Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.12. bls. 4-6
  • Jesús — hver er hann?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jesús — hver er hann?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Var hann bara venjulegur maður?
  • Getum við trúað frásögunum?
  • Er Jesús „Jehóva Gamlatestamentisins“?
  • Mesta mikilmenni sem lifað hefur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Jesús Kristur — sannanir fyrir tilvist hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Jesús Kristur — hver er hann?
    Jesús Kristur — hver er hann?
  • Það sem Jesús kenndi um sjálfan sig
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.12. bls. 4-6

Jesús — hver er hann?

NÆSTA lítið er getið um Jesú í veraldlegum heimildum. Þó eru þess nokkur dæmi og um þau segir The Encyclopædia Britannica: „Þessar óskyldu frásagnir sanna að jafnvel til forna véfengdu andstæðingar kristninnar aldrei að Jesús væri sannsöguleg persóna. Það var ekki fyrr en í lok 18. aldar, alla 19. öldina og í byrjun 20. aldar sem ýmsir rithöfundar fóru fyrst að draga það í efa, þó án fullnægjandi tilefnis.“

En ef Jesús er aðeins goðsagnarvera, er þá líklegt að það hafi ekki uppgötvast fyrr en á 18. öld? Hugleiddu það líka að yfir einn milljarður manna segist fylgja Jesú. Þeim áhrifum sem kenningar hans hafa haft á siðmenningu, menntun og stjórnsýslu — á allan gang veraldarsögunnar — verður ekki neitað. Virðist það rökrétt að allt þetta sé byggt á hreinni goðsögn?

Ef stofnandi íslams eða múhameðstrúar, arabíski spámaðurinn Múhameð, var sannsöguleg persóna, eru þá nokkur heilbrigð rök fyrir því að ætla að Jesús Kristur, stofnandi kristninnar, hafi ekki verið það? Að vísu var hann uppi um 600 árum fyrir daga Múhameðs, en stofnandi búddhatrúarinnar, Siddharta Gautama — Búddha eða „hinn upplýsti“ — var uppi enn fyrr, yfir 500 árum fyrir daga Jesú. Ef Búddha var sannsöguleg persóna er þá nokkur skynsamleg ástæða til að véfengja að Jesús hafi verið það?

Þýski sagnfræðingurinn og fornleifafræðingurinn Hans Einsle segir að Gyðingurinn og sagnfræðingurinn Flavíus Jósefus, rómversku rithöfundarnir Svetóníus og Plíníus, þó einkum rómverski sagnfræðingurinn Tacítus, „staðfesti allir að Jesús hafi verið sannsöguleg persóna og kemur saman um helstu æviatriði hans.“

Var hann bara venjulegur maður?

Jesús var til — en hver var hann? Sumir halda því fram að hann hafi aðeins verið venjulegur maður, þótt þeir játi að hann hljóti að hafa verið afar vitur maður og sannleiksunnandi. Jafnvel óvinir hans á fyrstu öld játuðu það og sögðu: „Meistari, við vitum að þú segir sannleikann . . . þú lætur þig engu varðar skoðanir eða viðhorf annarra, þú kennir veg Guðs í sannleika.“ — Markús 12:13, 14, Lifandi orð.

Aðrir eru þeirrar skoðunar að Jesús hljóti að hafa verið meira en aðeins venjulegur maður. Hvers vegna? Vegna þess meðal annars að hann gat gert sitthvað sem venjulegir menn gátu ekki. Hefur þú til dæmis nokkurn tíma kynnst manni sem gat gengið á vatni, breytt vatni í vín, mettað um 5000 manns með tveim smáfiskum og fimm byggbrauðum, læknað blinda eða reist upp dána? — Matteus 14:25, 26; Markús 8:22-25; Jóhannes 2:1-11; 6:1-13; 11:30-44.

Jesús gat líka skynjað ýmislegt sem venjulegir menn gátu ekki. Þegar kona sagði honum að hún ætti engan mann sagði Jesús: „Rétt er það, að þú eigir engan mann, því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður.“ Yfir sig undrandi svaraði konan: „Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.“ (Jóhannes 4:6-19) Þekkt dæmi um að Jesús gæti séð framtíðina fyrir er að finna í Lúkasi 22:31-34 og 54-62 þar sem hann segir fyrir að Pétur muni afneita honum.

Jesús bjó yfir óvenjulegu valdi. „Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.“ (Markús 1:22) Enn fremur gat Jesús gefið lærisveinum sínum tólf „vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.“ — Matteus 10:1.

Getum við trúað frásögunum?

‚Heyrið mig nú,‘ segir þú kannski. ‚Getur ekki hugsast að frásögurnar af verkum Jesú séu eitthvað ýktar?‘ Ekki að sögn F. F. Bruce, sem er prófessor í biblíugagnrýni og fræðilegri textaskýringu við Manchester-háskóla, nú á eftirlaunum. Hann skrifar: „Yfirleitt er ekki hægt með sagnfræðilegum rökum að sýna fram á sannleiksgildi sérhvers smáatriðis í fornum ritum, hvort heldur biblíulegum eða ekki. Nægilegt er að bera sanngjarnt traust til þess að ritarinn sé almennt áreiðanlegur. Ef hægt er að sýna fram á það er hægt að ganga út frá því að órannsökuðu máli að hann segi líklega rétt frá. . . . Það er ekkert ólíklegra að Nýjatestamentið sé sögulega áreiðanlegt fyrir þá sök að kristnir menn skuli líta á það sem ‚helgirit.‘“

Allt bendir til að riturum guðspjallanna sé treystandi. Þótt þeir greini stundum ólíkt frá smáatriðum eru þeir ekki í mótsögn hver við annan. Muninum á frásögum þeirra má líkja við mismunandi lýsingar tveggja sjónarvotta á umferðarslysi. Þeir þurfa ekki að vera í mótsögn hvor við annan þótt annar segi að rauður bíll hafi komið frá vinstri og rekist á grænan bíl sem kom frá hægri, en hinn segi að Mercedes Benz, sem ók í suðurátt, hafi rekist á Renault sem ók í norðurátt. Sú staðreynd að eilítill munur skuli vera á frásögum biblíuritaranna gefur sterklega til kynna að þær séu sannar. Ef ritararnir hefðu viljað koma fólki til að trúa á goðsögn hefðu þeir áreiðanlega gætt þess að sögum þeirra bæri saman í smærstu atriðum.

Jafnvel óvinir Jesú viðurkenndu óbeint að frásögurnar af honum væru sannar. Við lesum: „Komið [var] til hans með mállausan mann, haldinn illum anda. Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. . . . En farísearnir sögðu: ‚Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.‘“ (Matteus 9:32-34) Veittu því athygli að farísearnir neituðu því ekki að Jesús hefði gert kraftaverk. Þeir neituðu einungis að hæfni hans til þess væri heilagum andi Guðs að þakka.

Önnur rök fyrir því að frásagnirnar af Jesú séu sannar eru þau að meginreglurnar, sem kenningar hans innihalda, duga. Ef þeim er fylgt hafa þær í för með sér velgengni og lífshamingju. Auk þess eru margir af langtímaspádómum Jesú að uppfyllast núna, svo sem þeir sem er að finna í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.

Er Jesús „Jehóva Gamlatestamentisins“?

Augljóst er að Jesús var enginn venjulegur maður. Hann var einstakur að því leyti að hann hafði verið til á himnum áður en hann kom til jarðar, eins og Biblían segir okkur. (Jóhannes 6:38, 62) Hann bjó því yfir þekkingu og hæfni umfram venjulega menn. Það skýrir að nokkru leyti kraftaverk hans og heilnæma visku.

En var Jesús þá Guð úr því að hann var til áður en hann varð maður? Það er fullyrt í kennarahandbók þar sem segir: „Í hvert sinn sem Jesús notaði um sjálfan sig orðin ‚ég er‘ . . . þá var hann að gefa í skyn að hann væri Jehóva Gamlatestamentisins.“ Er þetta rétt?

Í 2. Mósebók 3:13, 14 spurði Móse: „‚Þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: „Guð feðra yðar sendi mig til yðar,“ og þeir segja við mig: „Hvert er nafn hans?“ hverju skal ég þá svara þeim?‘ Þá sagði Guð við Móse: ‚Ég er sá, sem ég er.‘ Og hann sagði: ‚Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: „Ég er“ sendi mig til yðar.‘“ Í ritinu The Pentateuch and Haftorahs (hebreskur texti með enskri þýðingu og skýringum í ritstjórn dr. J. H. Hertz) segir að í orðunum „Ég er sá, sem ég er . . . sé áherslan á virkri opinberun tilvistar Guðs.“ Rétt var að nota þetta sem titil eða nafn á Guði vegna þess að með því að frelsa þjóna sína úr fjötrum Egyptalands var Guð í þann mund að opinbera þeim tilvist sína með einstæðum hætti. Hertz segir að „flestar nútímaþýðingar fylgi Rashi (nafntogaður franskur biblíuþýðandi og Talmúdskýrandi frá miðöldum) í því að þýða orðin ‚Ég mun vera það sem ég mun vera.‘“ Þetta kemur heim og saman við orðalag New World Translation sem hljóðar svo: „Ég mun reynast vera sá sem ég mun reynast vera.“

Í Jóhannesi 8:58 hefur íslenska biblían eftir Jesú: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ En orðfærið hér er allt annað en í 2. Mósebók 3:14. Jesús notaði ekki þessi orð sem nafn eða titil heldur var hann einfaldlega að útskýra að hann hefði verið til áður en hann varð maður. Merking orða Jesú kemur betur fram í orðalagi Lifandi orðs sem segir: „Ég var til þegar Abraham fæddist!“

Það er því ljóst að enginn biblíulegur grundvöllur er fyrir þeirri skoðun að Jesús sé hinn sami og Jehóva í Hebresku ritningunum. Jafnvel kennarahandbókin, sem áður er getið, viðurkennir: „Þótt Kristur hafi verið til fyrir fæðingu sína í Betlehem sannar það sem slíkt ekki að hann hafi verið Guð (hann hefði geta verið til sem engill).“ Það er í raun það sem Biblían kennir. Í fortilveru sinni var Jesús ‚guð‘ eða guðleg vera, en ekki hinn alvaldi Guð Jehóva sjálfur. — Jóhannes 1:1-3; 2. Þessaloníkubréf 3:16.

Hver er þá Jesús úr því að hann er ekki Guð?

[Myndir á blaðsíðu 5]

Kraftaverk Jesú sýndu að hann var meira en aðeins venjulegur maður.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila