Lesender spyrja …
Taka konur sem eru vottar Jehóva þátt í að kenna?
Já, milljónir kvenna um heim allan sem eru vottar Jehóva eru kennarar. Þær mynda stóran hóp boðbera fagnaðarboðskaparins um Guðsríki. Í Sálmi 68:12 er spáð um þessa boðbera: „Drottinn lætur boðskap út ganga, heill her kvenna flytur sigurfréttina.“
En störf kvenna sem eru vottar Jehóva og kvenna í prestastéttinni eru ekki sambærileg, heldur er skýr munur á þeim. Að hvaða leyti?
Áheyrendahóparnir í starfi þeirra eru ólíkir. Konur sem eru prestar, sérstaklega í kristna heiminum, taka forystu innan safnaðar þeirra og áheyrendur eru aðallega fólk í söfnuðinum. Konur sem eru vottar Jehóva kenna aðallega fólki utan safnaðarins sem þær hitta í boðun þeirra hús úr húsi eða á annan hátt.
Konur meðal votta Jehóva skera sig líka úr þegar kemur að starfseminni innan safnaðarins. Konur sem eru prestar í kristna heiminum eða öðrum trúfélögum taka að sér forystuhlutverk og veita þeim sem eru í söfnuðinum trúarlega kennslu. Konur sem eru vottar Jehóva kenna ekki í söfnuðinum að skírðum karlmönnum viðstöddum. Það gera aðeins karlmenn sem eru útnefndir til þess. – 1. Tímóteusarbréf 3:2; Jakobsbréfið 3:1.
Biblían talar bara um að karlar gegni ábyrgðarstöðu innan safnaðarins. Taktu eftir því sem Páll postuli skrifaði Títusi, sem var líka umsjónarmaður: „Ég skildi þig eftir á Krít til að … útnefna öldunga í borg eftir borg.“ Páll bætti við að hver og einn sem væri útnefndur öldungur mætti „ekki liggja undir ámæli“ og ætti „að vera einnar konu eiginmaður“. (Títusarbréfið 1:5, 6) Í bréfi sínu til Tímóteusar gaf Páll svipaðar leiðbeiningar: „Ef maður sækist eftir að verða umsjónarmaður þráir hann göfugt starf. Umsjónarmaður má ekki liggja undir ámæli, hann á að vera einnar konu eiginmaður … hæfur kennari.“ – 1. Tímóteusarbréf 3:1, 2.
Hvers vegna takmarkast umsjónarstarf í söfnuðinum við karlmenn? Páll segir: „Ég leyfi ekki að kona kenni eða fari með vald yfir karlmanni heldur á hún að vera hljóð. Adam var myndaður fyrst og síðan Eva.“ (1. Tímóteusarbréf 2:12, 13) Röð sköpunarinnar gefur því til kynna þann vilja Guðs að karlmönnum sé falin sú ábyrgð að kenna og fara með umsjón.
Vottar Jehóva fylgja fordæmi leiðtoga síns, Jesú Krists. Lærisveinninn Lúkas sagði um þjónustu Jesú: „Skömmu síðar fór hann borg úr borg og þorp úr þorpi og boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs.“ Seinna sendi Jesús af stað lærisveina sína til að vinna sama starf: „Þeir … fóru um svæðið þorp úr þorpi, boðuðu fagnaðarboðskapinn.“ – Lúkas 8:1; 9:2–6.
Vottar Jehóva, bæði karlar og konur, taka nú virkan þátt í að gera það sem Jesús sagði fyrir: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann, og síðan kemur endirinn.“ – Matteus 24:14.