Voldug vex eikin af örsmáu akarni
● Örsmátt akarn, sem minnir á agnarlítið egg í litlum eggjabikar, losnar af trénu og fellur til jarðar. Kvikur íkorni grefur það niður og gleymir því síðan. Þegar fram líða stundir spírar akarnið og verður að voldugri eik, stærsta og sterkasta skógartrénu sem er upprunalegt á Bretlandseyjum.
Eikin er rómuð í mannkynssögunni, goðsögum og ævintýrum og getur lifað í meira en þúsund ár. Sum eikartré verða allt að 40 metra há. Gamlar eikur eru þekktar fyrir gríðarstóra boli og umfangsmiklar trjákrónur. Tvær eikartegundir eru upprunalegar á Bretlandseyjum en um heim allan vaxa um það bil 450 tegundir. Það sem einkennir allar þessar eikartegundir er fræið, örsmátt akarnið.
Eikartréð hýsir fjölbreyttara dýralíf en nokkurt annað tré á Bretlandseyjum, þar á meðal fjöldann allan af skordýrategundum. Margar fiðrildalirfur eru sólgnar í mjúkt lauf eikarinnar. En tréð ver sig. Lauf, sem eru að þroskast, mynda ólystugt tannín.
Það eru íbúar í hverjum einasti hluta trésins. Hið mikla skordýraúrval dregur að sér fjöldann allan af fuglum og kóngulóm. Bjöllur grafa sér leið undir þykkan, sprunginn börkinn. Uglur og heilu leðurblökuhóparnir taka sér bólfestu inni í holum trjábolum. Smávaxin dýr svo sem mýs, stúfmýs, kanínur, greifingjar og refir leita sér skjóls innan um ræturnar.
Eikin sér um að koma eigin úrgangi í endurvinnslu. Á hverju ári fellir fullvaxta tré á þriðja hundrað þúsund lauf. Sveppir og gerlar sjá um að brjóta niður fölnað lauf og skila endurunnum næringarefnum aftur ofan í jarðveginn. Sum ár getur eitt tré myndað allt að 50.000 akörn. Fuglar og dýr safna flestum þeirra saman eða éta þau. Smámaurar og bjöllur fjarlægja rotnandi við og sveppir nærast á berkinum.
Eikarviður er einstaklega sterkur og endingargóður. Hann hefur lengi verið eftirsóttasti viðurinn til húsbygginga og í vönduð húsgögn. Hann er kjörinn í tunnur undir bjór og vín meðan það er að þroskast. Sterkbyggð seglskip úr eik gerðu breska sjóhernum kleift að drottna yfir heimshöfunum um árabil.
Timbur úr eik er enn mikils metið. Eikin er óaðskiljanlegur hluti breska landslagsins og hlýtur verðskuldað lof fyrir styrk, varanleika og endingu. Af örsmáu akarni vex voldug eik — enn eitt undur náttúrunnar.
[Mynd á bls. 16]
Eikur geta lifað í meira en þúsund ár og náð 40 metra hæð og orðið allt að 12 metrar í ummál.
[Rétthafi myndar á bls. 16]
Tré: © John Martin/Alamy. Akarn: © David Chapman/Alamy.