GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Börn og samfélagsmiðlar – annar hluti: Kenndu unglingnum örugga notkun samfélagsmiðla
Margir foreldrar leyfa börnum sínum ekki að nota samfélagsmiðla vegna áhættunnar. En ef þú leyfir unglingnum að nota þá, hvernig geturðu hjálpað honum eða henni að forðast neikvæð áhrif þeirra og læra góða nethegðun?
Í þessari grein
Forgangsröðun unglingsins
Gott að vita: Í ljósi þess hve samfélagsmiðlar eru vanabindandi gæti unglingurinn þarfnast hjálpar þinnar til að takmarka þann tíma sem hann ver á netinu.
Meginregla Biblíunnar: ‚Metið hvað er mikilvægt.‘ – Filippíbréfið 1:10.
Til íhugunar: Truflar notkun samfélagsmiðla svefn unglingsins, heimavinnu eða samskipti innan fjölskyldunnar? Rannsóknir sýna að unglingar þarfnast um níu tíma nætursvefns. Þeir sem eyða mörgun klukkustundum á dag á samfélagsmiðlum eru hins vegar líklegir til að fá minna en sjö tíma svefn.
Það sem þú getur gert: Ræddu við unglinginn um forgangsröðun og að það sé skynsamlegt að takmarka tímann sem við notum á samfélagsmiðlum. Settu sanngjarnar reglur eins og að banna tækjanotkun í svefnherberginu á kvöldin. Markmið þitt er að hjálpa unglingnum að þroska með sér sjálfstjórn sem mun gagnast honum vel þegar hann er orðinn fullorðinn. – 1. Korintubréf 9:25.
Tilfinningaleg líðan unglingsins
Gott að vita: Ef unglingurinn venur sig á að horfa á stafrænt fegraðar sjálfur eða myndbönd af mikilvægum augnablikum af vinum sínum gæti honum fundist hann vera hafður útundan og hann gæti fundið fyrir angist eða depurð.
Meginregla Biblíunnar: ‚Losið ykkur við öfund.‘ – 1. Pétursbréf 2:1.
Til íhugunar: Hefur notkun unglingsins á samfélagsmiðlum þau áhrif að hann gerir óheilbrigðan samanburð varðandi útlit og líkamsímynd? Finnst honum að allir aðrir lifi spennandi lífi en að hans eigið líf sé leiðinlegt?
Það sem þú getur gert: Ræddu um hætturnar af því að bera sig saman við aðra. Vertu vakandi fyrir því að stelpum er hættara við að leggja mikla áherslu á samskipti og líkamsímynd. Þú gætir jafnvel stungið upp á því að unglingurinn taki sér stundum frí frá samfélagsmiðlum. Jakob, sem er ungur maður, segir: „Ég eyddi samfélags-appinu mínu um tíma. Það hjálpaði mér að forgangsraða betur og sjá sjálfan mig og aðra í öðru ljósi.“
Netnotkun unglingsins
Gott að vita: Notkun samfélagsmiðla hefur verið líkt við að lifa lífi sínu fyrir framan hóp áhorfenda. Óumflýjanlegt er að misskilningur og átök komi upp.
Meginregla Biblíunnar: „Losið ykkur við hvers kyns biturð, reiði, bræði, öskur og svívirðingar … Verið góð hvert við annað“ – Efesusbréfið 4:31, 32.
Til íhugunar: Hefur netnotkun unglingsins leitt til þess að hann hefur flækst í slúður, átök eða óvinsamlegt tal?
Það sem þú getur gert: Hjálpaðu unglingnum að skilja hvað felst í því að vera góður netnotandi. Bókin Digital Kids segir: „Það felst í hlutverki okkar foreldranna að koma því skýrt á framfæri að grimmd á aldrei við – hvort sem við erum á netinu eða í raunheimum.“
Munið að samfélagsmiðlar eru ekki nauðsyn og það leyfa ekki allir foreldar unglingum sínum að nota þá. Ef þú lofar unglingnum að nota samfélagsmiðla skaltu fullvissa þig um að hann sé nógu þroskaður til að setja sér tímamörk, að vera í heilbrigðum félagsskap og forðast óviðeigandi efni.