Sýndu kærleika og virðingu sem eiginmaður
„Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:33.
1, 2. (a) Hve umfangsmikið vandamál eru hjónaskilnaðir orðnir í heiminum? (b) Hvað megum við þó ekki láta okkur yfirsjást?
UM MIÐJAN þennan áratug sagði í tímaritinu Psychology Today: „Árlega enda vonir yfir einnar milljónar hjóna [í Bandaríkjunum] um hamingjuríkt hjónaband með skilnaði; meðalævi hjónabanda í Bandaríkjunum er 9,4 ár. . . . Stundum er engu líkara en að enginn búi í hamingjuríku hjónabandi.“ (Júní 1985) Þegar bæði foreldrar og börn eru meðtalin verða að minnsta kosti þrjár milljónir manna fyrir áhrifum af skilnaði ár hvert — aðeins í þessu eina landi. En hjónaskilnaðir eru vandamál um víða veröld, og það gefur til kynna að kærleika og virðingu skorti í milljónum hjónabanda.
2 Á hinn bóginn er „annar hópur sem mönnum yfirsést oft: þau hjón sem einhvern veginn tekst að halda saman, sem láta ekkert annað en dauðann aðskilja sig.“ (Psychology Today) Þannig eru augljóslega milljónir hjóna sem leggja hart að sér til að varðveita hjónaband sitt.
3. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?
3 Hvernig er hjónaband þitt? Ríkir þar kærleikur og virðing milli þín og maka þíns? Ríkir þar slíkur kærleikur milli ykkar og barnanna? Eða hleypur stundum snurða á þráðinn í mynd reiði og vantrausts? Þar eð enginn maður er fullkominn geta að sjálfsögðu komið upp vandamál í hvaða fjölskyldu sem er, jafnvel þar sem allir reyna að lifa eins og kristnir menn, því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ — Rómverjabréfið 3:23.
4. Hvernig bentu Páll og Pétur á hver gegndi aðalhlutverkinu í hamingjuríkri fjölskyldu?
4 Með hliðsjón af því að erfiðleikar geta komið upp í hvaða fjölskyldu sem verkast vill er eðlilegt að spyrja hver gegni aðalhlutverkinu í því að varðveita frið og eindrægni fjölskyldunnar. Postularnir Páll og Pétur svara því með beinskeyttum heilræðum í bréfum sínum. Páll skrifaði: „Ég vil að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ Hann sagði einnig: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar [safnaðarins].“ (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:21-23) Pétur skrifaði eftir svipuðum nótum: „Eins [að fyrirmynd Krists] skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar.“ — 1. Pétursbréf 2:21-3:1.
Kristur er hvetjandi fordæmi
5, 6. Hvernig er Jesús Kristur fordæmi í sambandi við yfirráð?
5 Í samræmi við þessar leiðbeiningar Biblíunnar er eiginmaðurinn höfuð fjölskyldunnar. En í hvaða skilningi er hann höfuðið? Hvernig á hann að beita yfirvaldi sínu? Sumum eiginmönnum gæti þótt það auðveldast að heimta virðingu með því að minna aftur og aftur á að þeir séu ‚höfuð fjölskyldunnar eins og Biblían segir.‘ En samræmist það fordæmi Krists? Krafðist Kristur virðingar fylgjenda sinna með hroka og stærilæti? Finnum við nokkurt dæmi þess að hann hafi sagt rembilátur í bragði: „Munið að ég er sonur Guðs. Þið eigið að sýna mér virðingu!“ Nei, Jesús ávann sér virðingu. Hvernig? Með því að setja gott fordæmi í hegðun og tali og sýna hluttekningu í samskiptum við aðra. — Markús 6:30-34.
6 Lykillinn að því að beita rétt valdi sínu sem eiginmaður og faðir er því sá að fylgja fordæmi Jesú Krists. Jafnvel þótt Jesús kvæntist ekki er framkoma hans við lærisveinana kristnum eiginmönnum fyrirmynd. Það krefst sannarlega mikils af sérhverjum eiginmanni því að Jesús er fullkomin fyrirmynd. (Hebreabréfið 4:15; 12:1-3) En því nákvæmar sem eiginmaður líkir eftir fordæmi Krists, þeim mun dýpri verður sá kærleikur og sú virðing sem honum er sýnd. Við skulum því virða nánar fyrir okkur hvers konar maður Jesús var. — Efesusbréfið 5:25-29; 1. Pétursbréf 2:21, 22.
7. Hvað bauð Jesús fylgjendum sínum og hvaðan myndu þeir fá það?
7 Einhverju sinni sagði Jesús við mannfjölda: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Hvað var það sem Jesús bauð áheyrendum sínum? Andlega hvíld og endurnæringu! Hvaðan gat slík endurnæring komið? Hann var nýbúinn að segja: „[Ekki] þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.“ Þessi orð gefa til kynna að Jesús myndi bjóða fram andlega endurnæringu með því að opinbera sönnum fylgjendum sínum föður sinn. En það felst einnig í orðum Jesú að þessi endurnæring myndi veitast í samfélagi við hann, vegna þess að hann var „hógvær og af hjarta lítillátur.“ — Matteus 11:25-30.
Hvernig eiginmenn og feður geta endurnært
8. Á hvaða vegu ætti eiginmaður og faðir að endurnæra fjölskyldu sína?
8 Orð Jesú hjálpa okkur að sjá að kristinn eiginmaður ætti að endurnæra fjölskyldu sína, bæði andlega og persónulega. Með því að vera hógvær bæði í daglegum háttum og kennslu ætti hann að hjálpa fjölskyldu sinni að kynnast betur föðurnum á himnum. Hegðun hans ætti að endurspegla hugarfar og háttarlag sonar Guðs. (Jóhannes 15:8-10; 1. Korintubréf 2:16) Það er hressandi fyrir alla í fjölskyldunni að hafa félagsskap við slíkan mann, vegna þess að hann er ástríkur eiginmaður, faðir og vinur. Hann þarf að vera viðmótsgóður og aldrei of upptekinn til að hlusta. Hann þarf að kunna að hlusta og taka eftir, ekki aðeins að heyra. — Jakobsbréfið 1:19.
9. Hvaða vandamál eiga öldungar í söfnuðinum stundum við að glíma?
9 Þetta minnir okkur á vandamál sem safnaðaröldungar og fjölskyldur þeirra eiga stundum við að glíma. Öldungur á yfirleitt annríkt við að sinna andlegum þörfum safnaðarins. Hann þarf að setja gott fordæmi varðandi kristnar samkomur, þjónustuna og hirðastarfið. (Hebreabréfið 13:7, 17) En sumir öldungar hafa eytt allri orku sinni í þágu safnaðarins. Um leið hafa þeir vanrækt fjölskyldur sínar, stundum með sorglegum afleiðingum. Í einu tilviki var öldungur of upptekinn til að nema með syni sínum. Hann bað annan bróður að sjá um það fyrir sig!
10. Hvernig geta öldungar fundið jafnvægi milli ábyrgðarinnar heima fyrir og í söfnuðinum?
10 Hvað sýnir þetta dæmi? Að maður þarf að gæta jafnvægis milli skyldna sinna gagnvart söfnuðinum og gagnvart eiginkonu sinni og börnum. Eftir samkomur eiga öldungarnir oft annríkt við að svara spurningum og ræða ýmis mál. Væri það ekki hvíld fyrir konu og börn slíks öldungs ef hann sæi um að þau kæmust heim með einhverjum öðrum í stað þess að þurfa að bíða tímunum saman í Ríkissalnum, það er að segja ef það er gerlegt? Í samræmi við kröfur Biblíunnar má komast svo að orði að ‚hirðastarfið hefjist á heimilinu.‘ Ef öldungur vanrækir fjölskyldu sína gæti hann stofnað stöðu sinni í hættu. Þið öldungar, verið því tillitssamir og sinnið tilfinningalegum, andlegum og öðrum þörfum fjölskyldna ykkar. — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5; Títusarbréfið 1:5, 6.
11, 12. Hvernig getur kristinn eiginmaður notið stuðnings fjölskyldu sinnar og hvaða spurninga ætti sérhver eiginmaður að spyrja sig?
11 Kristinn eiginmaður er ekki heldur einræðislegur eða harðstjóri gagnvart fjölskyldu sinni, þannig að hann taki ákvarðanir án þess að ráðfæra sig fyrst við hana. Vera kann að taka þurfi ákvörðun varðandi breytta atvinnu eða búferlaflutning, eða jafnvel svo einfalt atriði sem frí eða afþreyingu. Þar eð slíkt snertir alla fjölskylduna væri viturlegt og kærleiksríkt af honum að hafa alla fjölskylduna með í ráðum. Skoðanir fjölskyldumeðlima geta hjálpað honum að taka viturlegri ákvörðun og taka sem best tillit til skoðana þeirra og langana. Þá verður auðveldara fyrir alla í fjölskyldunni að styðja hann. — Samanber Orðskviðina 15:22.
12 Af því sem á undan er farið er augljóst að hlutverk kristins eiginmanns og föður felst í mörgu fleiru en því að aga fjölskyldu sína. Hann á líka að uppörva og endurnæra. Eiginmenn og feður, líkið þið eftir Kristi? Veitið þið fjölskyldum ykkar hvíld og endurnæringu? — Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21.
Búið saman með skynsemi
13. Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur eiginmönnum?
13 Eins og þegar hefur verið bent á gáfu bæði Pétur og Páll hjónum góð ráð. Pétur var kvæntur maður og gat því talað bæði út af eigin reynslu og undir handleiðslu heilags anda. (Matteus 8:14) Hann gaf öllum eiginmönnum hnitmiðuð ráð er hann sagði: „Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker.“ Endursögn J. W. C. Wand hljóðar svo: „Eiginmenn verða á sama hátt að fylgja með skynsemi kristnum meginreglum í sambúðinni við konur sínar.“ — 1. Pétursbréf 3:7.
14. Hvaða spurningar vakna nú?
14 En hvað merkir það að búa „með skynsemi“ saman við konu sína eða „fylgja með skynsemi kristnum meginreglum“ í sambúðinni? Hvernig getur eiginmaður sýnt konu sinni virðingu? Hvernig ber kristnum eiginmönnum að skilja leiðbeiningar Péturs?
15. (a) Hvers vegna endast sum hjónabönd ekki? (b) Hver er örðugasti þáttur hjónabands?
15 Mörg hjónabönd eru byggð nær eingöngu á líkamlegu útliti og kynferðislegu aðdráttarafli. En varanlegt hjónaband getur ekki byggst á líkamlegri fegurð einni saman því hún er hverful. Að því kemur að hárið gránar og húðin verður hrukkótt. En munum að hjónaband er sameining tveggja mannshuga, tveggja persónuleika, tvennrar lífsreynslu, tvenns andlegs verðmætamats og tveggja tungna. Nauðsynlegt er að skilja það til að tryggja hamingjuríkt hjónaband. — Orðskviðirnir 17:1; 21:9.
16. Hvað felst í því að ‚búa með skynsemi með konu sinni‘?
16 Það að búa „með skynsemi“ með konu sinni merkir meðal annars fyrir kristinn eiginmann að hann þarf í alvöru að skilja þarfir hennar. Þar er um að ræða ekki aðeins líkamlegar þarfir heldur einnig þær sem mikilvægari eru, tilfinningalegar, sálfræðilegar og andlegar. Ef hann ‚býr með henni með skynsemi‘ mun hann skilja það verkefni sem Guð hefur falið honum. Hann mun virða mannlega reisn konu sinnar. Það er býsna ólíkt viðhorfum sumra gnostíka á dögum Péturs, en meðal þeirra voru „konur fyrirlitnar sem óæðri, holdlegar og óhreinar verur.“ (The Anchor Bible) Í spænskri nútímaþýðingu Biblíunnar eru orð Péturs orðuð svo: „Um eiginmenn: Sýnið háttvísi í sambúð ykkar og sýnið konunni tillitssemi, vegna þess að hún er viðkvæmari að gerð.“ (Nueva Biblia Española) Hér er undirstrikað mikilvægt atriði sem eiginmenn stundum gleyma.
17. (a) Hvers vegna er konunni lýst svo að hún sé ‚veikari að gerð‘? (b) Hvernig meðal annars getur eiginmaður virt mannlega reisn konu sinnar?
17 Hvers vegna er konan „viðkvæmari að gerð“? Meðal annars vegna þess hlutverks sem hún gegnir í barneignum. Mánaðarlegur tíðahringur hennar getur haft í för með sér að hún sé illa fyrirkölluð eða skapstygg í nokkra daga. Ef maðurinn gleymir að taka tillit til þess og gerir sömu kröfur til konu sinnar alla daga er hann ekki að virða mannlega reisn hennar. Þá er hann að sýna að hann býr með henni í eigingjarnri fáfræði en ekki skynsemi og þekkingu. — 3. Mósebók 18:19; 1. Korintubréf 7:5.
Sýndu hinu veikara keri virðingu
18. (a) Hvaða slæman ávana hafa sumir eiginmenn? (b) Hvernig á kristinn eiginmaður að hegða sér?
18 Önnur leið fyrir eiginmann til að sýna konu sinni ást og virðingu er að láta hana vita að hann kunni að meta hana og eiginleika hennar. Eiginmaður gæti gert sér að venju að tala niðrandi um konu sína eða segja „brandara“ af henni. Kannski álítur slíkur eiginmaður að með því sýni hann sjálfan sig í jákvæðara ljósi. Sannleikurinn er þó sá að áhrifin eru gagnstæð, því að láti hann konu sína alltaf líta út sem heimska hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna hvers vegna hann hafi kvænst svona heimskri konu. Trúlega grípur eiginmaður ekki til slíkra aðferða nema hann þjáist af öryggisleysi. Ástríkur eiginmaður virðir konu sína. — Orðskviðirnir 12:18; 1. Korintubréf 13:4-8.
19. Hvers vegna væri ekki rétt af eiginmanni að gera lítið úr konu sinni?
19 Í sumum löndum er það jafnvel siður karlmanna að gera lítið úr konum sínum. Það á að heita einhvers konar hógværð. Í Japan er til dæmis algengt að maður kynni konu sína með orðinu „gusai“ sem merkir ‚heimsk eða flónsk eiginkona.‘ Tilgangurinn með því er sá að hinn aðilinn andmæli og hrósi konunni. En er kristinn maður í reynd að ‚veita konu sinni virðingu‘ eins og Pétur ráðlagði, ef hann kynnir hana með þessum hætti? Ef málið er skoðað frá öðrum sjónarhóli má spyrja hvort hann sé í raun að tala sannleika. Trúir hann í alvöru að konan hans sé heimsk? — Efesusbréfið 4:15, 25; 5:28, 29.
20. (a) Hvaða óheppilegt ástand getur stundum skapast milli hjóna? (b) Hvernig má forðast það?
20 Fyrir kemur að eiginmaður sýnir konu sinni ekki eðlilega ást og virðingu af því að hann einfaldlega gleymir að konan hans er líka kristin systir, ekki bara í Ríkissalnum heldur líka heima og við öll önnur tækifæri. Það er auðvelt að vera vingjarnlegur og kurteis í Ríkissalnum en ruddalegur og hranalegur heima! Þess vegna eru heilræði Páls vel við hæfi: „Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“ „Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott til uppbyggingar.“ (Rómverjabréfið 14:19; 15:2) Enginn ‚náungi‘ stendur okkur nær en makinn.
21. Hvað geta eiginmenn gert til að uppörva og hvetja konur sínar?
21 Kristinn eiginmaður mun því láta í ljós í orði og verki að hann meti eiginkonu sína að verðleikum. Eins og ónafngreint ljóðskáld orðaði það (í lauslegri þýðingu):
„Ef þú metur og elskar konuna þína
í amstri hjónabandsins
og erli hversdagslífsins
— segðu henni frá því!
Hún er þín og þú ert hennar.
Bíddu ekki þangað til
þú klappar það á stein
— segðu henni frá því!“
Móðir Lemúels konungs til forna lét svipaða hugmynd í ljós. Hún sagði meðal annars um fyrirmyndareiginkonu: „Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni: ‚Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!‘“ (Orðskviðirnir 31:1, 28 ,29) Eiginmenn, er það venja ykkar að hrósa konum ykkar eða gerðuð þið það bara á meðan tilhugalífið stóð yfir?
22, 23. Á hverju byggist hamingjuríkt hjónaband?
22 Af þessari stuttu umræðu er ljóst að maður sem vill sýna kærleika og virðingu í hjónabandi sínu þarf að gera meira en aðeins að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar. Velheppnað hjónaband byggist á kærleika, tryggð og tillitssemi. (1. Pétursbréf 3:8, 9) Þessi bönd ættu að styrkjast eftir því sem árin líða, þegar hjónin læra að meta dyggðir og mannkosti hvors annars betur og betur að verðleikum og læra að líta fram hjá og fyrirgefa galla hvors annars. — Efesusbréfið 4:32; Kólossubréfið 3:12-14.
23 Ef eiginmaðurinn tekur forystuna í að sýna kærleika og virðingu verður það allri fjölskyldunni til blessunar. En hvaða hlutverki ætti kristin eiginkona að gegna í hamingjuríku fjölskyldulífi? Greinin á eftir ræðir um það og sitthvað fleira.
Manst þú?
◻ Hver ber aðalábyrgðina á hamingjuríku hjónabandi og hvers vegna?
◻ Hvernig geta eiginmenn líkt eftir fordæmi Krists og endurnært fjölskyldur sínar?
◻ Hvaða jafnvægis þarf að gæta milli safnaðar- og fjölskylduábyrgðar?
◻ Hvernig getur eiginmaður ‚búið með skynsemi saman við konu sína‘?
◻ Hvað merkir það að ‚veita konu sinni virðingu sem veikara keri‘?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Öfgalaus öldungur veit að hirðastarfið byrjar á heimilinu.