Settu traust þitt á Jehóva
„Treyst [Jehóva] og gjör gott, . . . þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva].“ — SÁLMUR 37:3, 4.
1, 2. (a) Hvernig fór fyrir þeim sem treystu ekki á Jehóva á fyrstu öld og þeim sem gerðu það? (b) Hvaða spurninga má spyrja um trúarbrögð okkar tíma?
TRÚARLEIÐTOGAR Gyðinga á fyrstu öld okkar tímatals fullyrtu að þeir tilbæðu Guð. En þeir treystu ekki á hann. Þeir brutu boðorð hans og ofsóttu fulltrúa hans. (Matteus 15:3; Jóhannes 15:20) Af því leiddi að Jehóva ‚yfirgaf hús þeirra.‘ (Matteus 23:38) Árið 70 lagði rómverskur her Jerúsalem og musteri hennar í rúst og mikið manntjón varð bæði meðal trúarleiðtoganna og fylgjenda þeirra. En þeir sem treystu á Jehóva nutu verndar því að þeir höfðu hlýtt aðvörunum talsmanna hans og flúið á öruggan stað. — Matteus 24:15-22; Lúkas 21:20-24.
2 Treysta trúarbrögð þessa heims á hinn sanna Guð, Jehóva, núna á síðustu dögum þessa heimskerfis? Hlýða þau boðorðum hans og gera þau vilja hans, eða líkja þau eftir trúarleiðtogunum á fyrstu öld sem Guð yfirgaf? Hver af trúarbrögðum þessa heims geta vænst þess að njóta verndar Jehóva, vegna þess að þau ‚treysta [Jehóva] og gjöra gott‘? — Sálmur 37:3.
Hvar er bróðurkærleikurinn?
3. Hvernig hafa tilraunir trúarbragðanna til að koma á friði mistekist?
3 Ekki alls fyrir löngu varaði Jóhannes Páll páfi II við því að allt mannkynið væri í „verulegri útrýmingarhættu.“ Hann lagði áherslu á að ‚helst mætti vinna gegn þessari hættu með sameiginlegu átaki mismunandi trúfélaga.‘ Hann sagði það vera vilja Guðs að trúarleiðtogarnir ‚ynnu saman að friði og sáttum.‘ En ef það er vilji Guðs, hvers vegna hefur Guð þá ekki blessað margra alda viðleitni í þá átt? Það hefur hann ekki gert vegna þess að trúarbrögðin hafa ekki treyst leið Guðs til að koma á friði, himnesku ríki hans. (Matteus 6:9, 10) Þess í stað hafa þau stutt stjórnmál og styrjaldir þjóðanna. Þar af leiðandi hefur trúhneigt fólk einnar þjóðar á styrjaldartímum drepið trúhneigt fólk annarrar þjóðar, jafnvel fólk sinnar eigin trúar. Kaþólskir hafa drepið kaþólska, mótmælendur hafa drepið mótmælendur og aðrir trúarhópar hafa gert hið sama. En drepa sannir andlegir bræður hver annan og segjast um leið þjóna Guði?
4. Hvern sagði Jesús vera staðal sannrar trúar og hvers vegna var það „nýtt boðorð“?
4 Jesús setti sannri trú staðal þegar hann sagði við fylgjendur sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, svo skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Þeir sem iðka sanna trú verða því að elska hver annan. Þetta var „nýtt boðorð“ að því leyti sem Jesús sagði: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ Hann var fús til að leggja líf sitt í sölurnar fyrir fylgjendur sína. Þeir verða að vera fúsir til að gera slíkt hið sama — ekki að taka líf trúbræðra sinna heldur vera fúsir til að gefa líf sitt fyrir þá er þörf krefur. Þetta var nýtt því að slíks höfðu Móselögin ekki krafist.
5. Hvernig leggur orð Guðs þunga áherslu á nauðsyn kærleika og einingar meðal sannra guðsdýrkenda?
5 Orð Guðs segir: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Með þessum kærleika varðveita þeir sem treysta Guði alþjóðaeiningu sína. Páll postuli segir í 1. Korintubréfi 1:10: „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — Sjá einnig 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.
6. Hvers vegna geta vottar Jehóva sagt að þeir einir séu ‚hreinir af blóði allra‘?
6 Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að um 55 milljónir manna hafi fallið í síðari heimsstyrjöldinni. Þeir féllu fyrir höndum fólks af öllum helstu trúarbrögðum heims nema votta Jehóva. Ekki einn einasti féll fyrir hendi votts Jehóva vegna þess að þeir hlýddu boðinu um að elska hver annan og neituðu að taka þátt í stríði þjóðanna. Þótt margir hafi þolað píslarvætti í fangelsum og fangabúðum sökum hlutleysis síns gátu þeir sagt eins og Páll postuli: „Eg er hreinn af blóði allra.“ — Postulasagan 20:26, Ísl. bi. 1912.
7, 8. Hvernig viðurkenna sumir kirkjunnar menn blóðskuld sína?
7 Kaþólskur herprestur þeirra manna í bandaríska flughernum, sem vörpuðu kjarnorkusprengjum á Japan árið 1945, sagði nýverið: „Síðastliðin 1700 ár hefur kirkjan verið að gera styrjaldir virðingarverðar. Hún hefur fengið fólk til að trúa að herþjónusta sé heiðvirt, kristið starf. En það er rangt. Við höfum verið heilaþvegin. . . . Guðspjallið um réttlátt stríð er guðspjall sem Jesús kenndi aldrei. . . . Það er ekkert í lífi eða kenningu Jesú sem gefur til kynna að það sé ólögmætt að brenna upp fólk með kjarnorkusprengju en lögmætt að brenna það upp með eldsprengjum eða eldvörpum.“
8 Kaþólska blaðið Catholic Herald í Lundúnum sagði: „Frumkristnir menn . . . tóku Jesú á orðinu og neituðu að láta skrá sig í rómverska herinn, jafnvel þótt dauðarefsing lægi við. Hefði það breytt gangi mannkynssögunnar ef kirkjan hefði haldið sér við upprunalega afstöðu sína? . . . Ef kirkjur okkar tíma gætu sameinast um að fordæma stríð . . . sem hefði í för með sér að hver einasti meðlimur yrði eins og kristinn maður bundinn af samvisku sinni til að neita að gegna herþjónustu, þá mætti sannarlega tryggja frið. En við vitum að það mun aldrei gerast.“
9. Hvers vegna ályktum við að Jehóva hafi yfirgefið trúarbrögð þessa heims?
9 Trúarbrögð þessa heims hafa þannig vikið stórkostlega frá boðorðum Guðs. Þau hafa ekki treyst honum frekar en farísearnir. „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ (Títusarbréfið 1:16) Þar af leiðandi hefur Guð snúið baki við trúarbrögðum þessa heims jafnörugglega og hann sneri baki við hræsnisfullri trú Gyðinga á fyrstu öld. — Matteus 15:9, 14.
Lifað af með því að treysta á Jehóva
10, 11. Hvað gerði Hiskía konungur þegar Assýringar kröfðust uppgjafar Jerúsalem og hvern var talsmaður Sanheribs að smána?
10 Þú skalt ekki leggja traust þitt á leiðtoga þessa heims eða trúarbrögð hans. Leggðu þess í stað traust þitt á hann sem getur staðið við loforð sín. (Jósúabók 23:14) Sem dæmi skalt þú veita athygli því sem gerðist á 8. öld fyrir daga Krists, á dögum Hiskía Júdakonungs. Biblían segir um hann: „Hann gjörði það, sem rétt var í augum [Jehóva].“ (2. Konungabók 18:3) Í stjórnartíð hans lagði hið volduga heimsveldi Assýría upp gegn Jerúsalem. Sanherib Assýríukonungur krafðist uppgjafar Jerúsalem og sagði: „Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður af hans hendi. Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á [Jehóva].“ — 2. Konungabók 18:29, 30.
11 Hvað gerði Hiskía? Biblían segir: „Hiskía gjörði bæn sína frammi fyrir [Jehóva] og sagði: ‚[Jehóva], Ísraels Guð, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. Hneig, [Jehóva], eyra þitt og heyr. Opna, [Jehóva], auga þitt og sjá! Heyr þú orð Sanheribs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifanda Guð. . . . En [Jehóva], Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, [Jehóva], einn ert Guð!‘“ — 2. Konungabók 19:15-19.
12. Hvernig svaraði Jehóva bæn Hiskía?
12 Jehóva heyrði þessa bæn og sendi spámanninn Jesaja til að segja Hiskía: „Svo segir [Jehóva] um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni.“ Átti Hiskía að fara með her gegn Assýringum? Nei, hann átti að treysta á Jehóva hvað hann og gerði. Hvernig fór? „Þessa sömu nótt fór engill [Jehóva] og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa.“ Sanherib sjálfur galt fyrir að hafa smánað Jehóva og þjóna hans því að synir hans myrtu hann síðar. Eins og Jehóva hafði sagt var ekki einni einustu ör skotið að Jerúsalem. — 2. Konungabók 19:32-37.
13, 14. Á hvaða grundvelli munu menn af öllum þjóðum lifa af endalok hins núverandi heimskerfis?
13 Á okkar dögum mun eitthvað svipað gerast. Þeir sem treysta á Jehóva munu lifa af smánarorð þessa heims og endalok hans. „Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, [Jehóva], yfirgefur eigi þá, er þín leita.“ (Sálmur 9:11) En áður en Jehóva fullnægir dómi á þessum blóðseka heimi býður hann hjartahreinum mönnum að leita öryggis og skjóls hjá sér. Þeir mynda nú ‚mikinn múg‘ af öllum þjóðum sem ‚koma út úr þrengingunni miklu.‘ Þeir lifa af endalok þessa heims vegna þess að þeir treysta Jehóva og þjóna honum „dag og nótt.“ — Opinberunarbókin 7:9-15.
14 Þeir svara kallinu er hljómað hefur af vaxandi þrótti út um allan heim, eins og sagt var fyrir í Jesaja 2:2, 3: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] [sönn tilbeiðsla á honum] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi. . . . Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ Fjórða versið segir um þá sem gera það: „[Þeir] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“
15. Hverjir uppfylla spádóminn í Jesaja 2:2-4 og hvernig?
15 Hverjir hafa á okkar tímum ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum‘? Hverjir ‚temja sér ekki hernað framar‘? Hverjir bera órjúfanlegan kærleika til andlegra bræðra sinna og systra um alla jörðina og eru þeim sameinaðir? Hverjir treysta á Jehóva og bjóða öðrum að gera það líka? Staðreyndirnar sýna að það eru einungis vottar Jehóva. Líkt og Hiskía treysta þeir Jehóva af öllu hjarta og sýna það með því að halda boðorð hans.
Björt framtíð
16, 17. Hvaða bjarta framtíð býður Jehóva þeim sem treysta honum?
16 Þeim sem treysta Jehóva býður hann björtustu framtíð sem hugsast getur þegar hann lætur þessa gömlu þjóðfélagsskipan víkja fyrir nýrri. Í nýju mannfélagi hér á jörð verður hvorki ótti né vantraust, fátækt, ranglæti né glæpir. Aldrei framar verður fólki slátrað í styrjöldum eða með fóstureyðingum. Opinberunarbókin 21:4 lofar því meira að segja að ‚dauðinn muni ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl vera framar til.‘
17 Allt þetta þýðir að þessi jörð verður paradís eins og Jesús gaf loforð um. (Lúkas 23:43) Og þar sem jafnvel dauðinn verður þurrkaður út munu þeir sem treysta á Jehóva geta lifað eilíflega í paradís. Þá mun rætast fullkomlega það sem segir í Míka 4:4: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ Hugsaðu þér að búa í þjóðfélagi þar sem þú getur treyst fyllilega hverjum þeim manni sem þú hittir! Hvers vegna verður það þannig? Jesajabók 54:13 svarar því: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“
18. Hvaða blessun uppskera þeir sem treysta á Jehóva jafnvel nú þegar?
18 En jafnvel núna uppskera milljónir votta Jehóva þá blessun sem fylgir því að treysta Jehóva. Vegna hlýðni sinnar við lög Jehóva og meginreglur eru þjónar hans til dæmis lausir við lungnakrabbamein af völdum tóbaksreykinga. Þar eð þeir búa í siðferðilega hreinu umhverfi stafar þeim ekki hætta af þeim faraldri samræðissjúkdóma sem herja á heiminn, þeirra á meðal eyðni. Það að þeir neyta ekki fíkniefna verndar þá fyrir því að skaða hug sinn og fá banvæna sjúkdóma sem herja á marga fíkniefnaneytendur. Og þar eð þeir láta ekki gefa sér blóð fá þeir ekki með þeim hætti banvæna sjúkdóma sem berast með blóði, svo sem lifrarbólgu er ár hvert drepur eða veldur varanlegu heilsutjóni um 10.000 blóðþegum í Bandaríkjunum einum ár hvert.
19. Hvernig mun Jehóva bjarga þeim sem þjóna honum þótt þeir deyi?
19 Jafnvel þótt þeir sem treysta á Jehóva deyi sökum aldurs, sjúkdóma eða slysa mun Jehóva bjarga þeim. Það gerir hann með upprisunni. Páll postuli hvetur okkur til að „treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.“ — 2. Korintubréf 1:9.
Jehóva heldur þjónum sínum uppi
20, 21. (a) Hvaða andstöðu megum við búast við eins og sjá má af því sem kom fyrir Jesú? (b) Hvernig upphefur Jehóva þjóna sína eins og hann upphóf Jesú?
20 Hafðu í huga að „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Ef þú treystir á Guð mun því Satan og sá heimur, sem hann stjórnar, gera hríð að þér. Þeir munu reyna að spilla trausti þínu með háðsglósum eða ofsóknum, eins og Jesús mátti þola. Eftir að hann var negldur á kvalastaurinn tóku ‚þeir, er fram hjá gengu, að hæða hann, skóku höfuð sín og sögðu: „Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!“ Eins gerðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu: „Öðrum bjargaði hann, en sjálfum sér getur hann ekki bjargað! . . . Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum.“‘ — Matteus 27:39-43.
21 Guð kom Jesú sannarlega til bjargar aðeins þrem dögum síðar með því að reisa hann upp frá dauðum. En sú kynslóð sem hæddi hann ýmist féll fyrir rómverskum her eða var hneppt í þrælkun. Og þar eð Kristur, sem er konungur hins himneska ríkis Guðs, mun hafa umsjón með upprisunni myndu þeir verða að lúta þeim hinum sama og þeir hæddu fyrir 2000 árum, ef einhver þeirra kæmi fram í upprisunni! Já, Jehóva upphefur þjóna sína sem segja: „Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ — Sálmur 56:12.
22. Hverju lýsir Jehóva yfir viðvíkjandi þeim sem treysta honum og þeim sem ekki gera það?
22 Jehóva segir um þjóna sína: „Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á [Jehóva] og lætur [Jehóva] vera athvarf sitt. Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, — sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt.“ En Jehóva segir líka: „Bölvaður sé sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá [Jehóva]. Hann er eins og einirunnur á saltsléttunni og hann lifir ekki það, að neitt gott komi.“ — Jeremía 17:5-8.
23. Hvað verðum við að gera ef við viljum hljóta eilíft líf?
23 Núna, á þessum óttalegu tímum, hvetjum við þig til að ‚treysta Jehóva og gjöra gott, búa í landinu og iðka ráðvendni. Þá munt þú gleðjast yfir Jehóva og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.‘ (Sálmur 37:3, 4) Megi bænir þínar, sem Jehóva svarar, veita þér meðal annars eilíft líf í réttlátum nýjum heimi sem sá Guð, er við treystum, hefur heitið.
Upprifjun
◻ Hvaða staðal verða þeir sem treysta á Jehóva að halda?
◻ Kenna trúarbrögð þessa heims traust til Jehóva?
◻ Hvernig réttlættist traust Hiskía konungs til Jehóva?
◻ Hvernig uppfyllist spádómurinn í Jesaja 2:2-4 á okkar dögum?
◻ Hver verður framtíð þeirra sem treysta á Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Talsmaður Assýríukonungs smánaði Jehóva og krafðist uppgjafar Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þeir sem treysta á Jehóva munu í nýjum heimi njóta fullkomins friðar og öryggis.