Sjónarmið Biblíunnar
Hver er tilgangur lífsins?
MARGIR sem hafa komist til frægðar og frama hafa uppgötvað að „velgengni“ þeirra tryggði þeim ekki lífshamingju. Eitthvað vantaði í líf þeirra — en hvað?
Þeir sem eru svo önnum kafnir við að afla sér fjár eða skapa sér nafn að þeir gefa sér ekki tíma til að ígrunda tilgang lífsins verða stundum fyrir miklu áfalli þegar þeir ná því marki sem þeir hafa keppt að. Eftir að upphefðin er orðin að veruleika getur lífið skyndilega orðið innantómt og þreytandi ef það skortir göfugt markmið. Þetta fékk hinn auðugi Salómon konungur að reyna: „Er ég leit á öll verk mín . . . og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.“ — Prédikarinn 2:11.
Mörg okkar myndu vera himinlifandi að geta áorkað aðeins broti af því sem þessi snjalli og afkastamikli konungur kom í verk á ævinni. (Prédikarinn 2:4-9) En eftir því sem vísindamenn við Columbia University í Bandaríkjunum segja virðist persónuleg velgengni „ekki sérstaklega nátengd almennri hamingju manna.“ Hvað stuðlar þá að hamingju? „Traust til þeirra lífsstaðla sem menn fylgja,“ segja þeir, „sú trú að lífið hafi tilgang.“ Því miður gefast allt of margir upp á að leita að þessum tilgangi og taka þess í stað að hugsa um að binda enda á líf sitt.
Könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum árið 1987, leiddi í ljós að sjálfsmorðshugsanir sóttu á þriðjung af bestu skólanemum þar í landi. Hvers vegna? Vegna þess að þrátt fyrir þá velgengni sem þeir virtust njóta voru þeir óánægðir með sjálfa sig, undir þrýstingi að standa sig, eða þá einangraðir og einmana. Til að vera hamingjusöm þurfum við að hafa sjálfsvirðingu — finna að lífið þjóni einhverjum tilgangi, hafa háleitt markmið í lífinu eða hreinlega einhverja góða ástæðu til að lifa.
Tilgangurinn með tilveru okkar
Við þurfum ekki að leita lengi til að sjá sönnun þess að lífið er engin tilviljun. Hugsaðu vel og vandlega um hluti sem við erum vön að telja sjálfsagða — hina flóknu gerð laufblaðs, fæðingu barns, hinn ægiþrungna alheim. Sú ályktun er óhjákvæmileg að allt sé þetta skapað í ákveðnum tilgangi. Biblían segir um skaparann: „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins.“ — Rómverjabréfið 1:20.
Hver er þá tilgangurinn með tilveru okkar hér? Kanadískur læknir að nafni William Osler hitti naglann á höfuðið er hann sagði: „Við erum hér til að auðga lífið eins og við getum, ekki að hafa eins mikið út úr því og við getum.“ (Leturbreyting okkar.) Kristinn maður, sem beðinn var að svara þessari spurningu með 25 orðum eða færri, sagði: „Ætli mætti ekki segja að við séum hér til að gera jörðina að paradís.“a (1. Mósebók 1:28; 2:8, 15) En megnum við mennirnir að gera jörðina að paradís?
Við erum rétt að byrja!
Hið núverandi æviskeið okkar er svo stutt að við getum ekki nýtt nema brot af hæfileikum okkar og möguleikum. Hugsaðu um það að í heila þínum eru hundrað milljarðar taugafrumna og annarra frumna. Menn áætla að þær geti myndað 10800 tengingar hver við aðra. Þessi tala er 10700 sinnum hærri en fjöldi frumeinda í öllum alheiminum! Reyndu að gera þér í hugarlund hvað þú gætir lært og hvað þú gætir gert ef þú gætir ferðast í ró og næði eins og þig lysti, tekið þér allan þann tíma sem þú vildir til að rannsaka mál sem eru þér hugleikin og til að þroska með þér hæfileika og kunnáttu að eigin vali. Hvaða hæfileikar til að auðga lífið ætli liggi óvirkjaðir innra með einu og sérhverju okkar?
En væri hægt að komast hjá því að vera leiður á lífinu ef við réðum yfir ótakmörkuðum tíma og möguleikum til að þroska hæfni okkar? Já, með því að gera sér grein fyrir því hve leiðigjarnt það er að hugsa aðeins um sjálfan sig!
Salómon gerði sér það ljóst og gaf þar af leiðandi þetta ráð: „Mundu eftir skapara þínum.“ Að öðrum kosti myndu þeir dagar óhjákvæmilega koma er við myndum segja: ‚Mér líka þeir ekki.‘ Jesús lét sömu hugmynd í ljós með öðrum orðum: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Prédikarinn 12:1, 13; Postulasagan 20:35.
Lykillinn að lífshamingju
Jesús sagði að tvennt ætti að ganga fyrir öllu öðru í lífinu. Hið fyrra að ‚elska Jehóva Guð okkar‘ og hið síðara að ‚elska náunga okkar eins og sjálfa okkur.‘ Þetta kemur heim og saman við allt sem við vitum um samlífi jurta og dýra. Allar þessar óæðri lífverur eru gerðar þannig að þær eru mjög háðar hver annarri, og því er ekki nema eðlilegt að við mennirnir, með okkar miklu hæfileika, séum gerðir til að vinna hver með öðrum og þjóna uppsprettu lífsins, Jehóva. — Matteus 22:37-39; Sálmur 36:9.
Kærleiksverk sem tengja okkur öðrum mönnum og Guði geta gert líf okkar auðugt og tilgangsríkt að eilífu. Það að gefa er lykill lífshamingjunnar, bæði nú og á hinni ‚nýju jörð‘ sem framundan er. — Jesaja 65:17, 18.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 29]
Eilíft líf — blessun eða bölvun?
Stjarnfræðingurinn og rithöfundurinn dr. Robert Jastrow var spurður: „Myndi eilíft líf vera blessun eða bölvun fyrir mannkynið?“ Hann svaraði: „Það yrði blessun fyrir þá sem eru forvitnir og haldnir óseðjandi fróðleiksfýsn. Það væri mjög þægileg tilfinning fyrir þá að vita að þeir gætu að eilífu drukkið í sig þekkingu. En fyrir þá sem finnst þeir vita allt sem er þess virði að vita og hafa lokað huga sínum yrði það ægileg bölvun. Þeir hefðu ekki hugmynd um hvernig þeir ættu að drepa tímann.“ — „Times-Advocate,“ Escondito, Kaliforníu, 19. febrúar 1984.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Mannsheilinn var skapaður til að þjóna okkur að eilífu.