Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.2. bls. 24-28
  • Varðveittu þig ‚óflekkaðan af heiminum‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Varðveittu þig ‚óflekkaðan af heiminum‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Að halda sér óspilltum af heiminum‘
  • Þessi heimsskipan á skammt eftir
  • Á nokkuð að nota þennan heim?
  • „Atvinnustörf“ lífsins
  • Óveraldlegir á allan hátt
  • Hve ólíkur ert þú heiminum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Hvers vegna við megum ekki heyra þessum heimi til
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Hvernig líta vottar Jehóva á menntun?
    Spurningar og svör um Votta Jehóva
  • Hlutlausir kristnir menn á síðustu dögum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.2. bls. 24-28

Varðveittu þig ‚óflekkaðan af heiminum‘

„Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ — Jakobsbréfið 1:27.

1, 2. Nefnið nokkrar af kröfum breinnar guðsdýrkunar.

JEHÓVA krefst hreinnar tilbeiðslu. (Jóhannes 4:23, 24) Meðal annars vekur flekklaus trú virka og ástríka umhyggju fyrir þeim sem þurfandi eru. (Galatabréfið 2:10) Hún gerir líka þá kröfu til okkar að við höldum okkur óflekkuðum af heiminum, það er að segja af hinu rangláta mannfélagi sem er fjarlægt Guði og „er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

2 „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta,“ skrifaði lærisveinninn Jakob, „að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ Önnur þýðing orðar þetta vers svo: „Hrein, óspillt trú í augum Guðs, föður okkar, er þetta: að koma til hjálpar munaðarleysingjum og ekkjum þegar þau þarfnast þess, og að halda sjálfum sér óspilltum af heiminum.“ — Jakobsbréfið 1:27, The Jerusalem Bible.

3. Hvaða spurningar munum við nú skoða?

3 En hvernig getum við, þjónar Jehóva, haldið okkur „óspilltum af heiminum“? Hvert er viðhorf Biblíunnar til félagslegra mála heimsins, menntakerfis, viðskiptahátta og afþreyingar?

‚Að halda sér óspilltum af heiminum‘

4. Hvað gefa Jóhannes 17:14 og Jesaja 2:2-4 til kynna um samband okkar við þennan heim?

4 Úr því að við, vottar Jehóva, eigum ‚ekki að heyra heiminum til‘ verðum við að verða ólík ranglátu mannfélagi. (Jóhannes 17:4) Það útheimtir meðal annars að við séum hlutlaus að því er varðar stjórnmál heimsins. Við verðum líka að halda okkur frá þátttöku í ofbeldi hans og stunda frið, því að við höfum ‚smiðað plógjárn úr sverðum okkar.‘ — Jesaja 2:2-4.

5. Hvað þurfum við að gera, til að vera óflekkuð af þessum heimi, samkvæmt (a) 1. Korintubréfi 6:9-11? (b) Efesusbréfinu 5:3-5?

5 Fyrst við viljum vera óflekkuð af þessum heimi verðum við að forðast það málfar, hegðun og viðhorf sem eru svo algeng meðal veraldlegra manna, en er í ósamræmi við orð Guðs. Til dæmis á hatur, ágirnd, óskammfeilin hegðun og klúr fyndni ekki heima í lífi okkar. (1. Korintubréf 6:9-11; Efesusbréfið 5:3-5) Ekki er undarlegt að verk okkar og viðhorf eru ólík því sem gerist hjá veraldlegu fólki, því að það hefur ekki sömu kristnu vonina og við.

Þessi heimsskipan á skammt eftir

6. Hvernig ættu vottar Jehóva, samkvæmt 1. Korintubréfi 7:29-31, að líta á hjónabandið, eignir og annað jarðneskt?

6 Páll postuli skrifaði: „Tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki, þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa, og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Korintubréf 7:29-31) Þetta gefur til kynna að kristnir menn megi ekki, þótt þeir inni af hendi skyldur sínar í hjóanbandinu, láta allt sitt líf snúast um hjónabandið. Við dauðann munu andagetnir kristnir menn að eilífu kveðja öll jarðnesk bönd, gleði, sorgir og eignir. Meira að segja núna geta kristnir menn, bæði þeir sem hafa himneska von og jarðneska, misst maka sinn eða eignir! Og í ‚þrengingunni miklu‘ verður líf okkar verndað, ekki efnislegar eigur. (Matteus 24:21; Prédikarinn 9:11) Enginn vottur Jehóva ætti því að láta hjónaband, eignir eða aðra jarðneska hagsmuni sitja í fyrirrúmi í lífinu. Þess í stað ættu allir kristnir menn að láta gott samband við Jehóva Guð vera langþýðingarmesta atriði lífsins, einkum vegna þess að við lifum á „síðustu dögum“ og „heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

7. Hver hefur, að sögn eins hagfræðings, verið fylgifiskur vaxandi menntunar, tekna o. s. frv.?

7 Margir eru uggandi um framtíð ‚heimsins í núverandi mynd.‘ Til dæmis hafði blaðamaður að nafni Nancy Brown eftir hagfræðingnum Ezra Misham um aukna menntun og tekjur: „Hvorugt hefur bætt þjóðfélagið. Samhliða auknum vísindum, menntun og efnislegum gæðum hefur þjóðfélagið séð aukið ofbeldi, afbrot, smáglæpi, skemmdarfýsn, manndráp og sjálfsmorð, dónaskap og ruddamennsku.“ Inngangsorð þessarar blaðagreinar voru svo sannarlega alvöruþrungin: „Aðeins íhlutun Guðs getur bjargað heiminum frá því að tortíma sjálfum sér.“ — Times Colonist, Viktoría, Bresku Colombíu, þann 25. mars 1982.

8. Hvers vegna ættum við ekki að hafa allt sem við getum út út þessum heimi?

8 Að sjálfsögðu skapaði Jehóva jörðina til að vera byggða, ekki ranglátu mannfélagi heldur réttlátum, fullkomnum mönnum. (Jesaja 45:18; Sálmur 37:29, 38) Guð mun því ekki leyfa mannkyninu að tortíma sjálfu sér. En enginn vafi leikur á að þessi gamla heimsskipan mun bráðlega líða algerlega undir lok. Þess vegna ættu vígðir þjónar Jehóva ekki að nota heiminn „til fulls,“ eða eins og önnur biblíuþýðing kemst að orði: „Þótt þið notið heiminn, reynið þá ekki að hafa út úr honum allt sem þið getið, því að þessi heimur í sinni núverandi mynd er að líða undir lok. — 1. Korintubréf 7:31, The New Testament in the Language of Today eftir William F. Beck.

Á nokkuð að nota þennan heim?

9. (a) Að hvaða marki geta þjónar Jehóva með réttu notað þennan heim? (b) Hvernig ber okkur að líta á efnislega hluti samkvæmt Matteusi 6:31-33 og 1. Tímóteusarbréfi 6:7, 8?

9 Er þá rétt af okkur, vígðum vottum Jehóva, að hafa nokkur not af þessum heimi? Já, Páll gaf til kynna að við gætum notað heiminn, en ekki til hins ýtrasta. Þess vegna getum við notað lögmætar ráðstafanir heimsins við að inna af hendi biblíulegar skyldur okkar og prédika boðskapinn um Guðsríki. (1. Tímóteusarbréf 5:8; 6:17-19) Með því að við viljum vera ‚óflekkuð af heiminum‘ er þó ekki rétt af okkur að blanda okkur í deilumál hans, mótmælagöngur, köld eða heit stríð eða önnur mál af því tagi. Við ættum ekki einu sinni í leyndum að aðhyllast annan hvorn málstaðinn. Við ættum ekki heldur að gera okkur óþarfar áhyggjur út af lífsviðurværi okkar og efnalegri velsæld, því að Jesús sagði: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Og Jesús fór eftir því sem hann prédikaði, því að þótt refir ættu greni og fuglar hreiður átti hann hvergi höfði sínu að halla. Megum við því gera okkur ánægð með viðurværi og húsaskjól og ‚leita fyrst og fremst Guðsríkis.‘ — Matteus 6:31-33; Lúkas 9:58; 1. Tímóteusarbréf 6:,7 8.

10. Hvaða spurningar í sambandi við menntun ber að hugleiða og tala um í bæn, og hvernig myndir þú svara þeim?

10 Hvað þá um ævistarf og frama í heiminum? Nú, fyrst þessi heimur mun líða undir lok á okkar dögum, er þá hyggilegt að áforma að helga líf sitt fram í heiminum? (Matteus 24:34) Tæplega! Og þetta sjónarmið hlýtur að hafa áhrif á viðhorf okkar til veraldlegrar menntunar, er ekki svo? Þótt þörf sé undirstöðumenntunar er nær ógerlegt í æðri skólum að komast hjá því að ríkjandi holskefla veraldlegrar hugsunar hrífi okkur með sér. Að sjálfsögðu verður hver og einn að taka eigin ákvarðanir í sambandi við menntun. (Galatabréfið 6:5) En spurningar svo sem eftirfarandi verðskulda alvarlega íhugun og bæn: Hafa stúdentar á háskólaárum einnig getað ‚haldið áfram að leita fyrst ríkis Jehóva og réttlætis‘? Verða þeir fyrir alls engum áhrifum af kenningum og heimspeki sem grafa undan sannri trú? (Kólossubréfið 2:8) Hafa veraldlegir félagar haft góð áhrif á þá, eða hafa þau áhrif verið andlega skaðleg? (1. Korintubréf 15:33) Og hafa margir hámenntaðir menn í raun og sannleika varðveitt hógværð? — Filippibréfið 2:2, 3.

11. Hvaða hjálp er okkur gefin hér til að skoða tilefni okkar, óháð eðli menntunarinnar?

11 Og reyndar geta sumir, sem mennta sig í verklegum greinum, orðið svo uppteknir af starfi sínu að þeir gefi sér ekki framar mikinn tíma til þjónustunnar við Jehóva. Þess vegna er mikið komið undir tilefni einstaklingsins, hvert svo sem er eðli menntunarinnar. Er það löngun í sjálfstæði og fé sem mestu ræður? Mun menntunin hafa í för með sér að þjónustan við Jehóva dragist verulega saman eða mun hún hjálpa honum að framfleyta sér í heilagri þjónustu? Ert þú, þótt þú sért kristinn maður og ættir að vera óflekkaður af heiminum, í staðinn að reyna að ná fótfestu í þessu heimskerfi, eða ert þú í sannleika upptekinn af því að láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi í lífinu?

12. Hvað hefur komið sumum hámenntuðum einstaklingum til að taka við sannleika Guðsríkis?

12 Við fögnum því að sumir hámenntaðir einstaklingar skuli hafa tekið við sannleika Guðsríkis. En þeir gerðu það ekki vegna sinnar háu menntunar. Í staðinn gerðu þeir sér ljóst að þrátt fyrir sína háu menntun væri lífið tilgangslaust, vegna þess að þeir voru án Guðs og öruggar vonar. Nú vita þeir að ‚ekki margir vitrir, máttugir og stórættaðir‘ hafa velvild Guðs. (1. Korintubréf 1:26-31) Þeir fagna því samt sem áður sjálfir að þeir skuli loksins hafa fundið sannan tilgang í lífinu sem vottar Jehóva.

„Atvinnustörf“ lífsins

13. Hvað gefur 2. Tímóteusarbréf 2:3, 4 til kynna um viðskiptalíf og vígðan kristinn mann?

13 Með því að við viljum vera óspilltir af þessum heimi, hvernig ættum við að líta á viðskiptalíf hans? Nú, Páll postuli sagði Tímóteusi: „Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú. Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.“ (2. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Kristnir menn verða að vinna og sjá sér og fjölskyldum sínum farborða með heiðarlegum hætti. En væri það ekki undarlegt ef frekar væri talað um vígðan kristinn mann sem kaupsýslumann en þjón orðsins? Ætti hann ekki fyrst og fremst vera kunnur sem boðberi Guðsríkis og „góður hermaður Krists Jesú“?

14. Hvernig mætti fylgja Hebreabréfinu 13:18 í viðskiptum okkar?

14 Sjálfsathugunar er því þörf á ýmsa vegu þegar viðskipti eiga í hlut. Þótt við eigum kannski viðskipti við eigingjarnt, veraldlegt fólk höfum við enga afsökun fyrir því að taka upp samviskulausa og óheiðarlega viðskiptahætti þess eða slæmt orðbragð. Þess í stað verðum við að ‚breyta vel og heiðarlega í öllum greinum.‘ (Hebreabréfið 13:18) Að vísu koma harðir kaupsýslumenn þessa heims kannski ekki fram við okkur eins og við komum fram við þá, en við megum vera fullviss um að Jehóva blessi okkur fyrir heiðarleika okkar, og það er ein leið til að ‚prýða kenningu Guðs frelsara okkar.‘ — Títusarbréfið 2:9, 10.

15. Hvaða ráð eru hér gefin frá Biblíunni um áhættuviðskipti?

15 Við sem viljum vera óflekkaðir af þessum heimi ættum að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) En við værum ekki að gera það ef við af eigingirni notuðum okkur kunningsskap okkar við þjóna Guðs til að vinna að einhverju viðskiptabraski í þeim tilgangi að hagnast á þeim. Að sjálfsögðu ættu kristnir menn að ‚breyta eins og vitrir menn.‘ (Efesusbréfið 5:15) Þótt einhver, sem er kallaður bróðir, komi til okkar og bjóði okkur að taka þátt í einhverju gróðabragði ættum við ekki að láta telja okkur auðveldlega á að láta fjármuni af hendi. Skipulag Guðs hefur af ærnu tilefni af og til varað við þeim sem segjast vera andlegir bræður okkar en reyna að misnota sér „sauði“ Jehóva.

Óveraldlegir á allan hátt

16. Nefnið dæmi um leiðir til að sýna að við séum ‚óflekkuð af heiminum.‘

16 Að sjálfsögðu er ekki hægt að tíunda allt um það hvernig vottar Jehóva sýna sig vera ‚óflekkaða af heiminum.‘ En augljóst er þó að óhófleg notkun áfengra drykkja, iðkun samkeppnis- eða ofbeldisíþrótta, langar setur við kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem fjalla um glæpamenn, morðingja og aðra siðleysingja, eða lestur bóka gagnsýrðar siðleysi og ofbeldisfullir sjónvarps- eða tölvuleikir eru ekki leiðin til að varðveita sig óflekkaðan af þessum heimi. (1. Korintubréf 6:9, 10; 15:33; Galatabréfið 5:19-26; 1. Pétursbréf 4:3) Jehóva væntir þess að þjónar hans forðist óhóf, siðleysi og ofbeldi þessa heims. Við ættum því ekki að bera okkur eftir þekkingu eða reynslu í illskuverkum heimsins heldur vera saklaus „sem ungbörn í illskunni.“ — 1. Korintubréf 14:20; samanber 1. Jóhannesarbréf 3:2, 3.

17. Hvaða áhrif ætti það að við erum óflekkuð af heiminum að hafa á samskipti okkar við aðra?

17 Að vera óflekkaður af þessum heimi snertir sérhvert svið lífs okkar, og tekur vissulega til sambands okkar við aðra. Þótt beisk afbrýði, eigingirni, stærilæti og lygar séu svo algengar í þessum heimi eiga þær ekki heima meðal okkar, því að Jakob skrifaði: „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.“ (Jakobsbréfið 3:13-16) Sannarlega er þýðingarmikið að láta í ljós ‚hógláta speki‘ og að ‚stunda frið við alla menn‘! (Hebreabréfið 12:14) Við, drottinhollir vottar Jehóva, getum ekki leyft smávægilegum persónuágreiningi að spilla sambandi okkar við bræður okkar og systur í trúnni. Þess í stað verðum við að ‚umbera hver annan og fyrirgefa hver öðrum, eins og Jehóva hefur fyrirgefið okkur fúslega.‘ (Kólossubréfið 3:13) Það er ekki hinn almenni háttur heimsins í mannlegum samskiptum, en það er háttur Guðs.

18. Í hverju kemur það best fram að við erum aðgreind frá heiminum?

18 Að ástunda frið við fólk innan og utan kristna safanðarins er mikilvæg leið til að sýna að við séum ekki flekkuð af þessum heimi. En aðgreining okkar frá honum er hvað augljósust á því þegar við stöndum fastir fyrir sem hugdjarfir hermenn Jesu Krists, fullbúnir andlegu alvæpni frá Guði og „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.“ (Efesusbréfið 6:11-18) Ógrynni manna hungrar enn og þyrstir eftir lífgandi boðskap Guðsríkis. Megum við því af óeigingirni nota eigur okkar, hæfileika og styrk í því stórfenglega verki að boða ‚fagnaðarerindið‘ á þeim skamma tíma sem eftir er áður en þetta heimskerfi tekur enda. — Matteus 24:14.

19. Hvað megum við búast við að Satan geri nú á síðustu dögum, en hvað mun okkur takast með hjálp Guðs?

19 Á þessum stundlegu síðustu dögum mun Satan, guð þessa heims, gera frekari árásir á okkur, drottinholla votta Jehóva. Djöfullinn mun, í örvæntingarfullum tilraunum til að snúa okkur burt frá heilagri þjónustu við Guð, veifa auðæfum heimsins, skrautlegu prjáli hans, æðri menntun og mörgu fleiru. En með óbrigðulli hjálp Guðs mun okkur takast að varðveita okkur ‚óflekkuð af heiminum,‘ til lofs okkar helga Guði, Jehóva.

Hverju svarar þú?

◻ Nefndu nokkrar af kröfum sannrar guðsdýrkunar samkvæmt Jakobsbréfinu 1:27.

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að halda sér óspilltum af þessum heimi.

◻ Hvaða áhrif getur sú staðreynd, að þessi heimur er að líða undir lok, haft á viðhorf okkar til æðri menntunar?

◻ Á hvaða vegu er þörf sjálfsrannsóknar í sambandi við viðskipti?

◻ Hvernig geta vottar Jehóva sýnt sig vera ‚óflekkaða af heiminum‘ í sambandi við hegðun og samskipti við aðra?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Það er ekki frami í heiminum sem vetir hylli Guðs.

[Myndir á blaðsíðu 27]

Jehóva væntir þess að vottar hans séu óflekkaðir af óhófi, siðleysi og ofbeldi þessa heims.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila