NÁMSGREIN 35
SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs
Hjálp handa þeim sem er vísað úr söfnuðinum
„Meiri fögnuður [verður] á himni yfir einum syndara sem iðrast en yfir 99 réttlátum sem þurfa ekki að iðrast.“ – LÚK. 15:7.
Í HNOTSKURN
Þessi grein fjallar um hvers vegna þarf að vísa sumum úr söfnuðinum og hvernig öldungar geta hjálpað þeim að iðrast og endurheimta samband sitt við Jehóva.
1, 2. (a) Hvernig lítur Jehóva á synd af ásettu ráði? (b) Hvað vonast Jehóva til að syndarar geri?
JEHÓVA er ekki undanlátssamur Guð. Hann lætur syndir ekki viðgangast. (Sálm. 5:4–6) Hann ætlast til þess að við virðum réttlátar siðferðiskröfur sínar í Biblíunni. Jehóva ætlast að sjálfsögðu ekki til fullkomnunar af ófullkomnu fólki. (Sálm. 130:3, 4) En hann umber ekki ‚óguðlega menn sem misnota einstaka góðvild hans til að réttlæta blygðunarlausa hegðun‘. (Júd. 4) Biblían talar reyndar um að ‚óguðlegum verði eytt‘ í stríði Guðs við Harmagedón. – 2. Pét. 3:7; Opinb. 16:16.
2 En Jehóva vill ekki að neinn farist. Eins og hefur komið fram í þessari greinaröð segir Biblían skýrum stöfum að hann vilji að „allir fái tækifæri til að iðrast“. (2. Pét. 3:9) Öldungar safnaðarins líkja eftir Jehóva með því að reyna þolinmóðir að hjálpa þeim sem gerst hafa brotlegir að sjá að sér og endurheimta samband sitt við Jehóva. En það bregðast ekki allir vel við. (Jes. 6:9) Sumir halda áfram rangri stefnu sinni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir öldunganna til að hjálpa þeim að iðrast. Hvað er þá til ráða?
„VÍSIÐ HINUM VONDA ÚR YKKAR HÓPI“
3. (a) Hvað segir Biblían að eigi að gera þegar menn iðrast ekki? (b) Hvers vegna má segja að hinn brotlegi hafi sjálfur valið að vera vísað úr söfnuðinum?
3 Þegar syndari iðrast ekki eiga öldungarnir ekki um annað að velja en að fara eftir fyrirmælunum í 1. Korintubréfi 5:13: „Vísið hinum vonda úr ykkar hópi.“ Í vissum skilningi hefur hinn brotlegi valið þessa niðurstöðu. Hann er að uppskera eins og hann sáði. (Gal. 6:7) Hvers vegna getum við sagt það? Vegna þess að hann hafnaði endurteknum tilraunum öldunganna til að leiða hann til iðrunar. (2. Kon. 17:12–15) Verk hans sýna að hann hefur kosið að fara ekki eftir siðferðiskröfum Jehóva. – 5. Mós. 30:19, 20.
4. Hvers vegna er lesin upp tilkynning þegar iðrunarlausum syndara er vísað úr söfnuðinum?
4 Þegar iðrunarlausum syndara er vísað úr söfnuðinum er lesin upp tilkynning þess efnis að hann sé ekki lengur vottur Jehóva.a Henni er ekki ætlað að lítillækka hinn brotlega. Hún er lesin upp til að söfnuðurinn geti fylgt fyrirmælum Biblíunnar um að „hætta að umgangast“ hann og „ekki einu sinni borða með“ honum. (1. Kor. 5:9–11) Það er gild ástæða fyrir þessum fyrirmælum. Páll postuli sagði: „Lítið súrdeig gerjar allt deigið.“ (1. Kor. 5:6) Iðrunarlaus syndari getur veikt ásetning þeirra sem reyna að lifa eftir réttlátum siðferðiskröfum Jehóva. – Orðskv. 13:20; 1. Kor. 15:33.
5. Hvernig ættum við að líta á trúsystkini sem hefur verið vísað úr söfnuðinum og hvers vegna?
5 Hvernig ættum við þá að líta á trúsystkini sem er vísað úr söfnuðinum? Við höfum ekki félagsskap við viðkomandi, en ættum að líta á hann sem týndan sauð en ekki glataðan. Sauður sem hefur villst frá hjörðinni getur snúið til baka. Munum að þessi týndi sauður vígði Jehóva líf sitt. Því miður lifir hann ekki samkvæmt heiti sínu eins og er og það setur hann í hættulega stöðu. (Esek. 18:31) En eins lengi og miskunn Jehóva varir er von um að hann snúi aftur. Hvernig geta öldungarnir endurspeglað þessa von gagnvart syndara sem hefur verið vísað úr söfnuðinum?
HVERNIG HJÁLPA ÖLDUNGARNIR ÞEIM SEM ER VÍSAÐ ÚR SÖFNUÐINUM?
6. Hvað gera öldungarnir til að hjálpa þeim sem hefur verið vísað úr söfnuðinum?
6 Er sá sem hefur verið vísað úr söfnuðinum skilinn eftir einn á báti og án hjálpar til að snúa aftur til Jehóva? Nei, engan veginn. Þegar iðrunarlaus syndari er látinn vita að honum verður vísað úr söfnuðinum útskýra öldungarnir fyrir honum hvað hann þurfi að gera til að snúa til baka. En þeir gera meira en það. Í flestum tilfellum segja þeir hinum brotlega að þeir myndu vilja hitta hann aftur eftir nokkra mánuði til að kanna hvort hugarfar hans hafi breyst. Ef hann er fús til að hitta þá aftur munu öldungarnir nota þann fund til að hvetja hann hlýlega til að iðrast og snúa til baka. Jafnvel þótt hugarfar hans hafi ekki breyst munu öldungarnir halda áfram að hafa samband við hann með nokkuð reglulegu millibili.
7. Hvernig endurspegla öldungarnir umhyggju Jehóva í samskiptum sínum við einstakling sem hefur verið vísað úr söfnuðinum? (Jeremía 3:12)
7 Öldungarnir leitast við að endurspegla umhyggju Jehóva í samskiptum sínum við þann sem hefur verið vísað úr söfnuðinum. Jehóva beið til dæmis ekki eftir að fráhverf þjóð hans, Ísrael til forna, tæki fyrsta skrefið. Hann tók frumkvæði að því að nálgast hana þó að hún hefði enn ekki sýnt nein merki um iðrun. Eins og rætt var í annarri námsgrein þessa blaðs sýndi Jehóva hversu umhyggjusamur hann er þegar hann sagði Hósea spámanni að fyrirgefa konunni sinni og taka saman við hana aftur þó að hún lifði enn í synd. (Hós. 3:1; Mal. 3:7) Öldungarnir líkja eftir Jehóva og þá langar innilega að syndarinn snúi við og þeir gera honum það ekki erfitt. – Lestu Jeremía 3:12.
8. Hvernig gefur dæmisaga Jesú um týnda soninn okkur betri innsýn í umhyggju og miskunn Jehóva? (Lúkas 15:7)
8 Rifjum upp dæmisögu Jesú um týnda soninn, sem var rætt um í annarri námsgreininni í þessu blaði. Um leið og faðirinn kom auga á soninn „hljóp [hann] á móti honum, faðmaði hann að sér og kyssti hann blíðlega“. (Lúk. 15:20) Taktu eftir að faðirinn beið ekki þangað til sonur hans kom og baðst fyrirgefningar heldur tók hann frumkvæðið og hljóp á móti honum því að honum þótti vænt um hann. Öldungarnir leitast við að sýna sams konar viðhorf til þeirra sem hafa villst af leið. Þeir vilja að þessir týndu sauðir snúi heim. (Lúk. 15:22–24, 32) Það er fögnuður á himni yfir syndara sem snýr aftur og það er líka fögnuður á jörðinni. – Lestu Lúkas 15:7.
9. Hvernig höfðar Jehóva hlýlega til þeirra sem hafa syndgað alvarlega?
9 Af því sem við höfum skoðað hingað til er augljóst að Jehóva lætur ekki viðgangast að iðrunarlausir syndarar séu í söfnuðinum. Engu að síður reynir hann að hjálpa þeim. Hann vill að þeir snúi til baka. Í Hósea 14:4 kemur fram hvernig Jehóva er innanbrjósts gagnvart iðrunarfullum syndurum: „Ég ætla að lækna ótryggð þeirra og elska þá af fúsum og frjálsum vilja því að reiði mín er snúin frá þeim.“ Þetta er sterk hvatning til öldunga um að bregðast við hverju merki um iðrun. Og þetta er líka sterk hvatning til þeirra sem hafa yfirgefið Jehóva um að koma til baka án tafar.
10, 11. Hvernig hjálpa öldungar þeim sem hefur þegar verið vísað úr söfnuðinum?
10 Hvað um einstaklinga sem hefur þegar verið vísað úr söfnuðinum, jafnvel fyrir mörgum árum síðan? Það má vel vera að þeir séu hættir að iðka það sem varð til þess að þeim var vísað úr söfnuðinum á sínum tíma. Sumir þeirra muna kannski ekki einu sinni hvers vegna þeim var vísað úr söfnuðinum. Hvernig sem málum er háttað munu öldungarnir reyna að finna þá og heimsækja þá. Þegar þeir heimsækja þá bjóðast þeir gjarnan til að biðja með þeim og hvetja þá hlýlega til að snúa aftur til safnaðarins. Trú þess sem hefur verið frá söfnuðinum í mörg ár er án efa mjög veik. Ef hann lætur í ljós löngun til að sameinast söfnuðinum aftur gætu öldungarnir fengið einhvern til að aðstoða hann við biblíunám, jafnvel áður en hann er tekinn inn í söfnuðinn aftur. Það er alltaf í verkahring öldunganna að koma slíku biblíunámskeiði í kring.
11 Öldungarnir vilja líkja eftir umhyggju Jehóva og ná til eins margra og mögulegt er til að fullvissa þá um að dyrnar standi þeim opnar til að koma til baka. Um leið og sá sem braut af sér sýnir að hann hafi iðrast og hætt rangri breytni er hægt að taka hann inn í söfnuðinn aftur. – 2. Kor. 2:6–8.
12. (a) Hvaða kringumstæður útheimta að öldungarnir séu sérstaklega varkárir? (b) Hvers vegna ætti okkur ekki að finnast að sumir syndarar geti aldrei hlotið miskunn Jehóva? (Sjá einnig neðanmáls.)
12 Við sumar kringumstæður þurfa öldungarnir að vera sérstaklega varkárir áður en þeir taka einstakling inn í söfnuðinn á ný. Ef hann gerðist til dæmis sekur um ofbeldi gegn barni, varð fráhvarfsmaður eða lagði á ráðin um að slíta hjónabandi þurfa öldungarnir að fullvissa sig um að hann hafi í raun iðrast. (Mal. 2:14; 2. Tím. 3:6) Þeim ber að vernda hjörðina. En við þurfum jafnframt að gera okkur grein fyrir að Jehóva tekur við hverjum syndara sem iðrast í raun og hættir rangri breytni. Jafnvel þó að öldungar séu varkárir gagnvart þeim sem hafa verið sviksamir við aðra ættu þeir aldrei að ganga svo langt að segja að sumir syndarar geti aldrei hlotið miskunn Jehóva.b – 1. Pét. 2:10.
HVAÐ GETUR SÖFNUÐURINN GERT?
13. Hver er munurinn á framkomu okkar við einstakling sem hefur fengið áminningu og einstakling sem hefur verið vísað úr söfnuðinum?
13 Eins og rætt var í síðustu námsgrein getum við haldið áfram að eiga félagsskap við einstakling sem hefur verið áminntur opinberlega. Við vitum að hann hefur iðrast og er hættur rangri breytni. (1. Tím. 5:20) Hann tilheyrir enn söfnuðinum og þarf á þeirri hvatningu að halda sem hann fær með félagsskap við trúsystkini. (Hebr. 10:24, 25) En því er allt öðruvísi farið með þann sem hefur verið vísað úr söfnuðinum. Við ‚hættum að umgangast‘ hann og ‚borðum ekki einu sinni með slíkum manni‘. – 1. Kor. 5:11.
14. Hvernig getum við notað biblíufrædda samvisku okkar í tengslum við framkomu okkar við einstakling sem vísað hefur verið úr söfnuðinum? (Sjá einnig mynd.)
14 Þýðir það sem við höfum skoðað að við ættum með öllu að sniðganga einstakling sem hefur verið vísað úr söfnuðinum? Ekki endilega. Við myndum að sjálfsögðu ekki hafa félagsskap við hann. En við getum notað biblíufrædda samvisku okkar til að ákveða hvort við bjóðum einhverjum á samkomu sem vísað hefur verið úr söfnuðinum – til dæmis ættingja eða einhverjum sem var okkur náinn áður. Og hvað ef hann mætir? Áður hefðum við ekki heilsað honum. En við þurfum einnig við þessar aðstæður að nota biblíufrædda samvisku okkar. Sumum getur fundist allt í lagi að heilsa honum eða bjóða hann velkominn á samkomuna. En við myndum ekki fara út í langar samræður eða hafa frekari félagsskap við hann.
Við getum notað biblíufrædda samvisku okkar til að ákveða hvort við ættum að bjóða einstaklingi sem hefur verið vísað úr söfnuðinum á samkomu eða hvort við ættum að heilsa honum stuttlega og bjóða hann velkominn ef hann kemur. (Sjá 14. grein.)
15. Hvaða syndurum er lýst í 2. Jóhannesarbréfi 9–11? (Sjá einnig ramman „Voru Jóhannes og Páll að ræða um sams konar syndir?“)
15 Sumir spyrja kannski hvort Biblían tali ekki um að sá sem heilsi slíkum einstaklingi taki þátt í vondum verkum hans. (Lestu 2. Jóhannesarbréf 9–11.) Samhengið sýnir að þessar leiðbeiningar eigi við um fráhvarfmenn og aðra sem ýta undir ranga hegðun. (Opinb. 2:20) Þess vegna myndu öldungarnir ekki heimsækja þann sem tekur virkan þátt í að dreifa fráhvarfskenningum eða ýtir undir aðra ranga hegðun. Það er samt mögulegt að slíkur einstaklingur sjái að sér. En þangað til myndum við hvorki heilsa honum né bjóða honum á samkomu.
LÍKJUM EFTIR UMHYGGJU OG MISKUNN JEHÓVA
16, 17. (a) Hvað vill Jehóva að syndarar geri? (Esekíel 18:32) (b) Hvernig geta öldungar unnið með Jehóva þegar þeir reyna að hjálpa syndurum?
16 Hvað höfum við lært af þessum fimm námsgreinum? Jehóva vill ekki að neinn farist. (Lestu Esekíel 18:32.) Hann vill að syndarar nái að sættast við hann. (2. Kor. 5:20) Þess vegna hefur hann í gegnum söguna aftur og aftur hvatt fráhverfa þjóna sína til að iðrast og snúa aftur til hans. Öldungar safnaðarins njóta þess heiðurs að vera samverkamenn Jehóva þegar þeir reyna að leiða syndara til iðrunar. – Rómv. 2:4; 1. Kor. 3:9.
17 Hugsaðu þér fögnuðinn á himni þegar syndari iðrast. Jehóva, himneskur faðir okkar, gleðst sjálfur innilega í hvert sinn sem einn af týndum sauðum hans snýr aftur til safnaðarins. Kærleikur okkar til Jehóva dýpkar enn meira þegar við hugleiðum umhyggju hans, miskunn og einstaka góðvild. – Lúk. 1:78.
SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum
a Við tölum ekki um brottrekstur. Í samræmi við orð Páls í 1. Korintubréfi 5:13 tölum við um að vísa úr söfnuðinum.
b Samkvæmt Biblíunni er ófyrirgefanleg synd ekki nein ákveðin tegund syndar heldur synd framin með einbeittum brotavilja af einhverjum sem hefur endanlega risið gegn Guði. Það er ekki okkar að dæma hvort einstaklingur hafi framið slíka synd. – Mark. 3:29; Hebr. 10:26, 27.