Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.7. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Pí — nýtt heimsmet
  • Mengun drepur
  • Fleiri hættur í blóði
  • Björgunarspjöld
  • Stolið frá stjórnvöldum
  • Yfirfullar borgir
  • Verðmæti mannslíkamans
  • Nýtt kveflyf?
  • Gúmmívín
  • Meira um kvef
Vaknið! – 1987
g87 8.7. bls. 29-30

Horft á heiminn

Pí — nýtt heimsmet

Nú er búið að reikna út pí, sem er hlutfallið milli ummáls hrings og þvermáls, með nákvæmni sem nemur 133.554.000 aukastöfum! Það er aukning um 100.000.000 aukastafi frá síðasta meti sem var sett í september síðastliðnum. Þótt stærðfræðingum sé ljóst að ekki sé hægt að tákna pí nákvæmlega sem tugabrot hafa vísindamenn unnið að því að ná fram meiri nákvæmni með hjálp tölva. Yasumasa Kaneda við háskólann í Tokyo í Japan, sem var methafi fyrir, notaði risatölvu til að bæta sitt eigið met. Útreikningarnir tóku 37 klukkustundir og 19.000 blaðsíður þurfti til að prenta töluna. Til hvers gerði hann þetta? „Þetta er ekki ólíkt því að klífa fjall,“ segir Kanida, „bara af því að það er til.“

Mengun drepur

Um 30 tonn af eiturefnum frá svissneskri efnaverksmiðju skoluðust fyrir slysni út í Rín í nóvember síðastliðnum. Blaðið International Herald Tribune áætlar að 500.000 fiskar af 34 ólíkum tegundum hafi drepist. En fleira drapst en fiskur. Að sögn franska dagblaðsins Le Figaro drapst fjöldi vatnafugla beinlínis vegna efnamengunarinnar. „Tugir dauðra hegra og goða hafa verið tíndir saman. Endur, sem kafa eftir skelfiski, hafa orðið fyrir eitrun, svo og svanir. Allt þetta sýnir að mengun hefur áhrif á náttúruna á öllum þrepum hennar.“ Ætlað er að það muni taka Rín tíu ár að ná aftur vistfræðilegu jafnvægi.

Fleiri hættur í blóði

Hætta er á að blóð, sem hefur verið geymt, sé mengað af völdum svepps sem vex í plastílátum. Þetta kom í ljós nýlega í Brasilíu þegar heilbrigðiseftirlit ríkisins stöðvaði framleiðslu plastumbúða, vegna skorts á hreinlæti, dauðhreinsun og gæðaeftirliti af hálfu sumra framleiðenda. Þessi aðgerð stjórnvalda var talin eðlileg og löngu tímabær. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Luiz Felipe Moreira Lima, spurði: „Hvernig gat það gerst að enginn sæi þetta öll þessi ár?“ Enginn veit hve mörg þúsund manns hefur verið gefið sveppamengað blóð.

Björgunarspjöld

Björgunarsveitir hafa löngum átt í erfiðleikum með að finna fólk sem orðið hefur undir snjóflóðum. Þótt til séu ýmsar tegundir sendi- og móttökutækja nota þau fáir sökum kostnaðar, þyngdar og fyrirferðar. Hópur franskra rannsóknarmanna er nú að vinna að nýrri hugmynd — svonefndum björgunarspjöldum. Spjöld þessi, sem á að bera á baki og brjósti, munu varla kosta nema nokkur hundruð krónur og eru ekki stærri um sig en greiðslukort. Franska dagblaðið Le Figaro segir frá því að þau verki eins og speglar og endurkasti útvarpsbylgjum frá allsterku senditæki sem björgunarsveitir hafa meðferðis. Tilraunir hafa sýnt að finna má fólk undir allt að 9 metra djúpum snjó með þessari aðferð.

Stolið frá stjórnvöldum

Í nýlegri endurskoðun ríkisreikninga í Kanada kom í ljós að ár hvert tapar ríkið eignum að jafnvirði 120 til 160 milljóna króna. Þótt opinberlega sé sagt að eignirnar séu týndar er viðurkennt að þeim hafi „sennilega verið stolið.“ Dagblaðið The Toronto Star skýrir frá því að meðal annars sé saknað áfengis, litsjónvarpstækja, ritvéla, skrifborðslampa, talrita, 35 mm myndavéla, myndvarpa, reiknivéla, utanborðsmótors og frystiskáps. Þá var stolið næstum 2,4 milljörðum króna frá ríkinu í gegnum atvinnuleysisbótakerfið. „Vitað er um 180.458 dæmi um fjársvik,“ segir dagblaðið The Globe and Mail. Af áðurnefndu fé, sem svikið var út, tókst sem betur fer að endurheimta um 1,3 milljarða.

Yfirfullar borgir

Mannfjölgun í stórborgum getur valdið alvarlegri efnahags- og þjóðfélagsspennu og leitt til bæði stjórnmálaumróts og umhverfisvandamála. Þetta var niðurstaða sérfræðinga sem þinguðu á vegum Sameinuðu þjóðanna í febrúar síðastliðnum. Sameinuðu þjóðirnar ætla að fram til ársins 2000 muni íbúum Kairó fjölga úr 9 milljónum, sem nú eru, í 13 milljónir, íbúum Manila úr 8,6 milljónum í 11,1 milljón og íbúum Mexíkóborgar úr 19 milljónum í 26 milljónir. „Þessar risaborgir eru að verða að þjóðfélagslegum púðurtunnum — sáðreitir þjóðfélagsbyltingar, borgaralegra átaka og ólgu,“ sagði Werner Fornos, forseti mannfjöldastofnunarinnar í dagblaðinu The New York Times. „Mannfjölda fylgja vandamál þannig að vandamálin munu vaxa.“ Sérfræðingar eru þó ekki á einu máli um að þéttbýlismyndun leiði til stórhörmunga. „Þetta er mjög flókið mál — það er engar almennar reglur hægt að setja um stöðugleika í þjóðfélaginu,“ segir Ellen Brennan hjá Sameinuðu þjóðunum.

Verðmæti mannslíkamans

Einu sinni var sagt að mannslíkaminn væri aðeins um 80 króna virði, miðað við markaðsverð þeirra efna sem hann er gerður úr. Það mat hefur nú stórlega breyst. Verðmæti mannslíkamans er nú sagt vera yfir 8 milljónir króna og fer hækkandi. Hvað veldur? „Líkamsvefir eru nú notaðir til ígræðslu, rannsókna og greiningar og í lækningavörur,“ segir The New York Times. „Árið 1985 voru grædd í menn næstum 8000 nýru og 20.000 hornhimnur, og hjartaígræðslur telja um 1200 á ári.“

Nýtt kveflyf?

Sagt er að norskir skógarhöggsmenn fái næstum aldrei kvef. Hvers vegna skyldi það vera? Að sögn dr. Olavs Braendens er ástæðunnar að leita í viðarreyknum sem þeir anda að sér. Lundúnarblaðið The Times segir frá því að kvefveira þurfi gott súrefnisaðstreymi til að tímgast. Hægt er að hamla fjölgun hennar með B og C vítamíni og einnig fjölfenolefnum, að því er haldið er. Þessi efni er að finna í viðarreyk Norðmanna og takmarka aðgang súrefnis að slímhúð nefgangnanna. Nefdropar, sem innihalda þessi þrjú efni, hafa verið prófaðir á 300 starfsmönnum norska flughersins og eru sagðir hafa læknað kvef í 82 tilfellum af hundrað. Formaður rannsóknaverkefnisins, dr. Anton Rodahl, segir: „Aðalatriðið er að nota dropana við fyrstu merki um kvef, áður en veiran hefur náð að vinna nokkurt tjón á slímhúð nefsins.“ Sala á lyfinu hófst í Noregi á þessu ári.

Gúmmívín

Mönnum, sem hafa góðan vínsmekk, þykir sennilega einum of langt gengið að framleiða vín úr gúmmíúrgangi. En það er eigi að síður gert og vínið er sagt „keimlíkt japönsku hrísgrjónavíni.“ Kanadíska dagblaðið The Globe and Mail skýrir frá því að undirritaður hafi verið samningur milli Malaysian Rubber Research fyrirtækisins og gúmmíframleiðandans Yokohama í Japan, „um að kanna leiðir til að nýta úrgang frá gúmmíverksmiðjum til framleiðslu allt frá víni til áburðar.“ Búist er við að einhverjar af þessum vörum komi á markað innan tveggja ára. Vonir standa til að hér sé fundin leið til að draga úr mengun og óþef af völdum úrgangsefna sem dælt er út í ár.

Meira um kvef

Menn fá kvef aðeins einu sinni. Eftir það eru þeir ónæmir fyrir því. En veirurnar, sem geta valdið venjulegu kvefi, eru um 200 talsins. Þess vegna fá fæstir kvef nema einu sinni á ári um sextugsaldur, ef þá nokkurn tíma, en börn sex til átta sinnum á ári. Hvernig berast kvefveirur frá manni til manns? Læknar segja þær sjaldnast berast með andrúmslofti vegna hósta eða hnerra kvefaðs manns. Nú er talið að snerting sé helsta útbreiðsluleiðin. Hinn kvefaði snertir á sér nefið og skilur veirur eftir á hverjum þeim hlut sem hann snertir. „Þær geta lifað í nokkrar klukkustundir á höndunum eða á hörðu yfirborði og í tauvasaklútum,“ segir dr. Sheldon L. Spector, prófessor í læknisfræði við University of California í Los Angeles. „Heilbrigt fólk fær veiruna á hendurnar og smitast við það að snerta á sér nef og augu.“ Tíður handþvottur og notkun sótthreinsiefna er talin besta leiðin til að koma í veg fyrir að útbreiða eða fá kvef.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila