Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • yp2 kafli 1 bls. 14-20
  • Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?
  • Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað þýðir það að „vera saman“?
  • Af hverju langar þig til að byrja með einhverjum?
  • Hvað þarf maður eiginlega að vera gamall?
  • Ertu tilbúin(n) til að giftast?
  • Það sem þú getur gert
  • Er ég undirbúin(n) að vera með strák/stelpu?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Stefnumót – 1. hluti: Er ég tilbúinn til að fara á stefnumót?
    Ungt fólk spyr
  • Af hverju er varasamt að leyna sambandinu?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Pössum við saman?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
Sjá meira
Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
yp2 kafli 1 bls. 14-20

KAFLI 1

Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?

„Ég finn fyrir ótrúlega miklum þrýstingi til að eignast kærasta og það er líka til ótrúlega mikið af sætum strákum.“ — Whitney.

„Sumar stelpur ganga stíft á eftir manni, og mig langar til að segja já. En ef ég myndi spyrja mömmu og pabba veit ég hvað þau myndu segja.“ — Filip.

LÖNGUNIN til að byrja með einhverjum sem þú ert hrifin(n) af — og sem er hrifin(n) af þér — getur verið mjög sterk, jafnvel þegar maður er mjög ungur. „Ég byrjaði að finna fyrir miklum þrýstingi að eiga kærasta þegar ég var 11 ára,“ segir Jenný. Brittany segir: „Í skólanum líður manni eins og maður sé bara hálf manneskja ef maður á ekki kærasta — sama hver hann er.“

Hvað um þig? Ert þú undir það búin(n) að byrja með einhverjum? Áður en þú svarar því skulum við fyrst skoða eina grundvallarspurningu:

Hvað þýðir það að „vera saman“?

Merktu við hverju þú myndir svara:

Þið farið reglulega út á stefnumót. Eruð þið saman?

□ Já

□ Nei

Þið laðist að hvort öðru. Þið sendið hvort öðru SMS-skilaboð oft á dag eða talið saman í síma. Eruð þið saman?

□ Já

□ Nei

Í hvert skipti sem þið hittið vini ykkar eruð þið tvö alltaf mest saman. Eruð þið saman?

□ Já

□ Nei

Þér fannst örugglega ekki erfitt að svara fyrstu spurningunni. En þú þurftir kannski aðeins að hugsa málið áður en þú svaraðir annarri og þriðju spurningunni. Hvað þýðir það nákvæmlega að „vera saman“? Það eru hvers kyns félagsleg samskipti þar sem tvær manneskjur sýna hvor annarri rómantískan áhuga. Svarið er því já við öllum spurningunum hér fyrir ofan. Ef þú og vinur þinn eða vinkona eruð hrifin hvort af öðru og talið reglulega saman, hvort sem það er í síma, augliti til auglitis, opinberlega eða í leyni, þá eruð þið saman. Ertu tilbúin(n) í samband og allt sem því fylgir? Hér á eftir koma þrjár spurningar sem hjálpa þér að komast að því.

Af hverju langar þig til að byrja með einhverjum?

Á mörgum menningarsvæðum er það viðtekin venja að fólk sé saman til að kynnast hvort öðru betur. En slíkt samband ætti að hafa göfugan tilgang — að hjálpa ungum manni og ungri konu að komast að því hvort þau vilji giftast hvort öðru.

Sumir jafnaldrar þínir taka þessu ef til vill ekki jafn alvarlega. Þeim finnst kannski bara gaman að eiga mjög náinn vin af hinu kyninu án þess að vera með hjónaband í huga. Sumir líta jafnvel á slíkan vin eða vinkonu sem einskonar verðlaunagrip eða fylgihlut til að auka sjálfstraustið og sýnast fyrir öðrum. En slík yfirborðskennd sambönd eru yfirleitt skammlíf. „Mörg kærustupör hætta saman eftir eina eða tvær vikur,“ segir stelpa sem heitir Heather. „Þau líta svo á að sambönd séu tímabundin — sem í raun undirbýr þau betur fyrir skilnað en fyrir hjónaband.“

Þegar þú ert með einhverjum er nokkuð ljóst að þú hefur áhrif á tilfinningar hans eða hennar. Þú verður þess vegna að vera viss um að hvatir þínar séu réttar. Myndir þú vilja að einhver væri að leika sér með tilfinningar þínar eins og þær væru bara eitthvert leikfang — til að leika sér með í smástund en henda því svo frá sér? Stelpa sem heitir Chelsea segir: „Ég myndi vilja segja að það væri í lagi að byrja með einhverjum til gamans en það er ekkert gaman þegar annar aðilinn tekur þessu alvarlega en hinn ekki.“

Hvað þarf maður eiginlega að vera gamall?

Hvað finnst þér að maður þurfi að vera gamall til að byrja með einhverjum? ․․․․․

Spyrðu síðan foreldra þína sömu spurningar og skrifaðu niður þeirra svar. ․․․․․

Það eru miklar líkur á að fyrri talan sé lægri en sú seinni. Eða kannski ekki. Þú ert ef til vill einn af mörgum unglingum sem hefur ákveðið að byrja ekki með neinum fyrr en þú hefur aldur til að þekkja sjálfan þig betur. Danielle ákvað að gera það. Hún er 17 ára og segir: „Ef ég hugsa um það hverju ég hefði leitað eftir í fari tilvonandi maka fyrir tveim árum hefur það breyst alveg ótrúlega mikið. Og eiginlega treysti ég sjálfri mér ekki enn til að taka slíka ákvörðun. Þegar mér finnst ég hafa náð ákveðnum þroska og stöðugleika þá get ég farið að hugsa um sambönd.“

Það er líka önnur ástæða fyrir því að það er skynsamlegt að bíða. Í Biblíunni er talað um ,æskublómann‘, það tímabil í lífi okkar þegar við upplifum fyrst kynhvötina og rómantískar tilfinningar geta orðið sterkar. (1. Korintubréf 7:36, New World Translation) Ef þú ert í nánu sambandi við einhvern af hinu kyninu meðan þú ert enn þá á þessu kynþroskaskeiði geta ástríðurnar auðveldlega blossað upp og leitt til rangrar hegðunar. Að vísu skiptir þetta suma jafnaldra þína kannski ekki svo miklu máli. Og margir þeirra eru jafnvel mjög áhugasamir um kynlíf. En þú þarft ekki að vera á sama plani og þeir. (Rómverjabréfið 12:2) Auk þess erum við hvött í Biblíunni til að „flýja kynferðislegt siðleysi“. (1. Korintubréf 6:18, New International Version) Ef þú bíður þangað til þú ert kominn yfir ,æskublómann‘ geturðu komist hjá alls kyns erfiðleikum og vandamálum. — Prédikarinn 11:10.

Ertu tilbúin(n) til að giftast?

Til að hjálpa þér að svara þessari spurningu skaltu gera sjálfsrannsókn. Hugleiddu eftirfarandi:

Sambönd. Hvernig kemurðu fram við foreldra þína og systkini? Missirðu oft stjórn á þér og notar kannski hörð orð eða kaldhæðni til að segja skoðun þína? Hvað myndu þau segja um þig að þessu leyti? Framkoma þín við fjölskylduna gefur til kynna hvernig þú átt eftir að koma fram við maka þinn. — Lestu Efesusbréfið 4:31.

Persónuleiki. Ertu jákvæð eða neikvæð manneskja? Sýnirðu öðrum sanngirni, eða krefstu þess alltaf að hlutirnir séu gerðir á ákveðinn hátt, eftir þínu höfði? Geturðu haldið ró þinni undir álagi? Ertu þolinmóð manneskja? Ef þú ræktar með þér ávöxt anda Guðs núna hjálpar það þér að búa þig undir hjónaband seinna meir. — Lestu Galatabréfið 5:22, 23.

Fjármál. Hvernig gengur þér að hafa stjórn á peningum? Kemstu oft í skuld? Geturðu haldið vinnu? Ef ekki, hvers vegna? Er það út af vinnunni sjálfri, yfirmanninum, eða er það út af einhverjum ávana eða eiginleika sem þú þarft að vinna í? Ef þú átt í erfiðleikum með að hafa stjórn á fjármálum þínum hvernig heldurðu að það eigi eftir að ganga að hugsa um fjármál heillar fjölskyldu? — Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:8.

Andleg mál. Ef þú ert vottur Jehóva, hvað gerirðu til að viðhalda góðu sambandi við Jehóva Guð? Tekurðu frumkvæðið að því að lesa í Biblíunni, taka þátt í boðunarstarfinu og svara á safnaðarsamkomum? Manneskjan, sem þú giftist, á ekkert annað skilið en maka sem er sterkur í trúnni. — Lestu Prédikarann 4:9, 10.

Það sem þú getur gert

Að verða fyrir þrýstingi til að byrja með einhverjum áður en maður er tilbúinn til þess er eins og að vera þvingaður til að taka lokapróf í einhverri námsgrein sem maður var að byrja í. Það væri auðvitað ekki sanngjarnt. Maður þarf tíma til að læra fagið og undirbúa sig til að geta tekist á við það sem kemur á prófinu.

Það er svipað með samband við einhvern af hinu kyninu. Við höfum komist að raun um að það er ekkert léttvægt mál að byrja með einhverjum. Áður en þú ert tilbúin(n) til að einbeita þér að einni manneskju, þarftu því að gefa þér tíma til að læra eitt mikilvægt „fag“ — að rækta góð vináttusambönd. Seinna þegar þú hittir réttu manneskjuna verður auðveldara fyrir þig að byggja upp sterkt samband. Þegar allt kemur til alls er farsælt hjónaband samband tveggja góðra vina.

Þótt þú bíðir með að byrja með einhverjum heftir það ekki frelsi þitt. Þvert á móti veitir það þér meira frelsi til að ,gleðjast í æsku þinni‘. (Prédikarinn 11:9) Og þú færð meiri tíma til að undirbúa þig með því að þroska persónuleika þinn og ekki síst þinn andlega mann. — Harmljóðin 3:27.

Á meðan geturðu notið þess að umgangast vini af hinu kyninu. Hvernig er best að gera það? Njótið félagsskapar hvert annars í blönduðum hópum þar sem einhver fullorðinn hefur umsjón. Stelpa sem heitir Tammy segir: „Mér finnst það miklu skemmtilegra. Það er betra að eiga marga vini.“ Mónika er sammála þessu. Hún segir: „Að vera saman í hóp er góð hugmynd vegna þess að þá kynnist maður fólki með mismunandi persónuleika.“

En ef þú einbeitir þér að einni persónu of snemma máttu gera ráð fyrir að það endi með ástarsorg. Gefðu þér þess vegna nægan tíma. Notaðu þetta tímabil í lífinu til að eignast vini og læra að rækta vináttuna. Og ef þú ákveður að byrja með einhverjum seinna þá veistu betur hver þú ert og hverju þú leitar að í fari lífsförunautar.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 29 OG 30 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Í NÆSTA KAFLA

Finnst þér freistandi að byrja með einhverjum án þess að foreldrar þínir viti af því? Það fylgir því meiri hætta en þú áttar þig kannski á.

LYKILRITNINGARSTADUR

„Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ — Orðskviðirnir 14:15.

RÁÐ

Til að vera betur undir það búin(n) að byrja með einhverjum og ganga í hjónaband skaltu lesa 2. Pétursbréf 1:5-7 og velja einn eiginleika sem þú þarft að vinna í. Eftir einn mánuð skaltu síðan athuga hvað þú hefur lært um þennan eiginleika og hvort þú hafir tekið framförum.

VISSIR ÞÚ . . .?

Margar rannsóknir benda til þess að fólk sem giftir sig áður en það nær 20 ára aldri sé líklegt til að skilja innan fimm ára.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til að búa mig undir hjónaband verð ég að vinna í eftirfarandi eiginleikum: ․․․․․

Ég get unnið í þessum eiginleikum með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Við hvaða aðstæður er viðeigandi að strákar og stelpur hittist?

● Hvað myndirðu segja við systkini þitt sem langar til að byrja með einhverjum en er of ungt til þess?

● Ef þú ert í föstu sambandi en hefur engan áhuga á hjónabandi, hvaða áhrif heldurðu að það geti haft á hinn aðilann?

[Innskot á blaðsíðu 18]

„Mér finnst að maður ætti aðeins að stofna til sambands ef hinn aðilinn skiptir mann verulega miklu máli og maður heldur að sambandið verði varanlegt. Manni ætti að þykja vænt um persónuna, ekki bara hugmyndina um að vera ástfanginn.“— Amber

[Mynd á bls. 16, 17]

Ef þú byrjar með einhverjum án þess að hafa hjónaband í huga ertu eins og barn sem leikur sér með nýtt leikfang og hendir því síðan frá sér.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila