NÁMSGREIN 13
SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir
Hönd Jehóva er aldrei of stutt
„Er hönd Jehóva of stutt?“ – 4. MÓS. 11:23.
Í HNOTSKURN
Þessi námsgrein hjálpar okkur að treysta enn betur að Jehóva sjái okkur fyrir því sem við þurfum til að lifa.
1. Hvernig sýndi Móse að hann treysti Jehóva þegar hann leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?
HEBREABRÉFIÐ nefnir marga sem sýndu sterka trú. Einn þeirra, Móse, hafði einstaka trú. (Hebr. 3:2–5; 11:23–25) Hann sýndi trú þegar hann leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Hann lét faraó og her hans ekki hræða sig. Hann treysti algerlega á Jehóva og leiddi fólkið gegnum Rauðahafið og síðar út í óbyggðirnar. (Hebr. 11:27–29) Flestir Ísraelsmanna misstu trúna á því að Jehóva annaðist þá en Móse hélt áfram að treysta Guði sínum. Og hann olli honum ekki vonbrigðum því að Guð sá fólkinu fyrir mat og vatni með kraftaverki í hrjóstrugum óbyggðunum.a – 2. Mós. 15:22–25; Sálm. 78:23–25.
2. Hvers vegna spurði Guð Móse: „Er hönd Jehóva of stutt“? (4. Mósebók 11:21–23)
2 Móse hafði vissulega sterka trú en um það bil ári eftir að Guð frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi velti hann fyrir sér hvort Jehóva gæti gefið fólki sínu kjöt eins og hann hafði lofað. Hann gat ekki ímyndað sér hvernig Jehóva gæti séð milljónum manna í óbyggðunum fyrir nægu kjöti. Þá spurði Jehóva Móse: „Er hönd Jehóva of stutt?“ (Lestu 4. Mósebók 11:21–23.) Orðalagið „hönd Jehóva“ á við heilagan anda Guðs, eða kraft hans að verki. Jehóva var í raun að spyrja Móse hvort hann héldi í alvöru að hann gæti ekki staðið við það sem hann segist ætla að gera.
3. Hvers vegna ætti reynsla Móse og Ísraelsmanna að vekja áhuga okkar?
3 Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvort Jehóva muni sjá fyrir efnislegum þörfum þínum og fjölskyldu þinnar? Skoðum hvers vegna Móse og Ísraelsmenn treystu ekki Jehóva til að sjá þeim fyrir því sem þeir þurftu. Við lítum á meginreglur Biblíunnar sem geta styrkt traust okkar á því að hönd Jehóva sé aldrei of stutt.
LÆRUM AF MÓSE OG ÍSRAELSMÖNNUM
4. Hvers vegna fóru margir Ísraelsmenn að efast um að Jehóva myndi sjá fyrir þeim?
4 Lítum á aðstæðurnar. Ísraelsþjóðin og „fjölmennur blandaður hópur“ höfðu um tíma verið á ferðalagi um hinar miklu óbyggðir á leið sinni frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins. (2. Mós. 12:38; 5. Mós. 8:15) Þessi blandaði hópur varð þreyttur á að borða manna og margir Ísraelsmenn slógust í lið með honum og kvörtuðu. (4. Mós. 11:4–6) Fólkið saknaði þess að borða matinn sem hafði fengist í Egyptalandi. Móse fann fyrir miklum þrýstingi frá fólkinu og fannst hann ef til vill sjálfur þurfa að útvega því mat. – 4. Mós. 11:13, 14.
5, 6. Hvað lærum við af því að Ísraelsmenn urðu fyrir áhrifum af útlendingunum meðal þeirra?
5 Vanþakklæti útlendinganna sem voru með Ísraelsmönnum hafði augljóslega áhrif á þá. Vanþakklæti annarra gæti haft áhrif á okkur og við misst sjónar á því sem Jehóva gerir fyrir okkur. Það gæti gerst ef við litum með eftirsjá til þess sem við höfðum einu sinni eða þá að við færum að öfunda aðra af því sem þeir hafa. En við erum ánægðari ef við temjum okkur að vera þakklát fyrir það sem við höfum, óháð aðstæðum okkar.
6 Ísraelsmenn hefðu átt að muna að Guð hafði fullvissað þá um að þeir hefðu nóg af efnislegum gæðum þegar þeir kæmu í nýja landið. Það loforð átti að uppfyllast í fyrirheitna landinu, ekki á ferðalaginu um óbyggðirnar. Það er líka gott fyrir okkur að einblína ekki um of á það sem við höfum ekki í þessari heimsskipan heldur beina huganum að því sem Jehóva lofar að gefa okkur í komandi heimi. Við getum líka hugleitt biblíuvers sem hjálpa okkur að setja enn meira traust á Jehóva.
7. Hvers vegna getum við verið viss um að hönd Jehóva sé ekki of stutt?
7 Þú gætir samt velt því fyrir þér hvers vegna Guð spurði Móse: „Er hönd Jehóva of stutt?“ Hugsanlega var Jehóva að beina athygli Móse að því hversu langt hönd hans nær en ekki einungis hversu máttug hún er. Guð gat séð Ísraelsmönnum fyrir nægu kjöti þótt þeir væru í miðjum óbyggðum. „Með sterkri hendi og útréttum handlegg“ sýndi Guð mátt sitt. (Sálm. 136:11, 12) Við ættum því ekki að efast um að hönd Jehóva nái til okkar persónulega þegar við rötum í raunir. – Sálm. 138:6, 7.
8. Hvernig getum við forðast að gera sömu mistök og margir Ísraelsmenn gerðu í óbyggðunum? (Sjá einnig mynd.)
8 Jehóva sá fólkinu fljótlega fyrir kjöti, það fékk birgðir af kornhænsnum. Ísraelsmenn þökkuðu ekki Guði fyrir þetta kraftaverk heldur fylltust margir græðgi. Þeir unnu dag og nótt og söfnuðu gríðarlegu magni af kornhænsnum. Reiði Jehóva blossaði gegn þeim sem fylltust græðgi og hann refsaði þeim. (4. Mós. 11:31–34) Við getum lært af þessu. Við þurfum að varast græðgi. Hvort sem við erum rík eða fátæk ætti að skipta okkur mestu að rækta nána vináttu við Jehóva og Jesú og safna þannig „fjársjóðum á himni“. (Matt. 6:19, 20; Lúk. 16:9) Þegar við gerum það getum við verið örugg um að Jehóva sjái fyrir þörfum okkar.
Hvernig brugðust margir við þegar Jehóva gaf þeim kjöt að borða í óbyggðunum og hvað getum við lært af þessum atburði? (Sjá 8. grein.)
9. Hverju getum við treyst algerlega?
9 Jehóva réttir fram höndina til að hjálpa þjónum sínum nú á dögum. Það þýðir samt ekki að við getum aldrei misst efnislegar eigur okkar eða verðum aldrei svöng.b En Jehóva yfirgefur okkur aldrei. Hann mun styrkja okkur sama hvaða erfiðleika við glímum við. Hvernig getum við sýnt að við treystum því að Jehóva sjái fyrir þörfum okkar (1) þegar við leitum að vinnu til að sjá fjölskyldu okkar farborða og (2) þegar við höfum áhyggjur af því hvernig við sjáum fyrir okkur á efri árum?
ÞEGAR VIÐ LEITUM AÐ VINNU
10. Hvaða erfiðleikum gætum við lent í sem orsaka fjárhagserfiðleika?
10 Eftir því sem líður að endalokum núverandi heimsskipanar getum við vænst þess að efnahagsástandið versni enn meir. Glundroði í stjórnmálum, hernaðarátök, náttúruhamfarir eða nýjar farsóttir gætu kostað okkur óvænt fjárútlát. Við gætum líka misst vinnuna, eigur okkar eða heimili. Við gætum þurft að finna nýja vinnu þar sem við búum eða flytja fjölskyldu okkar eitthvert annað til að geta séð fyrir henni. Hvernig getum við tekið ákvarðanir sem sýna að við treystum á Jehóva?
11. Hvað getur hjálpað þér að glíma við fjárhagserfiðleika? (Lúkas 12:29–31)
11 Mikilvægast af öllu er að tala við Jehóva um áhyggjurnar. Það er mikil hjálp í því. (Orðskv. 16:3) Biddu hann um visku til að taka góðar ákvarðanir og hugarró til að forðast ‚að vera áhyggjufullur‘ yfir ástandinu. (Lestu Lúkas 12:29–31.) Biddu hann líka stöðugt um að hjálpa þér að vera sáttur við að hafa það nauðsynlegasta. (1. Tím. 6:7, 8) Finndu greinar í ritunum okkar til að fá góð ráð til að takast á við fjárhagserfiðleika. Margir hafa nýtt sér efni á jw.org í sambandi við slík mál.
12. Hvaða spurningar ætti fjölskylduhöfuð að spyrja sig til að taka þá ákvörðun sem er best fyrir fjölskylduna?
12 Sumir hafa freistast til að þiggja vinnu sem krefst þess að þeir flytji burt frá fjölskyldunni en það hefur síðan reynst óskynsamlegt. Áður en þú þiggur nýja vinnu skaltu hugsa um áhrifin sem hún gæti haft á samband fjölskyldunnar við Jehóva í stað þess að hugsa eingöngu um launin. (Lúk. 14:28) Spyrðu þig: Hvaða áhrif hefði það á hjónabandið ef ég flytti burt frá maka mínum? Hvaða áhrif hefði það á samkomusóknina, boðunina og samveru við bræður og systur? Ef þú átt börn er mikilvægt að þú spyrjir þig: Hvernig fer ég að því að „aga þau og leiðbeina þeim eins og Jehóva vill“ ef ég bý annars staðar? (Ef. 6:4) Láttu viðhorf Guðs leiðbeina þér frekar en viðhorf ættingja eða vina sem fylgja ekki meginreglum Biblíunnar.c Tony býr í Vestur-Asíu. Hann fékk mörg freistandi atvinnutilboð erlendis. En eftir að hafa lagt málið fyrir Jehóva í bæn og rætt það við eiginkonuna ákvað hann að hafna þessum tilboðum og skera frekar niður útgjöld fjölskyldunnar. Þegar Tony lítur til baka segir hann: „Ég hef fengið að hjálpa nokkrum einstaklingum að kynnast Jehóva og börnin okkar elska að þjóna honum. Við fjölskyldan höfum komist að því að Jehóva sér um okkur svo framarlega sem við lifum í samræmi við Matteus 6:33.“
ÞEGAR VIÐ HUGUM AÐ EFRI ÁRUM
13. Hvað getum við gert núna svo að við höfum það sem við þurfum á efri árum?
13 Það getur líka reynt á traust okkar til Jehóva þegar við íhugum stöðu okkar á efri árum. Í Biblíunni erum við hvött til að sýna dugnað svo að við eigum nóg fyrir útgjöldum síðar. (Orðskv. 6:6–11) Það er skynsamlegt að leggja eitthvað fyrir til framtíðar, eins og aðstæður okkar leyfa. Peningar veita vernd upp að vissu marki. (Préd. 7:12) Við ættum samt að gæta þess að peningar séu ekki það mikilvægasta í lífi okkar.
14. Hvers vegna ættum við að taka mið af Hebreabréfinu 13:5 þegar við skipuleggjum fjármálin?
14 Jesús sagði dæmisögu sem bendir á hversu heimskulegt það er að safna auði en vera ekki „ríkur í augum Guðs“. (Lúk. 12:16–21) Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. (Orðskv. 23:4, 5; Jak. 4:13–15) Við mætum sérstakri áskorun sem fylgjendur Krists. Jesús sagði að við yrðum að vera tilbúin að ‚segja skilið við‘ allt sem við eigum til að vera lærisveinar hans. (Lúk. 14:33) Kristnir menn á fyrstu öld létu það ekki á sig fá þótt þeir misstu allar eigur sínar. (Hebr. 10:34) Nú á dögum hafa mörg trúsystkini fórnað fjárhagslegu öryggi vegna þess að þau neituðu að taka afstöðu í stjórnmálum. (Opinb. 13:16, 17) Hvað hjálpaði þeim til þess? Þau treysta loforði Jehóva algerlega: „Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.“ (Lestu Hebreabréfið 13:5.) Við gerum okkar besta til að sýna fyrirhyggju en ef eitthvað óvænt hendir okkur treystum við á stuðning Jehóva.
15. Hvaða viðhorf ættu kristnir foreldrar að hafa til barna sinna? (Sjá einnig mynd.)
15 Í sumum menningarsamfélögum eignast fólk börn fyrst og fremst til að börnin annist foreldra sína fjárhagslega þegar þau eldast. En Biblían segir að foreldrar ættu að annast þarfir barnanna. (2. Kor. 12:14) Foreldrar þurfa að sjálfsögðu stundum að fá aðstoð þegar þeir eldast og mörg börn veita foreldrum sínum hana með ánægju. (1. Tím. 5:4) En foreldrar sem treysta Jehóva átta sig á að mesta ánægjan sem fylgir foreldrahlutverkinu er að hjálpa börnunum að þjóna Jehóva en ekki ala þau upp með það í huga að þau sjái fyrir foreldrunum á efri árum. – 3. Jóh. 4.
Hjón sem treysta Jehóva taka mið af meginreglum Biblíunnar þegar þau taka ákvarðanir um framtíðina. (Sjá 15. grein.)d
16. Hvernig geta foreldrar búið börnin sín undir að standa á eigin fótum? (Efesusbréfið 4:28)
16 Kenndu börnunum með fordæmi þínu að treysta á Jehóva þegar þú býrð þau undir að standa á eigin fótum. Sýndu þeim gildi þess að leggja sig fram í vinnu frá unga aldri. (Orðskv. 29:21; lestu Efesusbréfið 4:28.) Hjálpaðu þeim að leggja sig fram í skólanum. Það er gott fyrir kristna foreldra að finna meginreglur í Biblíunni sem hjálpa börnunum að velja sér menntun. Hún gerir þeim síðar kleift að sjá fyrir sér og hafa nægan tíma til boða trúna.
17. Hvað getum við verið viss um?
17 Trúfastir þjónar Jehóva geta reitt sig á getu hans og vilja til að sjá fyrir efnislegum þörfum þeirra. Við megum búast við að það reyni á trú okkar á Jehóva eftir því sem líður að endalokum þessa illa heims. En við berum fullt traust til Jehóva að hann beiti mætti sínum til að sjá okkur fyrir efnislegum nauðsynjum, sama hvað gerist. Við getum verið viss um að máttug og útrétt hönd hans sé aldrei of stutt til að ná til okkar.
SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs
a Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum í október 2023.
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. september 2014.
c Sjá greinina „Enginn getur þjónað tveimur herrum“ í Varðturninum 15. apríl 2014.
d MYND: Trúföst hjón halda sambandi við dóttur sína sem hjálpar til við byggingu ríkissalar með eiginmanni sínum.