Ótryggð og sorglegar afleiðingar hennar
„Ég er farinn,“ sagði röddin í símanum. Pálínaa hafði líklega aldrei heyrt jafnniðurdrepandi orð frá manninum sínum. „Ég trúði hreinlega ekki að hann hefði svikið mig,“ segir hún. „Það sem ég hafði alltaf óttast mest var orðið að veruleika — maðurinn minn hafði yfirgefið mig vegna annarrar konu.“
PÁLÍNA var 33 ára þegar þetta gerðist og var mjög áfram um að eiga farsælt hjónaband. Maðurinn hennar hafði fullvissað hana um að hann myndi aldrei yfirgefa hana. „Við hétum því að styðja hvort annað í blíðu og stríðu,“ segir hún. „Ég var sannfærð um að hann meinti það. Og svo . . . gerði hann þetta. Nú á ég ekkert — ekki einu sinni kött eða gullfisk — bara ekkert!“
Hákon gleymir aldrei deginum þegar í ljós kom að mamma hans hafði átt í ástarsambandi utan hjónabands. „Ég var bara 11 ára,“ segir hann. „Mamma kom æðandi gegnum húsið með pabba á hælunum. ‚Bíddu aðeins. Við skulum ræða málið,‘ sagði hann. Ég skynjaði að eitthvað hræðilegt hafði gerst. Pabbi var miður sín og náði sér aldrei almennilega. Og hann átti engan trúnaðarvin svo að hann leitaði til mín. Hugsið ykkur: Maður á fimmtugsaldri leitaði huggunar og samúðar hjá 11 ára gömlum syni sínum!“
Ótryggð í hjónabandi tekur háan toll, og gildir þá einu hvort um er að ræða hneykslanleg ástarsambönd kóngafólks, stjórnmálamanna, kvikmyndaleikara og trúarleiðtoga, eða svik og tilheyrandi táraflóð í okkar eigin fjölskyldu. „Framhjáhald virðist vera jafnalmennt og hjónaband og í sumum tilfellum jafnalgengt,“ segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica. Sumir rannsóknarmenn telja að 50 til 75 af hundraði manna hafi einhvern tíma verið maka sínum ótrúir. Zelda West-Meads, sem hefur unnið að fjölskyldurannsóknum, segir að ótryggð í hjónabandi sé að stórum hluta falin, en „allt bendi til þess að framhjáhald fari vaxandi.“
Tilfinningaflóð
Þótt tölur um tíðni framhjáhalds og hjónaskilnaða séu hrikalegar segja þær ekki nema hálfa söguna um áhrifin á daglegt líf fólks. Hugsaðu þér þá átakanlegu tilfinningakvöl sem býr að baki þessum tölum — allt táraflóðið, uppnámið, sorgina og áhyggjurnar, óbærilegan sársaukann og hinar óteljandi angistar- og andvökunætur — að ekki sé nú minnst á þá miklu fjárhagserfiðleika sem fylgja. Flest fórnarlömbin komast gegnum þrekraunina en sársaukinn er lengi að dvína og sárin lengi að gróa. Skaðinn verður seint bættur.
„Þegar slitnar upp úr hjónabandi fylgir því yfirleitt ofsafengið tilfinningaflóð sem getur byrgt manni sýn,“ segir bókin How to Survive Divorce. „Hvað áttu að gera? Hvernig áttu að bregðast við? Hvernig geturðu tekist á við þessa erfiðu þraut? Maður getur sveiflast milli vissu og óvissu, reiði og sektarkenndar eða trausts og tortryggni.“
Þannig var það hjá Pétri þegar hann komst að raun um að konan hafði verið honum ótrú. „Þegar makinn er ótrúr hellast yfir mann ruglingslegar tilfinningar,“ segir hann. Sú tilfinning að allt sé í rúst er nógu torskilin fyrir fórnarlömbin — að ekki sé nú talað um þá sem fyrir utan standa og hafa litla innsýn í ástandið. „Enginn skilur raunverulega hvernig mér líður,“ segir Pálína. „Þegar ég hugsa um manninn minn með henni finn ég bókstaflega til, ég fæ verk sem er ekki hægt að skýra fyrir neinum,“ og hún bætir við: „Stundum finnst mér ég vera að brjálast. Annan daginn finnst mér ég hafa fullkomna stjórn á hlutunum, hinn daginn ekki. Annan daginn sakna ég hans, hinn daginn man ég eftir öllu undirferlinu, lygunum og niðurlægingunni.“
Reiði og kvíði
„Stundum er maður gripinn hreinni og klárri reiði,“ segir svikinn eiginmaður. Reiðin stafar ekki aðeins af því sem gert hefur verið á hlut manns og sársaukanum sem það veldur heldur einnig „af brostnum vonum og því sem eyðilagt var,“ eins og blaðamaður komst að orði.
Sjálfsvirðing og sjálfsmat er oft á lágu stigi. Pétur viðurkennir: „Maður hugsar með sér: Er ég ekki nógu aðlaðandi? Er ég ófullnægjandi á einhvern annan hátt? Maður fer að kryfja sjálfan sig til að finna hvað sé að manni.“ Zelda West-Meads hjá Bresku hjónaráðgjöfinni segir í bók sinni, To Love, Honour and Betray: „Fátt er jafnerfitt viðureignar og . . . það að sjálfsvirðingin er á núlli.“
Sektarkennd og þunglyndi
Sektarkennd gengur venjulega í bylgjum fast á hæla reiðinnar og kvíðans. Örvilnuð eiginkona segir: „Ég held að konur þjáist ákaflega af sektarkennd. Maður kennir sjálfum sér um og spyr: ‚Hvað gerði ég rangt?‘“
Svikinn eiginmaður bendir á að tilfinningalífið gangi í stórum bylgjum. „Þunglyndi skellur á eins og óveður,“ segir hann. Kona nokkur segist hafa grátið daglega eftir að maðurinn hennar yfirgaf hana. „Ég man greinilega eftir fyrsta grátlausa deginum nokkrum vikum eftir að hann fór frá mér,“ segir hún. „Það liðu nokkrir mánuðir áður en ég komst í gegnum heila viku án þess að gráta. Þessir grátlausu dagar og vikur voru áfangar að því að ná mér.“
Tvöföld sviksemi
Margir gera sér ekki grein fyrir að sá sem heldur fram hjá maka sínum hefur brugðist honum á tvo vegu. Hvernig þá? „Þetta var erfitt fyrir mig,“ segir Pálína. „Hann var ekki einasta maðurinn minn heldur líka vinur — besti vinur minn — um margra ára skeið.“ Í flestum tilvikum leitar eiginkonan halds og traust hjá manni sínum þegar á bjátar. Nú hefur hann valdið konu sinni mjög alvarlegu sálrænu áfalli og er ekki lengur til halds og trausts eins og áður. Í einu vetfangi hefur hann bæði valdið konu sinni átakanlegum sársauka og rænt hana trúnaðarvininum sem hún treysti.
Einhver áleitnasta tilfinning hins saklausa er sú að hann hafi verið svikinn í tryggðum. Hjónaráðgjafi segir um ástæðuna fyrir því að ótryggð í hjónabandi getur haft svona gríðarlega sterk áhrif á tilfinningalífið: „Við leggjum svo mikið af sjálfum okkur í hjónabandið, af vonum okkar, draumum og væntingum, . . . í leit að manneskju sem við getum virkilega treyst og fundið að við getum alltaf reitt okkur á. Ef þessu trausti er skyndilega kippt burt erum við eins og spilaborg sem hrynur fyrir vindi.“
Það er því ljóst, eins og bent er á í bókinni How to Survive Divorce, að fórnarlömbin „þurfa hjálp til að koma lagi á tilfinningarótið . . . Þau geta þurft aðstoð til að finna út hvaða valkosti þau hafi og til að ákveða sig.“ En hverjir eru valkostirnir?
Fólki er eðlilega spurn hvort það sé rétta lausnin að sættast eða hvort réttast sé að skilja. Ef spenna hefur verið mikil milli hjónanna getur verið ákaflega freistandi að álykta í fljótfærni að skilnaður sé lausn vandans. Og þú hugsar kannski með þér að Biblían leyfi hvort eð er skilnað vegna ótryggðar í hjónabandi. (Matteus 19:9) En þú getur líka hugsað sem svo að Biblían krefjist ekki skilnaðar og talið heppilegra að sættast og hefjast handa við að treysta böndin á nýjan leik.
Hver og einn verður að gera upp við sig hvort hann ætli að skilja við ótrúan maka eða ekki. En hvernig er hægt að komast að réttri niðurstöðu um það? Byrjum á því að skoða nokkra þætti sem geta hjálpað þér að kanna hvort sættir komi til greina.
[Neðanmáls]
a Sumum af nöfnunum er breytt.