MALAKÍ
1 Yfirlýsing:
Orð Jehóva til Ísraels fyrir milligöngu Malakí:*
2 „Ég hef sýnt að ég elska ykkur,“+ segir Jehóva.
En þið segið: „Hvernig hefurðu sýnt að þú elskar okkur?“
„Var Esaú ekki bróðir Jakobs?“+ segir Jehóva. „En ég elskaði Jakob 3 og hataði Esaú.+ Ég gerði fjalllendi hans að auðn+ og erfðaland hans að óbyggðum þar sem sjakalar búa.“+
4 „Þegar Edómítar segja: ‚Við erum illa leiknir en við munum snúa aftur og endurreisa rústirnar,‘ þá segir Jehóva hersveitanna: ‚Þeir munu byggja en ég ríf niður og þeir verða kallaðir „land illskunnar“ og „þjóðin sem Jehóva hefur fordæmt um alla eilífð“.+ 5 Þið munuð sjá það með eigin augum og segja: „Jehóva sé hátt upp hafinn um allt land Ísraels.“‘“
6 „‚Sonur heiðrar föður sinn+ og þjónn húsbónda sinn. Ef ég er faðir,+ hvar er þá heiðurinn sem ég á skilið?+ Og ef ég er húsbóndi,* hvar er þá virðingin* sem ég á skilið?‘ segir Jehóva hersveitanna við ykkur prestana sem lítilsvirðið nafn mitt.+
‚En þið segið: „Hvernig höfum við lítilsvirt nafn þitt?“‘
7 ‚Með því að bera fram óhreinan mat* á altari mitt.‘
‚Og þið segið: „Hvernig höfum við óhreinkað þig?“‘
‚Með því að segja: „Það má alveg lítilsvirða borð Jehóva.“+ 8 Og þegar þið færið blinda skepnu að fórn segið þið: „Það er ekkert rangt við þetta.“ Og þegar þið berið fram halta skepnu eða lasburða segið þið: „Það er ekkert rangt við þetta.“‘“+
„Prófaðu að færa landstjóranum þær. Ætli hann verði ánægður með þig og taki vel á móti þér?“ segir Jehóva hersveitanna.
9 „Biðlið nú til Guðs um að sýna* okkur miskunn. Hvernig getur hann tekið vel á móti nokkrum ykkar ef þetta eru fórnirnar sem þið færið?“ segir Jehóva hersveitanna.
10 „Hver ykkar er reiðubúinn að loka dyrunum?*+ Þið viljið ekki einu sinni kveikja eld á altari mínu án þess að fá greitt fyrir.+ Ég hef enga velþóknun á ykkur,“ segir Jehóva hersveitanna, „og kæri mig ekki um neina fórnargjöf frá ykkur.“+
11 „Frá sólarupprás til sólarlags* verður nafn mitt mikið meðal þjóðanna.+ Alls staðar mun fórnarreykur stíga upp og nafni mínu verða færðar hreinar fórnargjafir því að nafn mitt verður mikið meðal þjóðanna,“+ segir Jehóva hersveitanna.
12 „En þið vanhelgið það*+ með því að segja: ‚Borð Jehóva er óhreint og fórnirnar á því* skipta engu máli.‘+ 13 Þið segið líka: ‚Þetta er svo þreytandi!‘ og fussið með fyrirlitningu,“ segir Jehóva hersveitanna. „Þið komið með stolnar, haltar og lasburða skepnur. Já, þannig gjafir komið þið með! Ætti ég að taka á móti þeim?“+ segir Jehóva.
14 „Bölvaður sé svikarinn sem á heilbrigt karldýr í hjörð sinni en vinnur heit og færir Jehóva gallagrip að fórn,“ segir Jehóva hersveitanna, „því að ég er mikill konungur+ og nafn mitt mun vekja óttablandna lotningu meðal þjóðanna.“+
2 „Prestar, þessi fyrirskipun er ætluð ykkur.+ 2 Ef þið viljið ekki hlusta og takið ekki alvarlega þá ábyrgð að heiðra nafn mitt,“ segir Jehóva hersveitanna, „sendi ég yfir ykkur bölvunina+ og sný blessunum ykkar í bölvanir.+ Já, ég hef þegar snúið þeim í bölvanir af því að þið takið þetta ekki alvarlega.“
3 „Ég eyðilegg* sáðkorn ykkar vegna þess hvernig þið hegðið ykkur+ og dreifi saur framan í ykkur, saurnum frá hátíðum ykkar, og ykkur verður kastað út til hans.* 4 Þá munuð þið skilja að ég hef gefið ykkur þessa fyrirskipun til þess að sáttmáli minn við Leví haldist í gildi,“+ segir Jehóva hersveitanna.
5 „Sáttmáli minn við hann var sáttmáli lífs og friðar, og það gaf ég honum svo að hann myndi óttast* mig. Hann óttaðist mig, já, hann sýndi nafni mínu lotningu. 6 Lög sannleikans voru* í munni hans+ og ranglæti fannst ekki á vörum hans. Hann gekk með mér í friði og ráðvendni+ og hjálpaði mörgum að snúa af rangri braut 7 því að varir prestsins eiga að varðveita þekkingu og fólk á að leita ráða hjá honum um það sem viðkemur lögunum*+ því að hann er sendiboði Jehóva hersveitanna.
8 En þið hafið vikið af veginum. Vegna ykkar hafa margir hrasað og brotið lögin.*+ Þið hafið ónýtt sáttmálann við Leví,“+ segir Jehóva hersveitanna. 9 „Ég geri ykkur því fyrirlitlega og ómerkilega í augum alls fólksins því að þið fylgduð ekki vegum mínum og beittuð lögunum af hlutdrægni.“+
10 „Eigum við ekki öll sama föður?+ Var það ekki einn og sami Guð sem skapaði okkur? Hvers vegna svíkjum við þá hvert annað+ og vanhelgum sáttmála forfeðra okkar? 11 Júda hefur svikið og viðurstyggð er framin í Ísrael og Jerúsalem því að Júda hefur vanvirt heilagleika* Jehóva+ sem er honum kær og tekið sér dóttur framandi guðs fyrir brúði.+ 12 Jehóva mun eyða hverjum einasta sem gerir slíkt úr tjöldum Jakobs, hverjum sem það kann að vera,* þótt hann færi Jehóva hersveitanna fórnargjöf.“+
13 „Annað sem þið gerið veldur því að altari Jehóva er hulið tárum, gráti og andvörpum. Þess vegna kærir hann sig ekki lengur um fórnargjafir ykkar né hefur velþóknun á nokkru úr hendi ykkar.+ 14 En þið spyrjið: ‚Hvers vegna?‘ Af því að Jehóva hefur borið vitni gegn þér þar sem þú sveikst eiginkonu æsku þinnar þótt hún sé förunautur þinn og eiginkona samkvæmt sáttmála.*+ 15 En fáeinir gerðu þetta ekki þar sem þeir höfðu nokkuð* af andanum. Og hvað höfðu þeir fyrir augum? Afkomendur Guðs. Gætið því að hugarfari ykkar. Svíktu ekki eiginkonu æsku þinnar 16 því að ég hata* hjónaskilnað,“+ segir Jehóva Guð Ísraels, „og þann sem hylur föt sín með ofbeldi,“* segir Jehóva hersveitanna. „Gætið að hugarfari ykkar og svíkið ekki.+
17 Þið hafið þreytt Jehóva með orðum ykkar.+ En þið segið: ‚Hvernig höfum við þreytt hann?‘ Með því að segja: ‚Þeir sem gera illt eru góðir í augum Jehóva og hann er ánægður með þá,‘+ og með því að segja: ‚Hvar er Guð réttvísinnar?‘“
3 „Ég sendi sendiboða minn og hann mun ryðja veginn fyrir mér.+ Hinn sanni Drottinn, sem þið leitið, kemur skyndilega til musteris síns+ og sendiboði sáttmálans kemur, sá sem þið þráið. Sannið til, hann kemur,“ segir Jehóva hersveitanna.
2 „En hver heldur velli daginn sem hann kemur og hver getur staðist þegar hann birtist? Hann verður eins og eldur málmbræðslumanns og lútur*+ þvottamanna. 3 Hann sest til að hreinsa syni Leví eins og sá sem bræðir og hreinsar silfur.+ Hann gerir þá skíra sem gull og silfur. Þá mun Jehóva eiga sér réttlátt fólk sem færir honum fórnargjafir. 4 Fórnargjafir Júdamanna og Jerúsalembúa munu gleðja Jehóva eins og forðum daga og á árum áður.+
5 Ég kem til ykkar til að dæma og mun tafarlaust vitna gegn galdramönnum,+ gegn þeim sem fremja hjúskaparbrot, þeim sem sverja rangan eið,+ þeim sem svindla á launamönnum,+ ekkjum og föðurlausum börnum*+ og þeim sem vilja ekki hjálpa útlendingum.*+ Þeir óttast mig ekki,“ segir Jehóva hersveitanna.
6 „Ég er Jehóva og ég breytist ekki.*+ Og þið eruð synir Jakobs, ykkur hefur ekki enn verið útrýmt. 7 Allt frá dögum forfeðra ykkar hafið þið vikið frá lögum mínum og ekki haldið þau.+ Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar,“+ segir Jehóva hersveitanna.
En þið segið: „Að hvaða leyti eigum við að snúa aftur?“
8 „Getur maðurinn rænt Guð? Samt rænið þið mig.“
Og þið segið: „Hvernig höfum við rænt þig?“
„Með því að greiða ekki tíundirnar og framlögin. 9 Bölvun hvílir á ykkur* því að þið rænið mig, já, öll þjóðin er sek um það. 10 Komið með alla tíundina í birgðageymsluna+ svo að matur sé til í húsi mínu.+ Reynið mig á þennan hátt,“ segir Jehóva hersveitanna, „og sjáið hvort ég opna ekki fyrir ykkur flóðgáttir himins+ og læt blessun streyma yfir ykkur þar til engan skortir neitt.“+
11 „Ég hasta á átvarginn* fyrir ykkur svo að hann eyðileggi ekki uppskeru landsins og vínviðurinn á ekrum ykkar verði ekki ávaxtalaus,“+ segir Jehóva hersveitanna.
12 „Allar þjóðir munu tala um hve hamingjusöm þið eruð+ enda verðið þið dásamlegt land,“ segir Jehóva hersveitanna.
13 „Þið hafið látið hörð orð falla um mig,“ segir Jehóva.
Og þið spyrjið: „Hvað höfum við sagt um þig okkar á milli?“+
14 „Þið segið: ‚Það er ekki til neins að þjóna Guði.+ Hvað höfum við grætt á því að gegna skyldum okkar við hann og ganga um með sorgarsvip frammi fyrir Jehóva hersveitanna? 15 Við sjáum nú ekki betur en að hinir hrokafullu séu hamingjusamir.+ Og illvirkjarnir njóta velgengni. Þeir reyna Guð og komast upp með það.‘“
16 Þeir sem óttast Jehóva töluðu þá hver við annan, hver við sinn félaga, og Jehóva fylgdist með og hlustaði. Minnisbók var skrifuð frammi fyrir honum+ um þá sem óttast Jehóva og hugsa um nafn hans.*+
17 „Þeir verða mínir,“+ segir Jehóva hersveitanna, „á þeim degi sem ég geri þá að dýrmætri* eign minni.+ Ég miskunna þeim eins og maður miskunnar syni sínum sem þjónar honum.+ 18 Þá sjáið þið aftur muninn á réttlátum manni og vondum,+ á þeim sem þjónar Guði og þeim sem þjónar honum ekki.“
4 „Dagurinn kemur logandi eins og eldsofn.+ Þá verða allir hrokagikkir og allir illvirkjar eins og hálmstrá. Dagurinn sem kemur mun brenna þá,“ segir Jehóva hersveitanna, „svo að hvorki rót né grein verður eftir af þeim. 2 En á ykkur sem virðið* nafn mitt mun sól réttlætisins skína með græðandi geislum* sínum og þið munuð leika ykkur eins og holdmiklir kálfar.“
3 „Þið munuð troða hina illu undir fótum því að þeir verða eins og ryk undir iljum ykkar daginn sem ég læt til skarar skríða,“ segir Jehóva hersveitanna.
4 „Munið eftir lögum Móse þjóns míns, þeim ákvæðum og fyrirmælum sem ég fól honum við Hóreb handa öllum Ísrael.+
5 Ég sendi Elía spámann til ykkar+ áður en hinn mikli og magnþrungni dagur Jehóva kemur.+ 6 Hann mun gera hjörtu feðra eins og hjörtu sona+ og hjörtu sona eins og hjörtu feðra* svo að ég slái ekki jörðina og helgi hana eyðingu* þegar ég kem.“
(Hér lýkur Hebresk-arameísku ritningunum. Grísku ritningarnar taka við.)
Sem þýðir ‚sendiboði minn‘.
Eða „mikill húsbóndi“.
Orðrétt „óttinn“.
Orðrétt „óhreint brauð“.
Eða „Reynið nú að milda Guð svo að hann sýni“.
Greinilega er átt við það skylduverk að loka dyrum musterisins.
Eða „austri til vesturs“.
Eða hugsanl. „mig“.
Orðrétt „ávöxtur þess, matur þess,“.
Orðrétt „hasta á“.
Það er, þangað sem menn losuðu sig við saur fórnardýranna.
Eða „virða“.
Eða „Sönn fræðsla (leiðsögn) var“.
Eða „leita fræðslu (leiðsagnar) af munni hans“.
Eða hugsanl. „Þið hafið fengið marga til að hrasa með fræðslu (leiðsögn) ykkar“.
Eða hugsanl. „helgidóm“.
Orðrétt „þeim sem vakir og þeim sem svarar“.
Eða „löggild eiginkona“.
Orðrétt „það sem eftir var“.
Orðrétt „hann hatar“.
Eða „beitir ofbeldi“.
Eða „sápa“.
Eða „munaðarlausum“.
Eða „þeim sem traðka á rétti útlendinga“.
Eða „ég hef ekki breyst“.
Eða hugsanl. „Með bölvun bölvið þið mér“.
Greinilega er átt við skordýraplágur.
Eða hugsanl. „meta nafn hans að verðleikum“.
Eða „sérstakri“.
Orðrétt „óttist“.
Orðrétt „vængjum“.
Eða „snúa hjörtum feðra til sona og hjörtum sona til feðra“.
Sjá orðaskýringar.