Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 4.09 bls. 3-4
  • Eru peningar þjónn þinn eða húsbóndi?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Eru peningar þjónn þinn eða húsbóndi?
  • Vaknið! – 2009
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hin hliðin á peningnum
  • Eru peningar rót alls ills?
    Biblíuspurningar og svör
  • Fjármál fjölskyldunnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Hvernig annast á fjármálin
    Hamingjuríkt fjölskyldulíf
  • Farðu skynsamlega með peninga
    Vaknið! – 2009
Sjá meira
Vaknið! – 2009
g 4.09 bls. 3-4

Eru peningar þjónn þinn eða húsbóndi?

ÁTTU við peningaveiki að stríða? Sagt er að þessi sjúkdómur hrjái umtalsverðan hluta mannkyns. Hvernig lýsir hún sér?

Roger Henderson er breskur læknir og sérfræðingur um streitu. Hann smíðaði fyrir fáeinum árum orðið „peningaveiki“ (money sickness syndrome) til að lýsa líkamlegum og sálrænum einkennum fólks sem er þjakað af peningaáhyggjum. Einkennin eru meðal annars stuttur og ör andardráttur, höfuðverkur, ógleði, útbrot, lystarleysi, óeðlileg reiði, taugaveiklun og neikvæðar hugsanir. Haft er eftir Henderson að „peningaáhyggjur séu verulegur streituvaldur“.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að margir skuli á undanförnum mánuðum hafa fengið að kenna á kvíða og áhyggjum sem fylgja gjarnan peningum. Margir hafa misst vinnuna, heimilið og spariféð í efnahagskreppunni sem nú er. Stór fjármálafyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og auðugustu þjóðir heims hafa gripið til neyðaraðgerða til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið hryndi. Hækkandi verð á matvælum og öðrum nauðsynjum hefur einnig valdið miklum kvíða og áhyggjum í þróunarlöndunum.

Peningar valda líka ýmsum vanda á tímum velmegunar. Á síðustu árum, meðan allt lék í lyndi, voru margir þjakaðir af peningaáhyggjum. Suður-Afríska dagblaðið The Witness nefndi til dæmis að „óhófleg neysla, gróðahyggja og taumlaus efnishyggja sé þjóðfélagsmein sem hafi grafið um sig“ í Afríku. Í blaðinu var talað um að þetta „þjóðfélagsmein“ hafi meðal annars birst í „streitu, skuldum, sóun, óhóflegri vinnu, öfund, þunglyndi og þrálátri tilfinningu um að mann skorti eitthvað“. Peningum hefur verið kennt um það að lífsgæðum fólks skuli hraka jafnt og þétt í Afríku.

Áður en fjármálakreppan skall á var mikill uppgangur í efnahagslífi Indlands. Í tímaritinu India Today International kemur fram að „neyslan í landinu hafi stóraukist“ árið 2007. Ráðamenn óttuðust á þeim tíma að þessi uppgangur í efnahagslífinu gæti leitt til vaxandi ólgu og jafnvel ofbeldisverka.

Á sama tíma var ný kynslóð fólks í Bandaríkjunum farin að sækja stíft í fokdýrar munaðarvörur. En kaupgetan færði þessu fólki ekki hamingjuna. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að allsnægtir hafi verið ein helsta orsök drykkjusýki, þunglyndis og sjálfsvíga þar í landi. Í einni rannsókn kom fram að þrátt fyrir auð og allsnægtir sögðust „innan við einn af hverjum þrem Bandaríkjamönnum vera mjög hamingjusamir“.

Hin hliðin á peningnum

Margir — bæði ríkir og fátækir — hafa á hinn bóginn fremur litlar áhyggjur af peningum og efnislegum eignum, og gildir einu hvort það árar vel eða illa. Hvað gerir gæfumuninn?

Í skýrslu, sem nefnist The Meaning of Money (Gildi peninga), segja rannsóknarmenn að sumir „hafi mikinn áhuga á peningum og láti stjórnast af peningum. Þetta getur valdið streitu og geðrænum vandamálum.“ Þeir benda síðan á andstæðuna: „Þeir sem skipuleggja hvernig þeir nota fjármuni sína finna að jafnaði að þeir halda um stjórnvölinn og sjá sjálfa sig í jákvæðu ljósi. Þeir hafa stjórn á peningamálum sínum en eru ekki þrælar peninganna . . . Við fullyrðum að þeir sem skipuleggja vandlega hvernig þeir nota fjármuni sína finni líka minna fyrir streitu og séu þar með undir minna álagi.“

Hvernig líturðu á peninga? Hvaða áhrif hefur óstöðugleikinn í efnahagslífinu á þig? Eru peningar þjónn þinn eða húsbóndi? Kannski finnurðu ekki fyrir einkennum hinnar svokölluðu peningaveiki. Ekkert okkar er þó ónæmt fyrir peningaáhyggjum og gildir þá einu hvort við erum rík eða fátæk. Hvernig er hægt að eignast hugarfrið og betri líðan með því að fara skynsamlega með peninga?

Vera má að peningar séu húsbóndi þinn ef . . .

  • þú forðast að ræða fjármál af því að það veldur þér kvíða.

  • peningar valda oft deilum á heimilinu.

  • þú ræður ekkert við eyðsluna.

  • þú hefur sífelldar áhyggjur af reikningum og afborgunum.

  • þú ert ekki viss um hvað þú hefur í tekjur.

  • þú ert ekki viss um hve miklu þú eyðir.

  • þú ert ekki viss um hve mikið þú skuldar.

  • reikningarnir eru oft hærri en þú bjóst við.

  • þú dregur oft að greiða reikninga.

  • þú getur ekki greitt nema lágmarksafborgun af kreditkortaskuldum.

  • þú borgar reikninga með peningum sem voru fráteknir fyrir annað.

  • þú bætir við þig vinnu bara til að geta borgað reikninga og afborganir.

  • þú hefur tekið ný lán til að greiða eldri lán.

  • þú notar sparifé til að borga venjulega reikninga.

  • þú ert næstum alltaf blankur löngu fyrir mánaðamót.

  • þér finnst þú þurfa að safna háum fjárhæðum.

  • þú finnur fyrir líkamlegum og/eða sálrænum einkennum sem rekja má til streitu vegna peninga.

Heimild: Roger Henderson. Money Sickness Syndrome.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila