Jeremía
8 „Á þeim tíma,“ segir Jehóva, „verða bein Júdakonunga, bein höfðingjanna, bein prestanna, bein spámannanna og bein Jerúsalembúa tekin úr gröfum þeirra. 2 Þeim verður dreift móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins sem þeir elskuðu, þjónuðu og fylgdu, leituðu til og féllu fram fyrir.+ Menn safna þeim hvorki saman né grafa þau. Þau verða að áburði fyrir jarðveginn.“+
3 „Allir sem lifa af og verða eftir af þessari illu þjóð munu kjósa dauðann frekar en lífið á öllum þeim stöðum sem ég læt þá hrökklast til,“ segir Jehóva hersveitanna.
4 „Þú skalt segja við þá: ‚Þetta segir Jehóva:
„Standa menn ekki upp aftur ef þeir falla?
Ef einhver snýr við, snýr þá ekki annar líka við?
5 Hvers vegna vilja Jerúsalembúar ekki láta af ótrúmennsku sinni?
Þeir halda fast við svik,
neita að snúa við.+
6 Ég tók eftir og hlustaði en það sem þeir sögðu var ekki satt.
Ekki einn einasti iðraðist illsku sinnar eða spurði: ‚Hvað hef ég gert?‘+
Allir halda áfram að fylgja fjöldanum eins og hestur sem geysist fram til bardaga.
7 Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir,
turtildúfan, svölungurinn og þrösturinn* snúa aftur á réttum tíma.
En þjóð mín veit ekki hvenær Jehóva dæmir.“‘+
8 ‚Hvernig getið þið sagt: „Við erum vitrir og við höfum lög* Jehóva“?
Raunin er sú að lygapenni*+ fræðimannanna* er aðeins notaður til að skrifa lygar.
9 Hinir vitru hafa orðið sér til skammar,+
þeir skelfast og verða fangaðir.
Þeir hafa hafnað orði Jehóva,
hvaða visku hafa þeir þá?
10 Þess vegna gef ég öðrum mönnum eiginkonur þeirra
og akra þeirra fæ ég í hendur nýjum eigendum+
því að allir afla sér rangfengins gróða, jafnt háir sem lágir,+
allir svíkja og pretta, jafnt spámenn sem prestar.+
11 Þeir reyna að lækna sár* dótturinnar, þjóðar minnar, með auðveldum* hætti og segja:
„Það er friður! Það er friður!“
þegar enginn friður er.+
12 Skammast þeir sín fyrir viðbjóðslega hegðun sína?
Þeir skammast sín ekki neitt!
Þeir vita ekki einu sinni hvað það er að finna til skammar.+
Þess vegna falla þeir með þeim sem falla,
þeir hrasa þegar ég refsa þeim,‘+ segir Jehóva.
13 ‚Þegar ég safna þeim saman mun ég eyða þeim,‘ segir Jehóva.
‚Engin vínber verða eftir á vínviðnum, engar fíkjur á fíkjutrénu og laufin visna.
Þeir glata öllu sem ég gaf þeim.‘“
14 „Af hverju sitjum við hér?
Söfnumst saman, förum inn í víggirtu borgirnar+ og deyjum þar.
Jehóva Guð okkar gerir út af við okkur
og gefur okkur eitrað vatn að drekka+
af því að við höfum syndgað gegn Jehóva.
15 Við vonuðumst eftir friði en ekkert gott kom,
lækningartíma en skelfing hefur gripið um sig!+
16 Frá Dan heyrist frýsið í hestum hans.
Þegar stríðshestar hans hneggja
nötrar allt landið.
Þeir koma og gleypa í sig landið og allt sem í því er,
borgina og íbúa hennar.“
17 „Ég sendi höggorma gegn ykkur,
eiturslöngur sem ekki er hægt að temja,*
og þeir munu bíta ykkur,“ segir Jehóva.
18 Sorg mín er ólæknandi,
hjarta mitt sjúkt.
19 Frá fjarlægu landi heyrist neyðaróp
dótturinnar, þjóðar minnar:
„Er Jehóva ekki í Síon?
Er konungur hennar ekki þar?“
„Hvers vegna hefur fólkið misboðið mér með skurðgoðum sínum,
með einskis nýtum útlendum guðum sínum?“
20 „Uppskeran er liðin, sumarið á enda,
en okkur hefur ekki verið bjargað!“
21 Ég er niðurbrotinn yfir hruni dótturinnar, þjóðar minnar.+
Ég er miður mín,
gripinn skelfingu.
22 Er ekkert balsam* í Gíleað?+
Er enginn læknir þar?+
Af hverju er dóttirin, þjóð mín, ekki orðin heil heilsu?+