Föstudagur 8. ágúst
„Sá sem fetar beinar brautir óttast Jehóva.“ – Orðskv. 14:2.
Siðferðið sem er haldið á lofti í þessum heimi fær okkur til að líða eins og Lot. Hann „var miður sín yfir blygðunarlausri hegðun illra manna“ vegna þess að hann vissi að faðir okkar á himni hatar slíka hegðun. (2. Pét. 2:7, 8) Lot óttaðist Guð og elskaði hann en það fékk hann til að hafna lélegu siðferði fólks í kringum hann. Við búum meðal fólks sem ber litla sem enga virðingu fyrir siðferðismælikvarða Jehóva. En við getum haldið okkur siðferðilega hreinum ef við varðveitum kærleika okkar til Guðs og ræktum með okkur heilnæman guðsótta. Í Orðskviðunum veitir Jehóva okkur uppörvun og hvatningu sem getur hjálpað okkur. Allir þjónar Jehóva, bæði karlar og konur, geta notið góðs af því að hugleiða viskuna sem kemur fram í þessari biblíubók. Þegar við óttumst Jehóva kemur það í veg fyrir að við afsökum ranga breytni. w23.06 20 gr. 1, 2; 21 gr. 5
Laugardagur 9. ágúst
„Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur sinn daglega og fylgi mér.“ – Lúk. 9:23.
Þú hefur ef til vill fundið fyrir andstöðu ættingja eða fórnað efnislegum ávinningi fyrir hagsmuni Guðsríkis. (Matt. 6:33) Ef svo er geturðu verið viss um að Jehóva hefur tekið eftir öllu sem þú hefur gert fyrir hann. (Hebr. 6:10) Þú hefur trúlega upplifað sannleiksgildi þess sem Jesús sagði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og vegna fagnaðarboðskaparins án þess að hann fái hundraðfalt aftur núna á þessum tíma – heimili, bræður, systur, mæður, börn og akra, ásamt ofsóknum – og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ (Mark. 10:29, 30) Blessunin sem þú hefur hlotið er sannarlega meiri en hver sú fórn sem þú hefur fært. – Sálm. 37:4. w24.03 9 gr. 5
Sunnudagur 10. ágúst
„Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskv. 17:17.
Þegar kristnir menn í Júdeu þurftu að þola mikla hungursneyð ákváðu bræðurnir í söfnuðinum í Antíokkíu „að senda hjálpargögn til trúsystkinanna sem bjuggu í Júdeu, hver eftir því sem hann hafði efni á“. (Post. 11:27–30) Þótt trúsystkinin sem urðu fyrir barðinu á hungursneyðinni byggju langt í burtu voru kristnir menn í Antíokkíu ákveðnir í að koma þeim til hjálpar. (1. Jóh. 3:17, 18) Við getum líka sýnt samkennd þegar við fréttum af trúsystkinum sem hafa orðið fyrir hamförum. Við bregðumst fúslega við og spyrjum kannski öldungana hvort við getum aðstoðað. Við gefum ef til vill framlög til alþjóðastarfsins eða biðjum fyrir þeim sem hafa orðið fyrir hamförum. Bræður okkar og systur gætu líka þurft hjálp til að hafa nauðsynjar. Þegar Jesús Kristur konungur okkar kemur til að fullnægja dómi viljum við að hann sjái að við sýnum samkennd og bjóði okkur að ‚taka við ríkinu‘. – Matt. 25:34–40. w23.07 4 gr. 9, 10; 6 gr. 12