Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lv bls. 215-bls. 218 gr. 1
  • Blóðþættir og skurðaðgerðir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Blóðþættir og skurðaðgerðir
  • „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Svipað efni
  • Viðhorf Guðs til blóðs
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn: Spurningar frá lesendum
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Þiggðu handleiðslu lifanda Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
Sjá meira
„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
lv bls. 215-bls. 218 gr. 1

VIDAUKI

Blóðþættir og skurðaðgerðir

Blóðþættir. Blóðþættir eru unnir úr blóðhlutunum fjórum, það er að segja rauðkornum, hvítkornum, blóðflögum og blóðvökva. Rauðkornin innihalda til dæmis blóðrauða. Unninn hefur verið blóðrauði úr rauðkornum manna eða dýra og notaður við meðferð sjúklinga sem þjást af bráðu blóðleysi eða hafa misst mikið blóð.

Blóðvökvi er 90 prósent vatn og ber með sér alls kyns hormóna, ólífræn sölt, ensím og næringarefni, þar á meðal steinefni og sykur. Í blóðvökvanum eru einnig storkuþættir, mótefni gegn sjúkdómum og prótín eins og albúmín. Við ákveðnum sjúkdómum eru oft gefnar sprautur af gammaglóbúlíni en það er unnið úr blóðvökva fólks sem er ónæmt fyrir viðkomandi sjúkdómi. Úr hvítkornum má vinna veiruvarnaboða (interferón) og hvítfrumuboða (interleukin) en þeir eru notaðir gegn sumum veirusýkingum og krabbameini.

Ættu kristnir menn að þiggja meðferð sem felur í sér að þeim séu gefnir blóðþættir? Í Biblíunni er ekki kveðið upp úr um það svo að hver og einn þarf að gera það upp við samvisku sína frammi fyrir Guði. Sumir afþakka alla blóðþætti og taka þá mið af því að samkvæmt lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, hafi átt að „hella . . . á jörðina“ blóði sem tekið var úr skepnu. (5. Mósebók 12:22-24) Aðrir þiggja læknismeðferð sem felur í sér að þeir fái blóðþætti, þó svo að þeir þiggi ekki heilblóð eða blóðhluta. Þeir hugsa sem svo að á einhverju stigi hætti þessir þættir, sem eru unnir úr blóði, að tákna líf þess sem þeir eru teknir úr.

Þegar þú tekur afstöðu til blóðþátta skaltu íhuga eftirfarandi: Ef þú þiggur alls enga blóðþætti, er þér þá ljóst að þar með útilokar þú ýmis lyf, meðal annars lyf gegn sumum sýkingum og sjúkdómum og sum lyf sem flýta fyrir því að blóð storkni og blæðingar stöðvist? Geturðu útskýrt fyrir lækni af hverju þú hafnar eða þiggur einn eða fleiri blóðþætti?

Skurðaðgerðir. Þær geta falið í sér blóðvökvaaukningu og endurvinnslu blóðs í aðgerð. Blóðvökvaaukning fer þannig fram að blóð er dregið úr líkamanum og blóðþenslulyf gefið í staðinn. Í lok aðgerðar er blóðinu veitt aftur í sjúkling. Endurvinnsla blóðs í aðgerð felst í því að blóði er safnað úr skurðsári eða líkamsholi, það er síað og þvegið og því síðan veitt aftur inn í blóðrásina. Þar sem breytilegt er eftir læknum hvernig þessar aðferðir eru útfærðar ætti kristinn maður að kanna hvað læknirinn hefur í huga.

Þegar þú tekur ákvörðun um slíkar meðferðir skaltu spyrja þig eftirfarandi spurninga: Ef einhverju af blóði mínu er veitt út úr líkamanum og blóðflæðið er jafnvel stöðvað um tíma, leyfir þá samviskan mér að líta svo á að blóðið sé enn þá hluti af mér þannig að það þurfi ekki að ,hella því á jörðina‘? (5. Mósebók 12:23, 24) Myndi það angra biblíufrædda samvisku mína að gangast undir rannsókn eða meðferð þar sem mér væri dregið blóð sem væri síðan breytt á einhvern hátt og veitt aftur inn í líkamann? Er mér ljóst að ef ég hafna öllum lækningaraðferðum sem fela í sér meðferð á mínu eigin blóði er ég þar með að hafna blóðrannsókn, blóðskiljun og notkun hjarta- og lungnavélar?

Chart on page 216

Kristinn maður þarf að ákveða sjálfur hvernig hann leyfir að blóð sitt sé meðhöndlað meðan á skurðaðgerð stendur. Hið sama er að segja um læknisrannsóknir og meðferðir sem eru meðal annars fólgnar í því að dregið er lítið eitt af blóði sjúklings, það er meðhöndlað á einhvern hátt og síðan gefið honum á ný.

SPURNINGAR SEM ÞÚ GÆTIR SPURT LÆKNINN

Ef þú þarft að gangast undir skurðaðgerð eða læknismeðferð þar sem efni unnin úr blóði gætu komið við sögu skaltu ganga úr skugga um að þú sért með yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar sem er til þess gerð að tryggja að þér sé ekki gefið blóð. Þú gætir auk þess spurt lækninn eftirfarandi spurninga:

  • Vita allir heilbrigðisstarfsmenn, sem hlut eiga að máli, að ég er vottur Jehóva og að ég heimila ekki að mér sé gefið blóð (heilblóð, rauðkorn, hvítkorn, blóðflögur eða blóðvökvi) undir nokkrum kringumstæðum?

  • Ef mælt er með að ég fái lyf sem inniheldur blóðþætti, hvernig er það samsett? Hve mikið myndi ég fá af þessu lyfi og með hvaða hætti?

  • Ef samviska mín leyfir að ég þiggi blóðþátt, hvaða áhætta fylgir því? Hvaða aðrir kostir eru í stöðunni?

Áður en þú tekur ákvörðun um það sem hér hefur komið fram skaltu leggja málið fyrir Jehóva í bæn. Hann lofar að veita öllum visku sem biðja hann í trú. — Jakobsbréfið 1:5, 6.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila