Gimsteinar úr Markúsarguðspjalli
MEÐ ANDA sínum innblés Jehóva Markúsi að skrifa frásögu með hraðri atburðarás af jarðlífi og þjónustu Jesú. Þótt ekki sé sagt í guðspjallinu að Markús hafi skrifað það má finna rök fyrir því í verkum Papíusar, Justínusar píslarvotts, Tertúllíanusar, Órígenesar, Evsebíusar, Híerónýmusar og annarra sem skrifuðu um atburði fyrstu fjögurra alda okkar tímatals.
Samkvæmt arfsögnum er aðalefni þessa guðspjalls komið frá Pétri postula. Órígenes segir til dæmis að Markús hafi skrifað það „í samræmi við fyrirmæli Péturs.“ En Markús hafði bersýnilega einnig aðgang að öðrum heimildarmönnum því að lærisveinarnir komu saman á heimili móður hans. Vera kann að Markús hafi sjálfur haft kynni af Kristi, því að hann er sennilega ‚ungi maðurinn‘ sem slapp frá þeim er handtóku Jesú. — Markús 14:51, 52; Postulasagan 12:12.
Skrifað fyrir hverja?
Markús skrifaði guðspjall sitt að öllum líkindum með menn af heiðnum þjóðum í huga. Gagnorður stíll hans var til dæmis Rómverjum vel að skapi. Hann skilgreindi „korban“ sem „musterisfé“ (7:11) og gaf til kynna að hægt væri að sjá musterið frá Olíufjallinu. (13:3) Markús skýrir einnig frá því að farísear hafi ‚haldið föstu‘ og að Saddúkear ‚neiti því að upprisa sé til.‘ (2:18; 12:18) Slíkar skýringar hefðu verið óþarfar fyrir lesendur úr hópi Gyðinga.
Að sjálfsögðu geta allir haft gagn af því að lesa Markúsarguðspjall. En hvaða upplýsingar er gott að hafa að bakhjarli til að meta að verðleikum suma þá gimsteina sem þar er að finna?
Sonur Guðs sem kraftaverkamaður
Markús segir frá kraftaverkum sem Kristur vann með krafti Guðs. Til dæmis var einhverju sinni slík mannþröng í húsi að grafa þurfti gat á þak þess og láta lamaðan mann síga niður til Jesú, til að hann gæti fengið lækningu. (2:4) Þar eð húsið var troðfullt kann að hafa verið farið með manninn upp stiga eða tröppur utan á húsinu. En hvers vegna þurfti að grafa gegnum þakið? Þök voru yfirleitt flöt og hvíldu á bjálkum sem lágu milli veggja. Þvert á bjálkana lágu síðan tré þakin greinum, reyr og öðru slíku. Ofan á það var lagt þykkt moldarlag og efst var svo eins konar múrhúð úr leir eða leir og kalki. Til að koma lamaða manninum niður til Jesú þurftu mennirnir því að grafa sig gegnum þakið. En þeir hlutu ríkulega blessun fyrir vikið! Kristur læknaði manninn og allir viðstaddir lofuðu Guð. (2:1-12) Þessi atburður fullvissar okkur um að sonur Guðs muni vinna stórkostleg lækningaverk í nýja heiminum!
Jesús gerði eitt af kraftaverkum sínum um borð í báti er hann hastaði á storm á Galíleuvatni eftir að hafa verið vakinn þar sem hann svaf „á kodda.“ (4:35-41) Tæplega var þar um að ræða mjúkan kodda af því tagi sem við erum vön að hafa í rúminu. Þetta kann að hafa verið einföld flókamotta sem ræðari sat á eða sessa eða púði sem setið var á í skutnum. Hvað sem því leið urðu viðstaddir vitni að trúnni í verki því að ‚vindinn lægði og gerði stillilogn‘ þegar Jesús hastaði á vindinn og vatnið og sagði: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“
Þjónusta í Dekapólis
Jesús var nú kominn yfir um Galíleuvatn til Dekapólis eða Tíuborgahéraðsins. Þótt vafalaust byggju fjölmargir Gyðingar í þessum borgum voru þær miðstöðvar grískrar eða hellenskrar menningar. Þar, í landi Gerasena, frelsaði hann úr ánauð illra anda mann sem „hafðist við í gröfunum.“ — 5:1-20.
Grafir höggnar í klett voru stundum bústaðir geðveikra, felustaðir glæpamanna eða bústaðir fátækra. (Samanber Jesaja 22:16; 65:2-4.) Samkvæmt ritverki frá 19. öld lýsti maður, sem kom til þessa svæðis þar sem Jesús hitti manninn með illa andann, slíku heimili þannig: „Lofthæðin í gröfinni var um átta fet [2,4 m], því að hátt þrep var frá steinþröskuldinum niður á gólfið. Gröfin var um 12 ferskref að flatarmáli, en þar eð engin lýsing var í henni önnur en ljósið sem kom inn um dyrnar, sáum við ekki hvort þar var innra herbergi eins og í sumum öðrum. Óskemmd steinkista stóð þar enn sem fjölskyldan notaði nú til að geyma í korn og aðrar vistir. Þetta vanhelgaða grafhýsi hinna látnu var þannig orðið að öruggum, svölum og þægilegum dvalarstað hinna lifandi.“
Jesús og erfðavenjur
Einhverju sinni kvörtuðu farísear og nokkrir skriftlærðir menn undan því að lærisveinar Jesú mötuðust með óþvegnum höndum. Með lesendur af öðrum þjóðum í huga útskýrði Markús að farísear og aðrir Gyðingar ‚ætu ekki nema þeir þvægju hendur sínar upp að olnboga.‘ (NW) Er þeir komu af markaðstorgi átu þeir ekki fyrr en þeir höfðu hreinsað sig með því að stökkva á sig vatni, og samkvæmt erfðavenju þeirra þurfti að „hreinsa bikara, könnur og eirkatla.“ — 7:1-4.
Auk þess að stökkva trúhræsnir á sig vatni áður en þeir mötuðust sökktu Gyðingar í vatn bikurum, könnum og eirkötlum sem þeir notuðu við máltíðir. Fram kemur hjá fræðimanninum John Lightfoot hversu bundnir þeir voru af erfðavenjum sínum. Með tilvitnunum í rabbínarit sýnir hann fram á að mikið var lagt upp úr smáatriðum svo sem því hversu mikið vatn var notað og eins á hvaða hátt þvotturinn fór fram og hversu langur tími var notaður til hans. Lightfoot vitnaði í heimildir sem gáfu til kynna að sumir Gyðingar þvægju sér vandlega fyrir máltíðir til að forðast að Shipta gæti valdið þeim tjóni, en Shipta var „illur andi sem sest á hendur manna að nóttu: ef einhver snertir mat sinn með óþvegnum höndum sest andinn á matinn og hætta stafar af honum.“ Engin furða er að Jesús skyldi fordæma hina skriftlærðu og faríseana fyrir að ‚hafna boðum Guðs en halda erfikenning manna‘! — 7:5-8.
Lokaskeið þjónustu Jesú
Eftir að Markús hefur greint frá síðari hluta þjónustu Jesú í Galíleu og starfi hans í Pereu beinir hann athyglinni að atburðum í Jerúsalem og næsta nágrenni. Til dæmis segir hann frá því er Kristur fylgdist einu sinni með fólki leggja peninga í fjárhirslu musterisins. Jesús sá að fátæk ekkja lét í fjárhirsluna „tvo smápeninga, eins eyris virði.“ Þó sagði hann að hún hefði gefið meira en allir hinir, því að þeir gáfu af nægtum sínum en ‚hún af skorti sínum, alla björg sína.‘ (12:41-44) Samkvæmt gríska textanum var hér um að ræða mynt sem nefndist lepton og var smæsta eir- eða bronsmynt Gyðinga. Verðmæti hennar er nánast ekkert á nútímamælikvarða. En þessi fátæka kona gerði það sem hún gat og gaf fordæmi um óeigingjarnan stuðning við sanna guðsdýrkun. — 2. Korintubréf 9:6, 7.
Er dró að þjónustulokum Jesú yfirheyrði Pontíus Pílatus hann, en nafn hans og titillinn „landstjóri“ stendur á steini sem fannst í Sesareu árið 1961. Í hinum fjarlægari héruðum eins og Júdeu fór landstjórinn með yfirstjórn hers, bar ábyrgð á fjármálastjórn og þjónaði sem dómari. Pílatus hafði vald til að láta Krist lausan en lét undan fjandmönnum hans og reyndi að gera mannfjöldann ánægðan með því að framselja Krist til aftöku og láta í staðinn lausan upphlaupsmann og morðingja að nafni Barabbas. — 15:1-15.
Ýmsar sagnir eru um ævi Pílatusar eftir það og dauða. Til dæmis skrifaði sagnaritarinn Evsebíus: „Pílatus sjálfur, landstjóri á dögum frelsara okkar, lenti í slíkri ógæfu að hann neyddist til að verða sjálfs sín böðull og refsa sjálfum sér með eigin hendi: Réttlæti Guðs virðist hafa náð skjótlega til hans.“ En hvort sem það er rétt eða ekki var það dauði Jesú sem skipti öllu máli. Rómverski hundraðshöfðinginn, sem var vitni að dauða Jesú og hinum óvenjulegu atburðum sem þá áttu sér stað, fór sannarlega með rétt mál er hann sagði: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ — 15:33-39.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 30]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 31]
Ísraelska fornminjaráðuneytið; mynd frá ísraelska safninu í Jerúsalem.