Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.5. bls. 18-22
  • Lokasigur Míkaels, hins mikla verndarengils

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lokasigur Míkaels, hins mikla verndarengils
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Þegar að endalokunum líður“
  • „Egyptaland mun ekki komast undan“
  • Síðasta herför konungsins norður frá
  • Fregnir frá austri
  • Fregnir frá norðri
  • Þriðji konungurinn
  • Endalok konunganna tveggja nálgast
    Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar
  • ‚Enginn friður handa óguðlegum‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Hver er „konungur norðursins“ núna?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • „Konungur norðursins“ á tíma endalokanna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.5. bls. 18-22

Lokasigur Míkaels, hins mikla verndarengils

„Á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga.“ — DANÍEL 12:1.

1. Hvaða viðhorf hafa margir veraldarleiðtogar sýnt til drottinvalds Jehóva og að hvaða leyti hefur konungurinn norður frá ekki verið nein undantekning?

„HVER er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara?“ (2. Mósebók 5:2) Með þessum ögrandi orðum svaraði Faraó Móse. Hann neitaði að viðurkenna æðsta guðdóm Jehóva og var ákveðinn í að halda Ísrael áfram í þrælkun. Aðrir valdhafar hafa lítilsvirt Jehóva með svipuðum hætti, og eru konungarnir í spádómi Daníels engin undantekning. (Jesaja 36:13-20) Konungurinn norður frá hefur meira að segja gengið lengra. Engillinn segir: „Hann mun hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna. . . . Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, né heldur uppáhaldsgoði kvennanna, já, engum guði mun hann skeyta, heldur hreykja sér yfir allt.“ — Daníel 11:36, 37.

2, 3. Á hvaða hátt hafnaði konungurinn norður frá „guði feðra sinna“ í skiptum fyrir annan „guð“?

2 Konungurinn norður frá uppfyllti þessi orð með því að afneita „guðum feðra sinna“ (eða „forfeðraguðum sínum,“ The New English Bible), hvort heldur það voru heiðnir guðir Rómar eða þrenningarguð kristna heimsins. Hitler notaði kristna heiminn sjálfum sér í hag en áformaði greinilega að setja upp nýja, germanska kirkju í hans stað. Arftaki hans ýtti undir algera guðleysisstefnu. Þannig hefur konungurinn norður frá gert sjálfan sig að guði og ‚hreykt sér yfir allt.‘

3 Spádómurinn heldur áfram: „Guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra, með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum.“ (Daníel 11:38) Reyndar setti konungurinn norður frá traust sitt á tæknivædda hernaðarstefnu nútímans, „guð virkjanna.“ Gegnum allan endalokatímann hefur hann leitað hjálpræðis hjá þessum ‚guði‘ og fórnað gífurlegum auðæfum á altari hans.

4. Hvaða velgengni hefur konungurinn norður frá átt að fagna?

4 „Í hin rammgjörðu vígin mun hann afla sér manna, er tilheyra útlendum guði. Þeim sem hann viðurkenna, mun hann veita mikla sæmd og láta þá ríkja yfir mörgum og úthluta þeim landi að verðlaunum.“ (Daníel 11:39) Konungurinn norður frá hefur treyst á sinn ‚útlenda guð,‘ herguðinn, náð að afla sér manna og sannað sig vera óárennilegt herveldi á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þeim sem studdu hugmyndafræði hans var umbunað með pólitískum, fjárhagslegum og stundum hernaðarlegum stuðningi.

„Þegar að endalokunum líður“

5, 6. Hvernig hefur konungurinn suður frá ‚stjakað við‘ konunginum norður frá og hvernig hefur sá brugðist við?

5 Daníel 11:40a hljóðar svo: „Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann [„stjakast á við hann,“ NW].“ Litið hefur verið svo á að þetta vers og þau sem á eftir koma uppfyllist í framtíðinni. En ef orðin „þegar að endalokunum líður“ merkja hið sama hér og í Daníel 12:4, 9 ættum við að gefa gaum að uppfyllingu þessara orða út í gegnum hina síðustu daga. Hefur konungurinn suður frá ‚stjakað við‘ konunginum norður frá á þessum tíma? Já, svo sannarlega. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var sannarlega verið að ‚stjaka við‘ konunginum norður frá með refsiákvæðum friðarsamningsins og eggja til að svara í sömu mynt. Eftir sigur sinn í síðari heimsstyrjöldinni miðaði konungurinn suður frá ógurlegum kjarnavopnum á keppinaut sinn og stofnaði öflugt hernaðarbandalag, Atlantshafsbandalagið (NATO), gegn honum. Þegar árin liðu ‚stjakaði‘ hann líka við honum með hátækninjósnum og einnig með stjórnmálalegri og hernaðarlegri áreitni.

6 Hvernig brást konungurinn norður frá við? „Konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum, og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram.“ (Daníel 11:40b) Saga hinna síðustu daga hefur einkennst af útþenslustefnu konungsins norður frá. Í síðari heimsstyrjöldinni óð hinn nasiski ‚konungur‘ út fyrir landamæri sín inn í nærliggjandi lönd. Í lok þeirrar styrjaldar byggði „konungurinn,“ sem tók við af honum, upp öflugt veldi utan eigin landamæra. Í kalda stríðinu barðist konungurinn norður frá gegn keppinaut sínum í staðbundnum átökum og uppreisnum í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku þar sem stríðsaðilar voru á bandi hvor síns ‚konungsins.‘ Hann ofsótti sannkristna menn og takmarkaði (en stöðvaði engann veginn) starf þeirra. Og með hernaðarlegri og pólitískri áreitni sinni náði hann mörgum löndum undir yfirráð sín. Það er einmitt það sem engillinn spáði: „Þá mun hann og brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna [hið andlega óðal fólks Guðs], og tíþúsundir [„mörg lönd,“ NW] munu að velli lagðar.“ — Daníel 11:41a.

7. Hvaða takmörk voru útþenslustefnu konungsins norður frá sett?

7 En jafnvel þótt konungurinn norður frá hafi — frá sjónarhóli keppinautarins — verið eins og yfirvofandi ógnun hefur hann samt sem áður ekki náð heimsyfirráðum. „Þessir munu bjarga sér undan hendi hans: Edómítar, Móabítar og kjarni Ammóníta.“ (Daníel 11:41b) Til forna lágu Edóm, Móab og Ammón nokkurn veginn milli Egyptalands og Sýrlands. Það má líta á þessi lönd sem fulltrúa þeirra þjóða og samtaka nú á tímum sem konungurinn norður frá beindi spjótum sínum að en tókst ekki að ná undir áhrifavald sitt.

„Egyptaland mun ekki komast undan“

8, 9. Hvernig hefur konungurinn norður frá haft áhrif, jafnvel á aðalkeppinaut sinn?

8 Engillinn heldur áfram: „Hann mun rétta hönd sína út yfir löndin, og Egyptaland mun ekki komast undan. Hann mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum.“ (Daníel 11:42, 43) Jafnvel konungurinn suður frá, „Egyptaland,“ slapp ekki við áhrifin af útþenslustefnu konungsins norður frá. Hann beið til dæmis áberandi ósigur í Víetnam. Og hvað um ‚Líbýumenn og Blálendinga‘? Þessir nágrannar Egypta til forna gætu hæglega táknað þjóðir sem eru landfræðilega séð grannþjóðir „Egyptalands“ nútímans og hafa stundum verið fylgjendur eða ‚verið í för með‘ konunginum norður frá.

9 Hefur konungurinn norður frá ráðið yfir ‚fjársjóðum Egyptalands‘? Vissulega hefur hann ekki sigrað konunginn suður frá og allt fram til ársins 1994 hefur það virst ólíklegt eftir heimsástandinu að dæma. Hins vegar hefur hann haft mikil áhrif á það hvernig konungurinn suður frá hefur notað auðæfi sín. Vegna ótta við keppinaut sinn hefur konungurinn suður frá varið gífurlegum fjárhæðum ár hvert í að halda uppi gríðarlegum landher, sjóher og flugher. Að þessu leyti mætti segja að konungurinn norður frá hafi „kastað eign sinni á“ auðæfi konungsins suður frá eða stjórnað því hvernig þeim hefur verið ráðstafað.

Síðasta herför konungsins norður frá

10. Hvernig lýsir engillinn lyktum keppninnar milli konunganna tveggja?

10 Heldur keppni konunganna tveggja áfram endalaust? Nei. Engillinn sagði Daníel: „Fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann [konunginn norður frá]. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum. Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði. Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.“ — Daníel 11:44, 45.

11, 12. Hvaða nýlegir atburðir í stjórnmálunum tengjast keppni konungsins norður frá og konungsins suður frá og hvað vitum við ekki enn?

11 Þessir atburðir hafa enn ekki gerst þannig að við getum ekki sagt í smáatriðum hvernig spádómurinn rætist. Fyrir skömmu breyttist pólitísk staða konunganna beggja. Dregið hefur úr hinni hörðu keppni Bandaríkjanna og landa Austur-Evrópu. Auk þess voru Sovétríkin leyst upp árið 1991 og eru ekki lengur til. — Sjá Varðturninn, 1. maí 1992, bls. 4, 5.

12 Hver er þá konungurinn norður frá núna? Er hann eitt þeirra ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum eða er einhver annar að taka við hlutverki hans eins og gerst hefur þó nokkrum sinnum áður? Við getum ekkert sagt um það. Hver verður konungurinn norður frá þegar Daníel 11:44, 45 rætist? Á keppnin milli konunganna tveggja eftir að blossa upp á ný? Og hvað um þær gífurlegu kjarnavopnabirgðir sem enn eru til í allmörgum löndum? Aðeins tíminn getur svarað þessum spurningum.

13, 14. Hvað vitum við um framtíð konunganna tveggja?

13 Eitt vitum við þó. Bráðlega mun konungurinn norður frá leggja út í herför af því að „fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann.“ Þessi herför er farin rétt áður en hann ‚líður undir lok.‘ Við fræðumst nánar um þessar „fregnir“ ef við athugum aðra biblíuspádóma.

14 En tökum þó fyrst eftir að þessar aðgerðir konungsins norður frá eru ekki sagðar vera gegn konunginum suður frá. Hann líður ekki undir lok fyrir hendi síns mikla keppinautar. Eins eyðir konungurinn norður frá ekki konunginum suður frá. Konunginum suður frá (lýst í öðrum spádómum sem síðasta horninu er vex á villidýri) er tortímt „án manna tilverknaðar,“ fyrir hendi Guðsríkis. (Daníel 7:26; 8:25) Reyndar eyðir Guðsríki öllum jarðneskum konungum í stríðinu við Harmagedón og það er greinilega þannig sem fer fyrir konunginum norður frá. (Daníel 2:44; 12:1; Opinberunarbókin 16:14, 16) Daníel 11:44, 45 lýsir atburðum sem leiða til þessa lokastríðs. Það er engin furða að ‚enginn skuli hjálpa‘ konunginum norður frá þegar hann líður undir lok!

15. Hvaða mikilvægar spurningar eigum við eftir að ræða?

15 Hvaða aðrir spádómar varpa þá ljósi á ‚fregnirnar‘ sem koma konunginum norður frá til að fara af stað til að „eyða og tortíma mörgum“? Og hverjir eru þessir ‚mörgu‘ sem hann mun vilja tortíma?

Fregnir frá austri

16. (a) Hvaða einstakur atburður verður að eiga sér stað fyrir Harmagedón? (b) Hverjir eru ‚konungarnir úr austri‘?

16 Fyrir lokastríðið, Harmagedón, þarf að tortíma miklum óvini sannrar guðsdýrkunar — heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu sem líkist skækju. (Opinberunarbókin 18:3-8) Eyðing hennar er boðuð með því að hellt er úr sjöttu reiðiskál Guðs í hið táknræna Efratfljót. Fljótið þornar upp ‚svo að vegur verði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.‘ (Opinberunarbókin 16:12) Hvaða konungar eru það? Engir aðrir en Jehóva Guð og Jesús Kristur!a

17. (a) Hvað segir Biblían okkur um eyðingu Babýlonar hinnar miklu? (b) Hvað geta fregnirnar „frá austri“ reynst vera?

17 Eyðingu Babýlonar hinnar miklu er lýst með skýru og lifandi máli í Opinberunarbókinni: „Hornin tíu, sem þú sást [‚konungarnir‘ sem eru við völd á endalokatímanum], og dýrið [skarlatsrauða dýrið sem táknar Sameinuðu þjóðirnar], munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Svo sannarlega ‚eyða þjóðirnar miklu kjöti‘! (Daníel 7:5) En hvers vegna eyða valdhafarnir, þeirra á meðal konungurinn norður frá, Babýlon hinni miklu? Vegna þess að ‚Guð leggur þeim í brjóst að gjöra vilja sinn.‘ (Opinberunarbókin 17:17) Vel má vera að fregnirnar „frá austri“ eigi við þetta verk Jehóva þegar hann leggur mennskum leiðtogum í brjóst, á þann veg sem hann velur, að eyða trúarskækjunni miklu. — Daníel 11:44.

Fregnir frá norðri

18. Hvaða annað skotmark á konungurinn norður frá og hvar er hann þá þegar hann líður undir lok?

18 En hinn heiftúðugi konungur norður frá á sér annað skotmark. Engillinn segir: „Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði.“ (Daníel 11:45) Á tímum Daníels var hafið mikla Miðjarðarhafið og fjallið helga var Síon þar sem musteri Guðs stóð í eina tíð. Í uppfyllingu spádómsins fer hinn reiði konungur norður frá í herför gegn fólki Guðs! Í andlegum skilningi staðsetja orðin „milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði“ hann á andlegu óðali smurðra þjóna Guðs sem eru komnir úr ‚ólgusjó‘ fráhverfs mannkyns og hafa þá von að ríkja á himnesku Síonfjalli með Jesú Kristi. — Jesaja 57:20; Hebreabréfið 12:22; Opinberunarbókin 14:1.

19. Hvers eðlis geta fregnirnar, sem eru kveikjan að árás Gógs, verið samkvæmt spádómi Esekíels? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

19 Esekíel, sem var samtíðarmaður Daníels, spáði líka árás á fólk Guðs „á hinum síðustu dögum.“ Hann sagði að Góg frá Magóg, sem táknar Satan djöfulinn, myndi eiga upptökin að hernaðarátökunum. (Esekíel 38:16) Úr hvaða átt, í táknrænum skilningi, kemur Góg? Jehóva segir fyrir munn Esekíels: „[Þú munt] koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri.“ (Esekíel 38:15) Fregnirnar frá „norðri“ geta því hæglega verið áróður Satans sem eggjar konunginn norður frá og alla hina konungana til að ráðast á fólk Jehóva.b — Samanber Opinberunarbókina 16:13, 14; 17:14.

20, 21. (a) Hvers vegna mun Góg eggja þjóðirnar, þeirra á meðal konunginn norður frá, til árásar á fólk Guðs? (b) Heppnast árás hans?

20 Góg skipuleggur þessa allsherjarárás vegna velgengninnar hjá „Ísrael Guðs“ sem er ekki, ásamt miklum múgi annarra sauða, hluti af heimi Gógs. (Galatabréfið 6:16; Jóhannes 10:16; 17:15, 16; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Góg horfir með óbeit á „þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og [andlegra] fjármuna.“ (Esekíel 38:12; Opinberunarbókin 5:9; 7:9) Þessi orð uppfyllast með því að fólk Jehóva dafnar núna meir en nokkru sinni fyrr. Í mörgum löndum Evrópu, Afríku og Asíu, þar sem starf þeirra var einu sinni bannað, hafa þeir öðlast trúfrelsi. Á árunum 1987 til 1992 kom ríflega ein milljón ‚gersema‘ út úr þjóðunum til hins sanna tilbeiðsluhúss Jehóva. Andlega eru þeir auðugir og búa í friði. — Haggaí 2:7; Jesaja 2:2-4; 2. Korintubréf 8:9.

21 Góg lítur á hið andlega óðal kristinna manna sem auðunnið ‚bændabýlaland‘ og gerir því allsherjarárás til að afmá þessa hindrun í vegi þess að hann ráði algerlega yfir mannkyninu. (Esekíel 38:11) En honum mistekst. Þegar konungar jarðarinnar ráðast á fólk Jehóva ‚líða þeir undir lok.‘ Hvernig?

Þriðji konungurinn

22, 23. Hver gengur fram í þágu fólks Guðs þegar Góg gerir árás og með hvaða afleiðingum?

22 Esekíel segir að árás Gógs sé merkið fyrir Jehóva Guð að ganga fram í þágu fólks síns og eyða sveitum Gógs „á Ísraels fjöllum.“ (Esekíel 38:18; 39:4) Það minnir okkur á það sem engillinn segir Daníel: „Á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ — Daníel 12:1.

23 Árið 1914 varð Jesús — hin himneska stríðshetja Míkael — konungur Guðsríkis á himnum. (Opinberunarbókin 11:15; 12:7-9) Frá þeim tíma hefur hann ‚gengið fram til verndar löndum Daníels.‘ En bráðlega mun hann „fram ganga“ í nafni Jehóva sem ósigrandi herkonungur og láta „hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:8) Allar þjóðir jarðar, þeirra á meðal konungarnir í spádómi Daníels, munu „hefja kveinstafi.“ (Matteus 24:30) Þeir eru enn með illar hugsanir í hjörtum sínum gagnvart ‚löndum Daníels‘ þegar þeir tortímast eilíflega fyrir hendi ‚Míkaels, hins mikla verndarengils.‘ — Opinberunarbókin 19:11-21.

24. Hvaða áhrif ætti þessi athugun á spádómi Daníels að hafa á okkur?

24 Þráum við ekki að sjá þennan stórkostlega sigur Míkaels og Guðs hans, Jehóva? Sá sigur mun þýða ‚frelsun,‘ björgun fyrir sannkristna menn. (Samanber Malakí 4:1-3.) Þess vegna getum við horft með ákafri eftirvæntingu til framtíðarinnar og haft hugföst orð Páls postula: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Höldum fast við orð lífsins og leitum kappsamlega að sauðum Jehóva meðan aðstæður eru okkur í hag. Við erum á lokasprettinum í kapphlaupinu um lífið. Launin eru í sjónmáli. Megi allir vera staðráðnir í að vera staðfastir allt til enda og vera þannig meðal þeirra sem bjargast. — Matteus 24:13; Hebreabréfið 12:1.

[Neðanmáls]

a Sjá Revelation — Its Grand Climax At Hand! (Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!) bls. 229-30, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Annar möguleiki er sá að fregnin frá „norðri“ reyndist eiga upptök sín hjá Jehóva í ljósi orða hans við Góg: „Ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út.“ „[Ég mun] láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll.“ — Esekíel 38:4; 39:2; samanber Sálm 48:3.

Skilur þú?

◻ Hvernig hefur konungurinn suður frá stjakað við konunginum norður frá allan endalokatímann?

◻ Hvað vitum við enn ekki um útkomuna úr keppni konunganna tveggja?

◻ Hvaða tveim atburðum fyrir Harmagedón á konungurinn norður frá örugglega þátt í?

◻ Hvernig mun „Míkael, hinn mikli verndarengill,“ vernda fólk Guðs?

◻ Hvaða áhrif ætti athugun okkar á spádómi Daníels að hafa á okkur?

[Myndir á blaðsíðu 19]

Konungurinn norður frá hefur dýrkað annan guð en forverar hans.

[Rétthafi]

Efst til vinstri og í miðju: UPI/Bettmann; neðst til vinstri: Reuters/Bettmann; neðst til hægri: Jasmin/Gamma Liaison

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila