Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 4.11 bls. 21-23
  • Mígreni — hvað er til ráða?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mígreni — hvað er til ráða?
  • Vaknið! – 2011
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvernig er hægt að halda mígreni í skefjum?
  • Hvaða meðferðum er beitt gegn mígreni?
  • Efnisyfirlit
    Vaknið! – 2011
Vaknið! – 2011
g 4.11 bls. 21-23

Mígreni — hvað er til ráða?

Joyce rýnir í skjal sem hún heldur á, en hún er lífleg kona sem vinnur á skrifstofu. Skyndilega sýnist henni hluti blaðsíðunnar vera auður. Þá birtast örsmá leiftrandi ljós, dansandi fyrir augum hennar og breytast stig af stigi í sikksakklínur og undarleg mynstur. Fáeinum mínútum seinna getur Joyce varla séð nokkuð. Hún áttar sig á því sem er að gerast og gleypir litla töflu sem á einmitt að taka inn í svona tilvikum.

JOYCE þjáist af mígreni, en það er kvilli sem er á ýmsa vegu frábrugðinn venjulegum höfuðverk. Til dæmis fylgir mígreni ákveðnu mynstri ólíkt tilfallandi höfuðverk. Auk þess er kvillinn það alvarlegur að þeir sem þjást af mígreni verða ófærir um að sinna daglegum störfum.

Hver eru sjúkdómseinkennin? Verknum fylgir þungur æðasláttur og er oft bara öðrum megin í höfðinu. Einnig getur ógleði og ljósfælni fylgt. Verkjakastið getur varað allt frá fáeinum klukkustundum upp í nokkra daga.

Flestir fá af og til spennuhöfuðverk en aðeins 1 af hverjum 10 þjáist af mígreni. Mígreni hrjáir fleiri konur en karla. Tilfellin eru misalvarleg, en flestir þeirra sem þjást af mígreni eru frá vinnu nokkra daga á ári. Mígreni veldur tekjutapi og getur haft slæm áhrif á fjölskyldu- og félagslíf. Þess vegna setur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin það í flokk með 20 algengustu orsökum skertrar starfsgetu.

Mígrenisjúklingar finna stundum fyrir einkennum eins og handkulda, mikilli þreytu, svengd eða skapsveiflum áður en þeir fá mígrenikast. Rétt áður en höfuðverkurinn byrjar fá sumir svima, eyrnasuð, náladofa, eymsli í vöðvum, sjá tvöfalt eða eiga erfitt um mál.

Það er ekki alveg vitað hvað veldur mígreni, en talið er að um galla í taugakerfi sé að ræða sem hefur áhrif á æðar í höfði. Verkirnir tengdir æðaslættinum virðast stafa af blóðflæði um bólgnar æðar. „Sjúklingar með mígreni hafa fengið sérlega viðkvæmt taugakerfi í vöggugjöf, sem bregst auðveldlega við margs konar áreiti, svo sem svefnleysi, sterkri lykt, ferðalögum, streitu, hormónabreytingum og þegar sleppt er úr máltíðum.“ Þetta segir í tímaritinu Emergency Medicine. Auk þess eru auknar líkur á að fólk, sem þjáist af mígreni, fái ristilkrampa, kvíðaköst og þunglyndi.

Hvernig er hægt að halda mígreni í skefjum?

Við getum ekki breytt taugakerfi okkar, en við getum hugsanlega komið í veg fyrir að mígrenikast fari af stað. Sumir halda dagbók og hafa fundið út að ákveðnar fæðutegundir eða kringumstæður orsaka köst.

Það er einstaklingsbundið hvernig mígreni birtist. Lorraine komst að því að köstin hjá henni tengdust tíðahringnum. Hún segir: „Um miðbik tíðahringsins gat allt aukaálag eða áreiti framkallað mígrenikast, til dæmis erfið vinna, hiti, kuldi, hávaði og jafnvel mikið kryddaður matur. Þess vegna reyni ég að taka það rólega og stilla öllu í hóf á þessum tíma.“ Joyce hefur þjáðst af mígreni í rúm 60 ár. Hún segist hafa tekið eftir því að appelsínur, ananas og rauðvín valdi samstundis mígrenikasti og þess vegna forðast hún slíkt.

Það er ekki auðvelt að finna út hvað það er sem kemur kasti af stað, því að oftast eru það ýmsir samverkandi þættir. Maður gæti til dæmis borðað súkkulaði einn daginn án þess að finna nokkuð fyrir því, en annan dag gæti það valdið mígreni vegna þess að eitthvað fleira hefur áhrif.

Enda þótt maður geti ekki fundið eða forðast allt sem kann að valda mígreni þá er hægt að draga úr líkum á verkjakasti. Sérfræðingar mæla með því að fólk hafi fasta reglu á svefntímanum alla vikuna. Langi mann til að sofa út um helgar mæla þeir með að maður vakni á sama tíma og venjulega, fari fram úr og geri eitthvað í nokkrar mínútur og fari síðan aftur að sofa. Breyting á koffínneyslu getur valdið mígreni. Því er gott að reyna að takmarka neysluna við tvo kaffibolla á dag eða tvö glös af gosdrykkjum með koffíni. Ekki er ráðlegt að sleppa máltíðum þar sem svengd getur valdið mígreni. Streita veldur mjög oft mígreni og hana er ekki auðvelt að forðast. En maður getur ef til vill fundið leiðir til að slaka á, kannski með því að breyta dagskránni hjá sér, lesa í Biblíunni eða hlusta á þægilega tónlist.

Hvaða meðferðum er beitt gegn mígreni?

Hægt er að meðhöndla mígreni á ýmsa vegu.a Svefn er eitt besta ráðið. Verkjalyf, sem fást án lyfseðils, geta dregið nægilega mikið úr verkjunum til að sjúklingurinn geti sofnað.

Árið 1993 komu ný lyfseðilsskyld mígrenilyf á markaðinn, svokölluð triptan-lyf. Í tímaritinu The Medical Journal of Australia kom fram að þetta væru „stórstígar framfarir í meðhöndlun á mígreni“ og segja mætti „að triptan-lyfin séu álíka þýðingarmikil fyrir mígreni og höfuðtaugakveisu eins og penisillín er fyrir bakteríusýkingar“.

Mígreni er ekki lífshættulegt. Meðferð við mígreni bjargar því ekki mannslífum eins og meðferð við sýkingum. Triptan-lyf hafa engu að síður létt mörgum lífið til muna sem hafa árum saman þurft að missa úr vinnu sökum mígrenis. Sjúklingar verða samt að gera áðurnefndar breytingar á daglegu lífi sínu, en sumir þeirra hafa þó kallað triptan-lyf kraftaverkalyf.

Reyndar hafa öll lyf sína kosti og galla. Hverjir eru helstu gallar triptan-lyfja? Í fyrsta lagi getur hver tafla verið mjög dýr svo að lyfið er yfirleitt aðeins gefið þeim sem hafa miðlungssterk upp í verulega slæm einkenni. Auk þess hafa triptan-lyf ekki tilætluð áhrif á alla og fyrir suma er jafnvel óráðlegt að prófa þau af heilsufarsástæðum. Engin þekkt lækning er til við mígreni en tímaritið Emergency Medicine segir: „Þar sem ný og betri mígrenilyf eru nú fáanleg er ástæðulaust að sjúklingar haldi áfram að þjást.“

[Neðanmáls]

a Vaknið! mælir ekki með einni læknismeðferð umfram aðra. Hver og einn ætti að íhuga vandlega þá valmöguleika sem standa til boða áður en ákvörðun er tekin.

[Mynd á bls. 23]

Með því að halda dagbók hafa sumir komist að því að ákveðnar fæðutegundir eða aðstæður orsaka verkjaköst.

[Mynd á bls. 23]

Róleg tónlist getur dregið úr streitu sem oft veldur mígrenikasti.

[Mynd á bls. 23]

Mígreni er arfgengur sjúkdómur sem gerir fólk stundum óvinnufært, en læknar geta oft meðhöndlað það með góðum árangri.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila