NÁMSGREIN 9
SÖNGUR 51 Við erum vígð Jehóva
Ekki fresta því að láta skírast
„Eftir hverju ertu að bíða? Stattu upp, láttu skírast.“ – POST. 22:16.
Í HNOTSKURN
Þú getur fundið hvatningu til láta skírast með því að skoða fyrirmyndir í Biblíunni – Samverja, Sál frá Tarsus, Kornelíus og Korintumenn.
1. Hvaða góðu ástæður hefurðu til að láta skírast?
ELSKARÐU Jehóva Guð sem hefur gefið þér allar góðar gjafir, þar á meðal lífið? Viltu sýna að þú elskir hann? Besta leiðin til þess er að þú vígir líf þitt honum og látir skírast. Þegar þú stígur þessi skref verðurðu hluti af fjölskyldu Jehóva. Hann er faðir þinn og vinur og mun þá leiðbeina þér og sjá um þig af því að þú tilheyrir honum. (Sálm. 73:24; Jes. 43:1, 2) Sem vígður og skírður þjónn Guðs eignastu þar að auki von um eilíft líf. – 1. Pét. 3:21.
2. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
2 Heldur eitthvað aftur af þér að láta skírast? Ef svo er máttu vita að þú ert ekki einn um það. Milljónir manna hafa þurft að breyta háttalagi sínu og hugsanagangi til að geta látið skírast. Núna eru þessar milljónir manna glaðir og kappsamir þjónar Jehóva. En við getum líka lært ýmislegt af frumkristnum mönnum sem létu skírast. Skoðum þær hindranir sem þeir þurftu að yfirstíga og sjáum hvað við getum lært af fordæmi þeirra.
SAMVERJAR LÉTU SKÍRAST
3. Hvaða breytingar þurftu Samverjar að gera til að láta skírast?
3 Samverjar á dögum Jesú tilheyrðu sértrúarhópi sem bjó nálægt borginni Síkem og í Samaríu norður af Júdeu. Áður en þeir gátu látið skírast þurftu þeir að fá nákvæmari þekkingu á orði Guðs. Samverjar viðurkenndu aðeins fyrstu fimm bækur Biblíunnar sem innblásið orð Guðs og hugsanlega Jósúabók. Þeir treystu loforði Guðs í 5. Mósebók 18:18, 19 um að Messías kæmi og biðu eftir komu hans. (Jóh. 4:25) Til að láta skírast þurftu þeir að trúa að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. „Margir Samverjar“ gerðu það. (Jóh. 4:39) Aðrir gætu hafa þurft að sigrast á rótgrónum fordómum í garð Gyðinga. – Lúk. 9:52–54.
4. Hvernig brugðust sumir Samverjar við boðun Filippusar samkvæmt Postulasögunni 8:5, 6, 14?
4 Hvað gerði Samverjum kleift að láta skírast? Þegar Filippus fór til Samaríu til að „boða Krist“ tóku sumir Samverjar við orði Guðs. (Lestu Postulasöguna 8:5, 6, 14.) Filippus var Gyðingur en þeir létu það ekki koma í veg fyrir að þeir hlustuðu á hann. Kannski rifjuðust upp fyrir þeim vers úr Mósebókunum þar sem segir að Guð mismuni engum. (5. Mós. 10:17–19) Þeir hlustuðu af athygli á Filippus tala um Krist og sáu skýrar sannanir fyrir því að andi Guðs var með honum. Hann gerði líka mörg tákn, eins og að lækna veika og reka út illa anda. – Post. 8:7.
5. Hvað geturðu lært af Samverjum?
5 Samverjarnir hefðu getað látið fordóma eða fáfræði standa í vegi fyrir framförum. En þeir gerðu það ekki. Þeir slógu því ekki á frest að láta skírast eftir að þeir sannfærðust um að Filippus kenndi þeim sannleikann. Frásagan segir: „Þegar Filippus boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs og nafn Jesú Krists tóku menn trú, bæði karlar og konur, og létu skírast.“ (Post. 8:12) Ertu sannfærður um að orð Guðs sé sannleikur og að vottar Jehóva leggi sig fram um að sýna ósvikinn kærleika sem er einkennismerki sannkristinna manna? (Jóh. 13:35) Láttu þá ekkert koma í veg fyrir að þú skírist. Jehóva mun blessa þig.
6. Hvað geturðu lært af Rúben?
6 Rúben er frá Þýskalandi og ólst upp í fjölskyldu votta Jehóva. En sem unglingur fór hann að efast um að Jehóva væri til. Hvernig sigraðist hann á efasemdunum? Hann áttaði sig á því að hann skorti þekkingu svo að hann ákvað að gera eitthvað í málinu. Hann sagði: „Ég varð að takast á við efasemdirnar í sjálfsnámi mínu. Ég þurfti að skoða þróunarkenninguna vandlega.“ Hann las bókina Er til skapari sem er annt um okkur? og hún hafði gríðarleg áhrif á hann. Hann hugsaði: „Vá, Jehóva er til.“ Rúben heimsótti aðalstöðvarnar og kunni þá enn betur að meta sameinað bræðralag okkar um allan heim. Þegar hann sneri aftur til Þýskalands lét hann skírast, 17 ára gamall. Ef þú efast um Guð, Biblíuna eða eitthvað annað sem þú hefur lært skaltu afla þér upplýsinga um efnið í ritunum okkar. Hægt er að vinna bug á efasemdum með „nákvæmri þekkingu“. (Ef. 4:13, 14) Og þú munt kunna enn betur að meta heimsbræðralagið þegar þú heyrir frásögur af kærleika og einingu sem ríkir meðal þjóna Jehóva í öðrum löndum og verður vitni að því í eigin söfnuði.
SÁL FRÁ TARSUS LÉT SKÍRAST
7. Hvernig þurfti Sál að leiðrétta hugsunarhátt sinn?
7 Lítum nú á reynslu Sáls frá Tarsus. Hann var hámenntaður í Gyðingdómnum og háttsettur meðal Gyðinga. (Gal. 1:13, 14; Fil. 3:5) Margir Gyðingar á þeim tíma litu á kristna menn sem fráhvarfsmenn. Sál var engin undantekning. Hann var ævareiður út í kristna menn og ofsótti þá. (Post. 8:3; 9:1, 2; 26:9–11) Ef Sál tæki trú á Jesú og léti skírast yrði hann sjálfur að vera tilbúinn að sæta ofsóknum.
8. (a) Hvað gerði Sál kleift að láta skírast? (b) Hvernig hjálpaði Ananías Sál samkvæmt Postulasögunni 22:12–16? (Sjá einnig mynd.)
8 Hvað gerði Sál kleift að láta skírast? Sál blindaðist þegar Jesús birtist honum í dýrð sinni. (Post. 9:3–9) Hann fastaði í þrjá daga og hugleiddi eflaust það sem hafði komið fyrir hann. Já, Sál sannfærðist um að Jesús væri Messías og að fylgjendur hans hefðu hina sönnu trú. Sál hlýtur að hafa verið fullur eftirsjár að hafa lagt blessun sína yfir morðið á Stefáni. (Post. 22:20) Að þrem dögum liðnum kom lærisveinn að nafni Ananías til hans, gaf honum sjónina aftur og hvatti hann til að hika ekki við að láta skírast. (Lestu Postulasöguna 22:12–16.) Sál var auðmjúkur, fór eftir því sem Ananías sagði og lét skírast. – Post. 9:17, 18.
Líkir þú eftir Sál og bregst vel við hvatningunni til að láta skírast? (Sjá 8. grein.)
9. Hvað geturðu lært af Sál?
9 Við getum lært ýmislegt af Sál. Hann hefði getað látið stolt og ótta við menn koma í veg fyrir að hann léti skírast. En hann gerði það ekki. Sál sýndi mikla auðmýkt þegar hann leiðrétti lífsstefnu sína og gerðist fylgjandi Krists. (Post. 26:14, 19) Hann tók við kristinni trú þótt hann vissi að það hefði ofsóknir í för með sér. (Post. 9:15, 16; 20:22, 23) Og sem skírður kristinn maður treysti hann á hjálp Jehóva til að takast á við margvíslegar prófraunir. (2. Kor. 4:7–10) Það getur reynt á trú þína þegar þú lætur skírast sem vottur Jehóva og þú getur orðið fyrir prófraun eða erfiðleikum sem reyna á trú þína. En þú mátt vera viss um að Guð og Kristur munu alltaf gefa þér nægan styrk svo að þú getir verið trúfastur og haldið út. – Fil. 4:13.
10. Hvað geturðu lært af Önnu?
10 Anna ólst upp í kúrdískri fjölskyldu í Austur-Evrópu. Eftir að mamma hennar lét skírast samþykkti pabbi hennar að hún mætti kynna sér Biblíuna, en hún var þá 9 ára gömul. Ættingjarnir, sem bjuggu í sama húsi og fjölskyldan, settu sig upp á móti þessu. Þeir álitu það skömm að segja skilið við trú forfeðranna. Þegar Anna var 12 ára bað hún pabba sinn um leyfi til að láta skírast. Hann vildi vita hvort hún hefði sjálf tekið þessa ákvörðun eða hvort það væri vegna þrýstings frá öðrum. Hún svaraði: „Ég elska Jehóva.“ Pabbi hennar leyfði henni að skírast. Eftir að hún lét skírast þurfti hún að þola háð og illa meðferð ættingja sinna. Einn þeirra sagði við hana: „Það væri betra fyrir þig að lifa siðlausu lífi og reykja en vera vottur Jehóva.“ Hvernig gat Anna þolað þetta? Hún segir sjálf: „Jehóva hjálpaði mér að vera sterk og mamma og pabbi voru alltaf til staðar fyrir mig.“ Anna hefur skrifað hjá sér atvik þegar hún hefur fundið fyrir hjálp Jehóva. Hún lítur af og til yfir það sem hún hefur skrifað til að gleyma ekki hvernig Jehóva hefur hjálpað henni. Ef þú óttast að verða fyrir andstöðu skaltu muna að Jehóva hjálpar þér líka. – Hebr. 13:6.
KORNELÍUS LÉT SKÍRAST
11. Hverjar voru aðstæður Kornelíusar?
11 Í Biblíunni getum við líka lesið um Kornelíus og lært af honum. Hann var „hundraðshöfðingi“, það er foringi 100 hermanna í rómverska hernum. (Post. 10:1, neðanmáls) Hann naut því trúlega virðingar bæði innan hersins og í samfélaginu. Hann var „guðhræddur“ og „gjafmildur við fátæka“. (Post. 10:2) Jehóva sendi Pétur postula til að boða honum fagnaðarboðskapinn. Lét Kornelíus stöðu sína koma í veg fyrir að hann léti skírast?
12. Hvað gerði Kornelíusi kleift að láta skírast?
12 Hvað gerði Kornelíusi kleift að láta skírast? Frásagan segir að hann hafi verið „guðhræddur og allt heimilisfólk hans sömuleiðis“. Kornelíus „bað oft og innilega til Guðs”. (Post. 10:2) Þegar Pétur boðaði honum fagnaðarboðskapinn tóku hann og fjölskylda hans við Kristi og létu strax skírast. (Post. 10:47, 48) Kornelíus var án efa tilbúinn að gera hvaða breytingar sem þurfti til að hann og fjölskylda hans gætu tilbeðið Jehóva saman. – Jós. 24:15; Post. 10:24, 33.
13. Hvað geturðu lært af Kornelíusi?
13 Líkt og Sál hefði Kornelíus getað notað stöðu sína sem afsökun fyrir því að láta ekki skírast. En hann gerði það ekki. Þarft þú að gera stórar breytingar til að geta látið skírast? Ef svo er, máttu vita að Jehóva hjálpar þér. Hann blessar þig ef þú ert staðráðinn í að þjóna honum í samræmi við meginreglur Biblíunnar.
14. Hvað geturðu lært af Tsuyoshi?
14 Tsuyoshi er frá Japan. Hann þurfti að gera breytingar á vinnunni sinni til að geta látið skírast. Hann var aðstoðarmaður skólastjóra í mjög þekktum skóla sem kennir fólki að gera blómaskreytingar. Skólastjórinn sá um blómaskreytingar fyrir útfarir og tók síðan þátt í búddhatrúarathöfnum. En þegar hann gat ekki mætt þurfti Tsuyoshi að mæta fyrir hönd hans. Þegar Tsuyoshi skildi sannleikann um dauðann vissi hann að hann þyrfti að hætta að taka þátt í þessum athöfnum til að geta látið skírast og hann ákvað að gera það. (2. Kor. 6:15, 16) Tsuyoshi ræddi þetta við yfirmanninn. Hann fékk að halda vinnunni og þurfti ekki að taka þátt í trúarathöfnunum. Hann lét skírast eftir að hafa kynnt sér Biblíuna í um það bil eitt ár.a Ef þú þarft að gera breytingar á vinnunni til að hafa velþóknun Guðs máttu vera viss um að hann sér til þess að þið fjölskyldan hafið allt sem þið þurfið. – Sálm. 127:2; Matt. 6:33.
KORINTUMENN LÉTU SKÍRAST
15. Hvað hefði getað staðið í veginum fyrir því að Korintumenn létu skírast?
15 Íbúar Korintu til forna voru þekktir fyrir efnishyggju og siðlaust líferni. Margir þar í borg gerðu hluti sem Guð hefur andúð á. Það hlýtur því að hafa verið mjög erfitt að taka við fagnaðarboðskapnum í slíku umhverfi. En þegar Páll postuli flutti þeim fagnaðarboðskapinn um Krist tóku „margir Korintumenn sem heyrðu boðskapinn … trú og létu skírast“. (Post. 18:7–11) Eftir þetta birtist Drottinn Jesús Kristur Páli í sýn og sagði: „Ég á margt fólk í þessari borg.“ Páll boðaði því Korintumönnum trúna í eitt og hálft ár.
16. Hvernig sigruðust Korintumenn á hindrunum og létu skírast? (2. Korintubréf 10:4, 5)
16 Hvað gerði Korintumönnum kleift að láta skírast? (Lestu 2. Korintubréf 10:4, 5.) Orð Guðs og öflugur andi hans hjálpaði þeim að gera róttækar breytingar í lífi sínu. (Hebr. 4:12) Korintumenn sem tóku við fagnaðarboðskapnum um Krist gátu upprætt venjur eins og drykkjuskap og þjófnað og sagt skilið við líferni samkynhneigðra. – 1. Kor. 6:9–11.b
17. Hvað geturðu lært af Korintumönnum?
17 Þótt sumir í Korintu þyrftu að glíma við rótgrónar venjur litu þeir ekki á þær sem ókleifar hindranir. Þeir gerðu allt sem þeir gátu til að komast á þrönga veginn sem liggur til eilífs lífs. (Matt. 7:13, 14) Ert þú að reyna að losa þig við slæman ávana eða gera breytingar á líferni þínu til að geta látið skírast? Gefstu aldrei upp í þeirri baráttu! Biddu Jehóva um heilagan anda. Hann getur hjálpað þér að berjast gegn lönguninni í það sem er illt.
18. Hvað geturðu lært af Moniku?
18 Monika er frá Georgíu. Hún lagði hart að sér til að leggja af ljótan talsmáta og hætta að stunda óviðeigandi afþreyingu til að geta látið skírast. Hún sagði: „Þegar ég var unglingur sótti ég kraft í bænina. Jehóva vissi að ég vildi gera hið rétta og var alltaf tilbúinn að hjálpa mér og leiðbeina.“ Monika lét skírast 16 ára gömul. Er eitthvað sem þú þarft að uppræta til að geta þjónað Jehóva á velþóknanlegan hátt? Haltu áfram að biðja hann um kraft til að gera breytingar. Jehóva gefur örlátlega af anda sínum. – Jóh. 3:34.
TRÚ ÞÍN GETUR FLUTT FJÖLL
19. Hvað getur hjálpað þér að sigrast á fjallháum hindrunum? (Sjá einnig mynd.)
19 Efastu aldrei um að Jehóva elski þig. Hann vill hafa þig í fjölskyldu sinni sama hvaða hindranir þú þarft að yfirstíga til að geta látið skírast. Jesús sagði við hóp lærisveina sinna: „Ef þið hafið trú á við sinnepsfræ getið þið sagt við þetta fjall: ‚Færðu þig þangað,‘ og það færir sig. Ekkert verður ykkur um megn.“ (Matt. 17:20) Þeir sem voru viðstaddir við þetta tækifæri höfðu ekki fylgt Jesú nema fáein ár þannig að trú þeirra þurfti að styrkjast. En Jesús fullvissaði þá um að ef þeir þroskuðu með sér nægilega sterka trú myndi Jehóva hjálpa þeim að sigrast á fjallháum hindrunum. Hann gerir það sama fyrir þig!
Efastu aldrei um að Jehóva elski þig og vilji hafa þig í fjölskyldu sinni. (Sjá 19. grein.)c
20. Hvernig hefur fordæmi frumkristinna manna og þjóna Guðs nú á dögum hvatt þig?
20 Ef þú stendur frammi fyrir hindrunum sem koma í veg fyrir að þú skírist skaltu ekki bíða boðanna heldur gera það sem þarf til að yfirstíga þær. Þú getur sótt styrk og huggun í frásögur af frumkristnum mönnum og þjónum Guðs nú á dögum. Megi fordæmi þeirra vera þér hvatning til að vígja líf þitt Jehóva og láta skírast. Það er besta ákvörðun sem þú getur tekið!
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
a Ævisaga bróður Tsuyoshi Fujii birtist í Vaknið! 8. ágúst 2005 á ensku.
b Sjá myndbandið Hvers vegna að fresta því að láta skírast? á jw.org.
c MYND: Bræður og systur bjóða nýskírða einstaklinga hjartanlega velkomna í söfnuðinn.