru í valdastöðu“, sérstaklega þegar þeir taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á trúfrelsi okkar. – 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2, neðanmáls.
Við virðum líka rétt annarra til að taka eigin ákvarðanir í pólitískum málum og truflum hvorki kosningar né reynum að hindra þá sem vilja kjósa.
Er hlutleysi okkar nýtt af nálinni? Nei. Postularnir og aðrir kristnir menn á fyrstu öld höfðu sams konar afstöðu til opinberra yfirvalda. Í bókinni Beyond Good Intentions segir: „Frumkristnir menn töldu að þeir ættu að virða yfirvöld en ekki að þeir ættu að blanda sér í stjórnmál.“ Og í bókinni On the Road to Civilization segir að frumkristnir menn „gegndu ekki pólitískum embættum“.
Er hlutleysi okkar í stjórnmálum ógn við þjóðaröryggi? Nei. Við elskum frið og stjórnvöld þurfa ekki að óttast okkur. Taktu eftir hvað segir um hlutleysi okkar í skýrslu Vísindaakademíu Úkraínu frá 2001: „Núna kann sumum að mislíka afstaða votta Jehóva. En hún var meginástæða þess að alræðisstjórn nasista og kommúnistastjórnir ákærðu þá á sínum tíma.“ En jafnvel undir kúgun Sovétríkjanna voru vottarnir „áfram löghlýðnir borgarar. Þeir unnu af heiðarleika og ósérhlífni á samyrkjubúum og í verksmiðjum og voru engin ógn fyrir kommúnistastjórnina.“ Eins er með trú og trúariðkun Votta Jehóva nú á dögum að ekkert við hana sýnir að hún „grafi undan öryggi og heilindum nokkurs ríkis“, eins og segir í ályktun skýrslunnar.