Horft á heiminn
‚Óskiljanleg reglufesta‘
Stjarnfræðingar voru furðu lostnir haustið 1989 er þeir uppgötvuðu gríðarmikla þekju vetrarbrauta sem þeir nefndu múrinn mikla; þeir höfðu ekki búist við að svona stórt form fyrirfyndist í alheiminum. Eftir þessa uppgötvun hafa tveir starfshópar stærðfræðinga komið fram með þá hugmynd að slíkar stjörnuþokuþyrpingar séu á bilinu 10 til 20 talsins og að múrinn mikli sé aðeins ein af þeim sem næstar eru jörð. Hitt vekur enn meiri furðu þeirra að þessi form koma fyrir með reglubundnu millibili sem að sögn The New York Times bendir til að „byggingarlag alheimsins sé svo reglufast og stórbrotið að þær kenningar um sköpun og þróun alheimsins, sem nú eru efstar á baugi, eigi undir högg að sækja.“ Einn stjarnfræðingur kallar hið reglufasta millibil þessara forma óskiljanlegt en annar staðhæfir að fáist þessar niðurstöður staðfestar ‚megi fullyrða að við skiljum minna en ekkert um árdaga alheimsins.‘
Dýrasta flugvél heims
Bandaríkjaforseti hefur tekið í notkun „dýrustu farþegaflugvél sem gerð hefur verið,“ að sögn tímaritsins Time. Air Force One, sem var pöntuð fyrir fáeinum árum og er gjarnan nefnd „Hið fljúgandi Taj Mahal,“ var hönnuð með það fyrir augum að hún skyldi vera sú stærsta, öruggasta og besta með „meira flugþol (11.500 km) og búin meiri þægindum en nokkur önnur flugvél sem gerð hefur verið.“ Í flugvélinni er forsetasvíta með tvíbreiðum rúmum og baðherbergi, sex aukasalerni, 85 símtæki, sjúkrastofa, 0,2 rúmmetra peningaskápur, sjónvarpskerfi þar sem hægt er að sjá 8 rásir samtímis, tvö eldhús með kæli- og frystiskápum sem rúma vistir handa 23 manna áhöfn og 70 farþegum til einnar viku, auk nýjasta varnaðarbúnaðar gegn flugskeytum, fjarskiptatækjum og mörgum öðrum þægindum. „Bandaríkjamenn eyða næstum einum milljarði dollara til að koma forseta sínum í loftið og síðan mun það kosta um 6000 dollara á klukkustund að halda honum á flugi,“ segir Time. „Það er meira en vergar þjóðartekjur Grænlands.“
Klukkan stillt á ný
Í 43 ár hefur tímaritið Bulletin of Atomic Scientists haft í gangi svonefnda „dómsdagsklukku“ til að mæla hve mikil eða lítil hætta sé talin á kjarnorkustyrjöld. „Verulega hefur dregið úr hættunni á að kjarnorkustyrjöld, er næði til alls heimsins, hefjist í Evrópu,“ sagði tímaritið í apríl síðastliðnum. „Enda þótt málið sé hvergi nærri í höfn er þetta besta tækifærið í heila fjóra áratugi til að skapa öruggan heim sem hægt er að halda gangandi. Þar af leiðandi færum við klukkuvísana aftur um fjórar mínútur, þannig að þeir standa á tíu mínútum fyrir miðnætti.“ En vísarnir hafa þó verið fjær miðnætti en það. Bæði árið 1963 og 1972 voru vísarnir stilltir á 12 mínútur fyrir miðnætti er Bandaríkin og Sovétríkin undirrituðu sáttmála sín í milli, enda þótt kalda stríðið hafi haldið áfram. „Stríðið var kalt stríð einungis í þeim skilningi að þriðja heimsstyrjöldin braust ekki út,“ segir tímaritið. „Síðastliðin 45 ár hafa verið háðar um það bil 125 styrjaldir og yfir 20 milljónir manna hafa fallið.“
Hinir áhugalausu
Áhugaleysi um trúmál hefur stóraukist í heiminum, einkum í þeim löndum sem áður voru vígi kristna heimsins. Jesúítinn Xavier Nicolas harmar í kaþólska dagblaðinu La Croix hvernig komið er. Hann segir að í aldanna rás hafi orðið margir árekstrar milli trúaðra og vantrúaðra út af grundvallarspurningum um Guð, lífið eftir dauðann og trú. Nú sé hins vegar kominn til þriðji hópurinn — hinir skeytingarlausu sem séu hvorki með eða á móti trúarbrögðum og hafi fremur lítinn áhuga á grundvallarspurningum lífsins. Hann telur kirkjuna ekki hafa gert sér fulla grein fyrir því hve veraldarhyggjan hafi náð mikilli útbreiðslu nú á tímum. Hann spyr: ‚Hvernig getum við staðhæft að við höfum svörin ef spurninganna er ekki einu sinni spurt?‘
„8000 dauðsföll á dag“
Tóbaksreykingar halda áfram að vekja ugg sérfræðinga í heilbrigðismálum sem sjá fram á heldur óbjarta framtíð reykingamanna. Talið er að næstu 25 ár muni um 500 milljónir manna deyja af völdum reykinga, að því er segir í niðurstöðu nýlegra rannsókna Alþjóðaheilbrigðismálastofunarinnar. Stofnunin spáir því að reykingar verði algengasta dánarorsök í heiminum um aldamótin. „Núna deyja 8000 manns á dag af völdum reykinga, en þegar börnin ná miðjum aldri munu deyja eitthvað í námunda við 28.000 manns á dag,“ sagði fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heimsráðstefnu um tóbaksreykingar og heilsufar sem haldin var í Perth í Ástralíu.
Mengun í Ganges
Gangesfljótið, sem er 2400 kílómetra langt, er helgasta fljót Indlands í hugum Hindúa. Ár hvert er brennt þúsundum líka á líkbálum á bökkum þess og öskunni varpað í fljótið. En skortur á eldiviði og fé veldur því að nú er hent hálfbrenndum líkum í fljótið í þúsundatali. Veruleg smithætta stafar af þessum líkum og ótal dýrahræjum sem berast með vatninu. Fréttaritari Lundúnablaðsins The Times í Dehlí segir: „Útblásin lík, sem hrægammar sitja á, fljóta fram hjá pílagrímum Hindúa er þeir busla og ólátast í óhreinu og heilögu vatninu.“ Stjórnin í Uttar Pradesh bæði verndar og ræktar skjaldbökur, sem eru kjötætur og eiga heimkynni í ánni, í von um að geta spornað gegn þessu vandamáli. „Meðan skjaldbökurnar eru ungar éta þær fisk og smáhræ. Smám saman færa þær sig upp á skaftið og taka að éta lík,“ segir yfirdýraverndunarstjórinn. Hann bætir þó við að sundmönnum stafi engin hætta af skjaldbökunum.
Uggvænlegar tölur
„Nú eru í heiminum 157 milljarðamæringar, ef til vill um 2 milljónir milljónamæringa og 100 milljónir heimilislausra,“ segir Alan Durning sem starfar hjá tímaritinu World Watch. „Hálfur milljarður manna í heiminum borðar of mikið og jafnmargir borða tæpast nógu mikið til að halda í sér lífi. . . . Misskipting tekna er meiri nú en nokkru sinni fyrr frá því að skýrslugerð hófst. Hinn ríkasti milljarður manna eyðir að minnsta kosti tuttugfalt meiri varningi og þjónustu en fátækasti milljarðurinn. . . . Við mennirnir eyðum 200 dollurum [12.000 krónum] á ári á hvern karlmann, konu og barn til hernaðar, en við virðumst ekki geta fundið þann eina dollar [60 krónur] sem það myndi kosta hvert okkar að bjarga 14 milljónum barna sem deyja ár hvert úr einföldum sjúkdómum svo sem niðurgangssýki.“ Að sögn Worldwatch-stofnunarinnar er ætlað að um 1,2 milljarðar manna búi við algera örbirgð — en það nemur 23,4 af hundraði allra íbúa jarðar.
Ný sambönd sovétríkjanna og páfagarðs
Fundur Jóhannesar Páls páfa II og Míkails Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, í desember 1989, hefur orðið til þess að stofnuð hafa verið formleg tengl milli Páfagarðs og Sóvetríkjanna í fyrsta sinn frá rússnesku byltingunni árið 1917. Samningurinn gerir ráð fyrir að Páfagarður og Sovétríkin skiptist á fulltrúum sem nefndir eru postullegur sendiherra og sérlegur sendiherra. Gorbatsjov er sagður hafa heitið páfa því að tryggja trúfrelsi í Sovétríkjunum.
Einstætt aðildarríki
Mánudaginn 23. apríl 1990 hlaut Namibía viðurkenningu sem 160. aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Þetta nýja ríki, sem öðlaðist sjálfstæði frá Suður-Afríku þann 21. mars síðastliðinn, er einstætt á fjölmarga vegu. Það er stærra en Pakistan þótt íbúar séu innan við 2 milljónir. Aðeins Grænland og Mongólía eru stærri en Namibía en hafa færri íbúa miðað við flatarmál. Namibía er einnig einstæð að því leyti hve mörg tungumál þessir tiltölulega fáu íbúar tala, en allmörg þeirra eru þekkt fyrir óvenjuleg smellihljóð. „Mál og mállýskur innfæddra Afríkubúa eru fleiri en svo að þau verði tíunduð,“ segir í namibískum ferðamannabæklingi. Enska er þó hið opinbera tungumál.
Ólæsi í heiminum
„Einn milljarður manna í heiminum er ólæs — að stærstum hluta meira að segja á sitt eigið nafn,“ segir tímaritið Asiaweek. „Og ólæsi er alls ekki á undanhaldi eins og flestir menntamenn ímynda sér.“ Indland er efst á lista með 290 milljónir ólæsra og óskrifandi og Kína fylgir í kjölfarið með 250 milljónir. Víða um lönd eru piltar líklegri til að hljóta menntun en stúlkur. Á heimsmælikvarða er einn karl af hverjum fimm ólæs en ein kona af hverjum þrem.
Tillitssemi við dýr
Íbúasamtök reyndu án árangurs að fá yfirvöld í Kaliforníu til að hætta úðun skordýraeitursins malaþíon á byggðum svæðum, að sögn tímaritsins Time, en það er notað í baráttunni gegn ávaxtarflugu ættaðri frá Miðjarðarhafi. Yfirvöld héldu því til streitu að mönnum stafaði engin hætta af eitrinu. Þegar bandaríska náttúruverndarstofnunin varaði við því að eitrið gæti verið skaðlegt litlu nagdýri, sem talið er í útrýmingarhættu, féllust yfirvöld hins vegar á að úða ekki um 13 ferkílómetra svæði þar sem nagdýrið á heimkyni. „Rottum er sýnd tillitssemi, mönnum ekki,“ segir Time.