Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 11.13 bls. 12-13
  • Það sem þú ættir að vita um flogaveiki

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það sem þú ættir að vita um flogaveiki
  • Vaknið! – 2013
  • Svipað efni
  • Við höfum lært að búa við flogaveiki
    Vaknið! – 1990
  • Frá lesendum
    Vaknið! – 1991
  • Að hjálpa veikum ástvini
    Vaknið! – 2015
  • Höldum áfram að sýna þolinmæði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
Vaknið! – 2013
g 11.13 bls. 12-13

Það sem þú ættir að vita um flogaveiki

KUNNINGI fellur meðvitundarlaus á gólfið. Líkami hans stífnar upp og höfuð og útlimir rykkjast til. Ef þú veist að viðkomandi er með flogaveiki getur þú veitt viðeigandi aðstoð uns hjálp berst. Athugum nokkrar staðreyndir um þennan sjúkdóm.

Hvað er flogaveiki? Flogaveiki stafar af truflun í boðkerfi heilans sem veldur stuttum köstum, svonefndum flogum. Flog stendur venjulega ekki lengur en fimm mínútur. Lýsingin í upphafi þessarar greinar er dæmigerð fyrir svokallað krampaflog.

Hvað veldur flogaköstum? Vísindamenn telja að flogaköst eigi sér stað þegar óeðlilega sterk rafboð berast milli heilafrumna. Ekki er vitað með vissu hvers vegna þetta gerist.

Hvað á ég að gera ef ég sé flogaveika manneskju fá krampaflog? „Nærstaddir ættu að leyfa floginu að ganga yfir og láta nægja að tryggja að sjúklingurinn verði ekki fyrir meiðslum og að hann geti andað,“ segir í bókinni The Encyclopedia of the Brain and Brain Disorders. Þar segir hins vegar: „Kalla skal á sjúkrabíl ef flogið stendur yfir lengur en í fimm mínútur, ef annað flog fylgir strax á eftir eða ef einstaklingurinn nær ekki meðvitund innan nokkurra mínútna eftir að floginu lýkur“.

Hvað get ég gert fyrir sjúklinginn meðan á floginu stendur? Settu eitthvað mjúkt undir höfuð hans og fjarlægðu oddhvassa hluti frá höfði hans. Þegar kippirnir hætta skaltu snúa sjúklingnum á hliðina eins og sýnt er á meðfylgjandi skýringarmynd.

Hvað ætti ég að gera þegar sjúklingurinn kemst til meðvitundar? Fyrst skaltu fullvissa hann um að hann sé óhultur. Hjálpaðu honum síðan á fætur og leiddu hann á stað þar sem hann getur hvílt sig. Flestir eru ráðvilltir og syfjaðir eftir flog en aðrir eru fljótir að ná sér og geta haldið áfram því sem þeir voru að gera fyrir flogakastið.

Einkennast öll flogaveikiköst af vöðvakippum? Nei. Sumir sjúklingar tapa meðvitund að einhverju marki án þess að falla til jarðar. Þetta nefnist ráðvilluflog. Það stendur oftast stutt yfir og eftirköst vara sjaldnast lengi. Sumir flogaveikisjúklingar fá lengri ráðvilluflog sem standa yfir í nokkrar mínútur. Í slíkum tilvikum geta sjúklingar átt til að ráfa um, toga í fötin sín eða hegða sér á annan hátt undarlega. Að floginu loknu er algengt að fólk sé ringlað.

Hvernig er að búa við flogaveiki? Af skiljanlegum ástæðum eru margir sem þjást af flogaveiki haldnir stöðugum ótta við það hvar og hvenær næsta flogakast skellur á. Sumir forðast fjölmenni af ótta við að verða sér til skammar.

Hvernig get ég stutt vin eða kunningja sem er flogaveikur? Hvettu hann til að byrgja ekki inni tilfinningar sínar. Hlustaðu vel þegar hann tjáir sig. Spyrðu hann hvað hann vilji að þú gerir ef hann fær flogakast. Þar sem margir flogaveikir keyra ekki sjálfir gætir þú boðið honum far eða farið í sendiferðir fyrir hann.

Er hægt að fækka flogaköstum eða koma í veg fyrir þau? Ákveðnir þættir auka líkur á flogaköstum, svo sem streita og svefnleysi. Sérfræðingar ráðleggja því flogaveikum að fá næga hvíld og hreyfa sig reglulega til að draga úr streitu. Stundum hafa lyf líka dregið stórlega úr flogum.

Sello er ungur maður sem býr í Suður-Afríku. Þegar hann var lítill var honum vikið úr skóla vegna þess að hann var flogaveikur. Hann fékk enga frekari menntun á uppvaxtarárunum og engin lyf við flogaveikinni. En hann langaði til að skilja Biblíuna og vottar Jehóva hjálpuðu honum við það. Þeir bæði fræddu hann um Biblíuna og kenndu honum að lesa. Auk þess aðstoðaði vottur, sem er læknir, hann við að fá lyf við flogaveikinni og fá örorkubætur. „Vottar Jehóva eru virkilega kærleiksríkir kristnir menn,“ segir Sello sem er nú sjálfur orðinn vottur og hefur ánægju af því að segja öðrum frá loforði Guðs um nýjan heim þar sem sjúkómar verða ekki framar til. – Opinberunarbókin 21:3-5.

Læst hliðarlega

Gerðu eftirfarandi þegar kippirnir hætta:

  • Krjúptu við hlið sjúklingsins, beygðu handlegg hans við olnboga og beindu honum upp.

  • Leggðu hina hönd sjúklingsins varlega undir kinn hans.

  • Togaðu hné hans til þín með hinni hendinni og veltu honum varlega á hliðina. Dragðu síðan hné sjúklingsins fram þannig að það hvíli á gólfinu.

  • Hallaðu höfði hans aftur til að halda öndunarveginum opnum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila