Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.1. bls. 30-31
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Sjaldgæft afbrigði eyðniveirunnar
  • Spilasýki spánverja
  • Skuldabyrðin
  • Síðasta orðið
  • Páfa kuldalega tekið
  • Glæpir í sovétríkjunum
  • Skordýr í gróðurhúsinu
  • Ástfangin trana
  • Dýru verði keypt
  • Hár aldur er engin hindrun
Vaknið! – 1990
g90 8.1. bls. 30-31

Horft á heiminn

Sjaldgæft afbrigði eyðniveirunnar

Sjaldgæft afbrigði eyðniveirunnar, sem aðallega er að finna í vesturhluta Afríku, hefur nú fundist í allmörgum blóðsýnum í New York. Þau mótefni, sem þetta nýja afbrigði, HIV-2, myndar, finnast ekki með þeirri aðferð sem venjulega er notuð við mótefnamælingar. Það vekur óvissu fyrir tvo hópa fólks: þá sem teljast ósmitaðir samkvæmt hinni hefðbundnu mótefnamælingu, og þá sem reka blóðbanka, því að þeir geta ekki verið fullvissir um að blóð, sem þeir taka á móti, sé án smits. Sérfræðingar álíta að þetta nýja afbrigði geti legið í dvala í líkamanum lengur en hið fyrra og algengara afbrigði eyðniveirunnar, HIV-1, áður en einkenna verður vart, og kunni að geta haft sömu farsóttarhættu í för með sér. Að sögn The New York Times er áætlað að „ein milljón Bandaríkjamanna eða fleiri hafi smitast [af HIV-1]. Þann 31. maí [1989] höfðu verið skráðir 97.193 eyðnisjúklingar og þar af voru 56.468 látnir.“

Spilasýki spánverja

Yfirvöld á Spáni eru áhyggjufull út af spilasýki landsmanna. Komið hefur í ljós að einungis tíu af hundraði þess fjár, sem skiptir um eigendur í hinum 22 spilavítum landsins, kemur frá ferðamönnum, þótt þau hafi verið reist til að svara óskum erlendra ferðamanna. Níutíu af hundraði koma frá Spánverjum sjálfum og talsmaður samtaka, sem berst gegn spilasýki, telur að þar í landi séu ef til vill um 600.000 spilasjúklingar. Spánverjar eyða alls um 24 milljörðum bandaríkjadala árlega í fjárhættuspil, fimmfalt hærri upphæð en þjóðin ver til menntamála, að sögn Lundúnablaðsins The Financial Times. Einn af riturum spænsku fjárhættuspilanefndarinnar, Santiago Mendioroz, segir: „Það er enn til fólk sem gerir sér ekki ljóst að fjárhættuspilarinn tapar alltaf.“

Skuldabyrðin

Fyrir nokkru urðu mikil mótmæli í Venesúela gegn verðhækkunum. Þau kostuðu 256 manns lífið og þúsundir slösuðust. Verðhækkanirnar virðast hafa staðið í sambandi við tilraunir til að greiða hluta af erlendum skuldum þjóðarinnar. Skuldabyrði margra ríkja gagnvart alþjóðlegum bankastofnunum þyngist stöðugt, og brasilíska tímaritið Veja segir að síðastliðin 20 ár hafi engu þessara ríkja tekist að koma jafnvægi á efnahag sinn. Brasilia skuldar 112 milljarða dollara. Fyrir þá upphæð, sem greiða þarf í vexti af þessari skuld ár hvert, mætti byggja fimm milljónir íbúða eða 53.000 skóla sem myndi koma milljónum landsmanna til góða. Margir stjórnmálamenn og bankamenn viðurkenna nú að þriðji heimurinn geti aldrei greitt skuldir sínar. Michael Camdessus hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sagði: „í síðustu viku sprakk í Venesúela ein af hinum mörgu tímasprengjum sem gætu sprungið hvenær sem er ef ekki finnst bráðlega lausn á skuldakreppu þjóðanna. Hin skuldugu ríki eru þurrausin.“

Síðasta orðið

Árið 1879 hóf skoski orðabókarhöfundurinn James Murray gerð ensku orðabókarinnar The Oxford English Dictionary. Verkið tók 49 ár í stað 10, eins og gert hafði verið ráð fyrir, og bókin var 15.500 blaðsíður, um 9000 blaðsíðum stærri en áætlað hafði verið. Hundrað árum síðar var gerður viðauki við hana í fjórum bindum. Unnið hefur verið að því um fimm ára skeið með hjálp tölvu að steypa saman hinni upprunalegu bók og viðaukanum, ásamt síðari viðbótum. Verkið hefur kostað um 10 milljónir sterlingspunda. Orðabókin er nú 20 bindi með um 600.000 millivísunum og 2,5 milljónum tilvísana. Samanlagður texti er 59 milljónir orða. Lengstu skýringarnar er að finna við uppsláttarorðið „set.“ Þær eru á lengd við stutta skáldsögu, enda hefur orðið 430 merkingar og undirmerkingar. Af nýjum orðum má nefna glasnost, perestroika og AIDS. Orðabókin fæst nú fyrir 1500 sterlingspund.

Páfa kuldalega tekið

Heimsókn Jóhannesar Páls páfa II til Skandinavíu síðastliðið sumar var fyrsta heimsókn páfa til þess svæðis þar sem kaþólskir menn telja innan við einn af hverjum hundrað íbúum. Í samanburði við þá 41 ferð til annarra landa, sem páfi hefur farið, vakti heimsóknin lítinn áhuga og fáir komu til að sjá hann eða hlýða á hann. Páfi lagði áherslu á að kaþólska kirkjan vildi styrkja tengsl sín við lútersku kirkjuna og lét í ljós þá von að „fylgjendur Krists mættu með tíð og tíma sameinast á ný.“ Andreas Aarflot, biskup í Ósló, tók þessari afstöðu páfa með lítilli hrifningu og sagði: „Við bíðum þess dags er yðar heilagleiki viðurkennir lútersku kirkjuna og aðrar mótmælendakirkjur skýrt og ótvírætt sem sjálfstæðar kirkjur.“ Töluverður hluti lúterska biskupa í Noregi kaus að sækja ekki hina samkirkjulegu fundi með páfa.

Glæpir í sovétríkjunum

Glæpir hafa stóraukist í Sovétríkjunum. Samkvæmt efnahagsskýrslu stjórnvalda fyrir fyrsta ársfjórðung 1989 jukust glæpir um 31 af hundraði miðað við sama tímabil árið áður. Alvarlegum afbrotum fjölgaði um 40 af hundraði og þjófnuðum og innbrotum um 69 af hundraði. Unglingaafbrotum fjölgaði einnig til muna, um 44 af hundraði meðal unglingsstúlkna svo dæmi séu tekin. Ótti er mikill í sumum borgum, því að glæpamenn bera nú margir hverjir stolin vopn og virðist standa nokkuð á sama hvort fólk er heima eða ekki er þeir brjótast inn í hús. „Löggjöfin hefur ekki haldist í hendur við veruleikann,“ sagði í grein í dagblaðinu Pravda. „Undirheimarnir aðlaga sig núverandi aðstæðum og lögum og sýna langtum meiri aðlögunarhæfni en löggæslan.“

Skordýr í gróðurhúsinu

Vísindamenn á Nýja-Sjálandi vara við því að gróðurhúsaáhrifin, hin hægfara hitastigsaukning á jörðinni vegna mengunar af mannavöldum, gætu haft óvæntar afleiðingar: skordýraplágur. Vísindamennirnir spá því að hitastigsaukningin, sem spáð er, muni skapa þeim mörgu skordýrum, sem komast inn í Nýja-Sjáland þrátt fyrir strangt eftirlit eða berast þangað með vindum, skilyrði til að lifa af veturinn, tímgast og dafna. Að sögn dagblaðsins New Zealand Herald sjá vísindamennirnir fyrir sér engisprettuplágur og mýflugnaplágur er beri með sér sjúkdóma, og að baráttan gegn plágunum muni kosta milljarða dollara. Dagblaðið hefur eftir skordýrafræðingnum dr. Garry Hill að ‚menn telji sig nú þegar sjá sum merki slíkrar breytingar.‘

Ástfangin trana

Kvenfugl af trönutegund hefur greinilega misskilið tilganginn með þjálfun sinni. Tranan hafði komið úr eggi í útungunarvél í þjóðgarði í Kushiro í Japan og verið svo mikið með mönnum að aðalvörður þjóðgarðsins hafði af því áhyggjur að þessi fallegi fugl, sem orðinn var nálega tveggja ára, myndi ekki kunna að dansa hinn sérstaka dans sem tilheyrir mökun. Hinn kostgæfi þjóðgarðsvörður kenndi trönunni réttu sporin. En trönur halda ófrávíkjanlega tryggð við aðeins einn maka og nú dansar tranan í Kushiro mökunardansinn sinn hvenær sem hún kemur auga á þjálfarann!

Dýru verði keypt

Ýmsar rokkstjörnur, sem þekktar hafa verið fyrir að leika tónlist sína með ærandi hljóðstyrk, eru nú teknar að reskjast og hafa loks viðurkennt að þær hafi orðið fyrir alvarlegu heyrnartjóni. Að sögn blaðsins The Toronto Star viðurkennir rokkgítarleikarinn Ted Nugent að vinstra eyrað á honum sé „gagnslaust nema til skrauts.“ Og Pete Townshend úr hljómsveit, sem nefndi sig The Who, sagði sama dagblaði að það sé „sárasta kvöl . . . að löngu áður en maður verður gamall hætti maður að heyra hvað börnin segja við mann.“ Hann segir um þau ár er hann lék rokktónlist með ærandi hávaða: „Ég tel rétt að taka það fram að það kostar sitt: heyrnarleysi langt fyrir tímann.“ Þótt hann og fleiri gamalreyndir tónlistarmenn séu nú farnir að skrúfa niður í hljóðfærunum láta margir af ungu tónlistarmönnunum það vera.

Hár aldur er engin hindrun

Kannanir, sem gerðar hafa verið nýverið í Vestur-Þýskalandi, hafa sýnt fram á hve mikilvægt það er fyrir aldraða að hafa jákvæð viðhorf, vilji þeir varðveita lífsþrótt sinn í ellinni. Í einni af könnununum voru viðhorf vistmanna á hjúkrunarheimili könnuð með hjálp spurningaeyðublaðs, og út frá svörunum gátu vísindamenn spáð með 92% nákvæmni hverjir þeirra, sem tóku þátt í könnuninni, myndu enn vera á lífi eftir þrjú ár. Í frétt í þýska dagblaðinu Rheinischer Merkur/Christ und Welt segir að þeir sem sjá enga framtíð fyrir sér, eða hafa litla möguleika á að sjá um sig sjálfir og taka eigin ákvarðanir, eigi sér minni lífslíkur en aðrir. Hins vegar er geta aldraðra oft vanmetin. Blaðið bendir á að enda þótt mannsheilanum fari nokkuð aftur í hraða og hæfni með aldrinum þá vegi aðrir hæfileikar upp á móti því, hæfileikar sem hafa skerpst með langri notkun og „njóta sín best á efri æviárum.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila