Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w17 maí bls. 31-32
  • „Af meiri ákafa og kærleika í hjarta en nokkru sinni fyrr“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Af meiri ákafa og kærleika í hjarta en nokkru sinni fyrr“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
w17 maí bls. 31-32
Yfirfullur salur á mótinu í Cedar Point í Ohio árið 1922.

ÚR SÖGUSAFNINU

„Af meiri ákafa og kærleika í hjarta en nokkru sinni fyrr“

ÞAÐ var farið að hitna í veðri að morgni föstudags í september 1922 þegar 8.000 manns þyrptust inn í salinn. Fundarstjórinn tilkynnti að mönnum væri frjálst að yfirgefa þessa þýðingarmiklu samkomu en enginn fengi að koma inn í salinn aftur.

Dagskráin hófst með því að sungnir voru lofsöngvar og síðan gekk Joseph F. Rutherford að ræðupúltinu. Flestir í salnum sátu kyrrir og biðu spenntir. Fáeinir gengu eirðarlausir um í steikjandi hitanum. Ræðumaðurinn hvatti þá eindregið til að setjast og hlusta. Síðan hófst ræðan. Skyldi einhver hafa tekið eftir stórum upprúlluðum borða sem hékk hátt yfir höfðum áheyrenda?

Ræða bróður Rutherfords nefndist: „Himnaríkið er í nánd.“ Sterk rödd hans ómaði um salinn í hér um bil eina og hálfa klukkustund meðan hann ræddi hvernig spámenn fortíðar hefðu óttalaust boðað hið komandi ríki. Rutherford náði hámarki í ræðu sinni þegar hann spurði: „Trúið þið að konungur dýrðarinnar sé sestur að völdum?“ „Já!“ hrópuðu áheyrendur svo undir tók í salnum.

„Farið þá aftur út á akurinn, ó þið synir hins hæsta Guðs!“ þrumaði bróðir Rutherford. „Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans. Þið skuluð því kunngera, kunngera, kunngera.“

Á sama augnabliki breiddist úr upprúlluðum borðanum fyrir ofan sviðið og við sjónum blasti slagorðið: „Kunngerið konunginn og ríki hans.“

„Áheyrendur voru yfir sig spenntir,“ sagði Ray Bopp. Anna Gardner sagði svo frá að „húsið hefði nötrað við dynjandi lófatak áheyrenda“. Fred Twarosh talaði um að „allur áheyrendaskarinn hefði staðið upp sem einn maður“. Og Evangelos Scouffas bætti við: „Það var engu líkara en að sterkur kraftur hefði kippt okkur upp úr sætunum, og við stóðum með tárin í augunum.“

Margir sem sóttu mótið voru þegar byrjaðir að boða fagnaðarerindið um ríkið. En nú fylltust þeir nýjum krafti. Ethel Bennecoff minntist þess að biblíunemendurnir hefðu lagt sig fram „af meiri ákafa og kærleika í hjarta en nokkru sinni fyrr“. Odessa Tuck var 18 ára þegar mótið var haldið. Hún fór heim frá mótinu staðráðin í að svara kallinu: „Hver vill reka erindi vort?“ „Ég vissi ekki hvernig átti að fara að, hvert ég átti að fara eða hvað ég átti að gera,“ sagði hún. „Það eina sem ég vissi var að ég vildi vera eins og Jesaja“ en hann sagði: „Hér er ég. Send þú mig.“ (Jes. 6:8) „Þennan merkisdag hófst fyrir alvöru boðunarátakið um ríki Guðs sem hefur nú teygt sig um alla jörðina,“ sagði Ralph Leffler.

Það er engin furða að mótið í Cedar Point í Ohio árið 1922 hafi markað tímamót í sögu þjóna Guðs. „Þetta mót vakti með mér löngun til að missa aldrei af móti,“ sagði George Gangas. Í æviminningum sínum minntist hann þess ekki að það hefði nokkurn tíma gerst. Julia Wilcox skrifaði: „Ég get hreinlega ekki lýst sælustraumnum sem fer um mig í hvert sinn sem minnst er á Cedar Point-mótið 1922 í ritunum okkar. Í hvert sinn langar mig til að segja: ,Þakka þér, Jehóva, fyrir að leyfa mér að vera þar.‘“

Mörg okkar eiga líklega kærar minningar um mót sem hafði sérstök áhrif á okkur og fyllti okkur ákafa og kærleika til Jehóva Guðs og konungsins Jesú. Þegar við rifjum upp minningar af þessu tagi segjum við líka með sjálfum okkur: „Þakka þér, Jehóva, fyrir að leyfa mér að vera þar.“

Dularfull spjöld

Stafirnir „ADV“ voru út um allt – á trjám, húsum og meira að segja á mótsdagskránni. Mótsgestir brunnu í skinninu af forvitni.a

„Á öllum súlum og við alla innganga voru hvít spjöld sem stafirnir ADV voru prentaðir á með stóru svörtu letri. Við spurðum hvað stafirnir merktu en enginn virtist vita það, og ef þeir vissu það vildu þeir ekki segja okkur það.“ – Edith Brenisen.

a Spjöldin eru enn ráðgáta. Starfsmenn safnadeildarinnar hafa ekki fundið neinar ljósmyndir af þeim hingað til.

Bænheyrsla bak við tjöldin

Arthur og Nellie Claus mættu snemma til að ná sér í góð sæti. „Ég drakk í mig hvert einasta orð,“ sagði Arthur. En skyndilega fékk hann magakrampa. Hann neyddist til að yfirgefa salinn vitandi að hann fengi ekki að koma inn aftur. „Hvernig geturðu farið út á svona stundu?“ spurði salarvörður. En Arthur vissi að hann átti ekki um neitt að velja.

Arthur heyrði dynjandi lófatak innan úr salnum þegar hann sneri aftur og fór að leita að smugu til að heyra það sem var að gerast inni fyrir. Hann uppgötvaði þá að hann gat klifrað upp á þakið sem var í tæplega fimm metra hæð og fikraði sig síðan að stórum þakgluggum sem stóðu opnir.

Þar voru fyrir nokkrir bræður sem rýndu niður á ræðumanninn. En þeir voru í vanda staddir. Þeir höfðu fengið þau fyrirmæli að skera samtímis í sundur nokkur bönd til að breiddist úr borða sem var upprúllaður þar. En þá vantaði einn hníf til að skera öll böndin samtímis. Var Arthur nokkuð með beittan vasahníf? Þeim létti stórum þegar í ljós kom að svo var. Arthur og hinir tóku sér stöðu og biðu eftir fyrirframákveðnu merki. Þeir áttu að skera böndin þegar bróðir Rutherford segði „kunngera“ í annað sinn.

Sjónarvottar hafa lýst hve mjúklega breiddist úr þrílitum borðanum en á honum miðjum var máluð mynd af Jesú.

Eftir á sögðu bræðurnir Arthuri frá því að þeir hefðu reist stiga til að komast upp á þakið en síðan hefði stiginn verið tekinn. Þeir gátu ekki leitað aðstoðar þannig að þeir báðu til Jehóva að senda til þeirra bróður með hníf. Þeir voru ekki í minnsta vafa um að Jehóva hefði bænheyrt þá með þessum athyglisverða hætti.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila