Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.3. bls. 3-4
  • Eru stríð óhjákvæmileg?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Eru stríð óhjákvæmileg?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Líffræðileg nauðsyn?
  • Orsakir stríðs
  • Stríðið til að binda enda á styrjaldir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Stríð
    Vaknið! – 2017
  • Síðustu dagar — ‚Ríki gegn ríki‘
    Vaknið! – 1988
  • Viðhorf Guðs til stríðs nú á dögum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.3. bls. 3-4

Eru stríð óhjákvæmileg?

STRÍÐSFRÉTTIR eru dapurlegar fréttir. Þessar frásagnir fjölmiðla af grimmdarverkum vekja vafalaust óbeit þína. En kannski koma þær þér líka til að velta fyrir þér hvers vegna það skuli þurfa að útkljá svona margar deilur með vopnavaldi. Ætla menn aldrei að læra að lifa í friði hver við annan?

Úrræði gegn stríðsplágunni virðast enn vandfundnari en lækning á alnæmi. Á 20. öldinni hafa heilu þjóðirnar verið boðaðar út til hernaðar, milljónum manna verið steypt út í bardaga og hundruð borga verið lagðar í rúst. Enginn endir virðist í sjónmáli á blóðbaðinu. Gróðavænleg vopnaverslun tryggir að herir heims — og skæruliðar — haldi áfram að vera óhugnanlega vígbúnir.

Með mannskæðari vopnum rauk tala fallinna upp úr öllu valdi. Yfir helmingur þeirra 65 milljóna hermanna, sem börðust í fyrri heimsstyrjöldinni, féll eða særðist. Um 30 árum síðar drápu aðeins tvær kjarnorkusprengjur yfir 150.000 óbreytta japanska borgara. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa átök orðið staðbundnari. Engu að síður eru þau mannskæð, einkum fyrir óbreytta borgara sem eru nú 80 af hundraði fallinna.

Það er kaldhæðnislegt að þessi stórfelldu manndráp hafa átt sér stað á þeirri öld þegar reynt hefur verið meira en nokkru sinni fyrr að útiloka styrjaldir sem leið til að setja niður deilur þjóða í milli. Þegar kalda stríðinu lauk fyrir skemmstu voru menn vongóðir um að ný, friðsæl heimsskipan myndi líta dagsins ljós. En heimsfriður er jafnmikil tálsýn nú sem fyrr. Hvers vegna?

Líffræðileg nauðsyn?

Sumir sagnfræðingar og mannfræðingar staðhæfa að stríð séu óhjákvæmileg — jafnvel nauðsynleg — einfaldlega vegna þess að þau séu hluti af lífsbaráttu þróunarinnar. Hernaðarsérfræðingurinn Friedrich von Bernhardi var undir áhrifum slíkra hugmynda þegar hann hélt því fram árið 1914 að stríð væri háð „í þágu líffræðilegra, félagslegra og siðferðilegra framfara.“ Kenningin var sú að stríð væri leið til að grisja frá veikburða einstaklinga eða þjóðir en láta hina hæfustu halda velli.

Slík rök eru tæplega nokkur hughreysting fyrir stríðsekkjur og munaðarleysingja sem skipta milljónum. Auk þess að vera siðferðilega ógeðfelldur gefur þessi hugsunarháttur engan gaum að grimmilegum veruleika nútímahernaðar. Vélbyssan tekur ekkert tillit til hinna hæfustu og sprengjan grandar jafnt sterkum sem veikum.

Adolf Hitler hafði að engu þann alvarlega lærdóm, sem draga mátti af fyrri heimsstyrjöldinni, og dreymdi um að skapa herraþjóð með hernaðarsigrum. Hann skrifaði í bók sinni, Mein Kampf: „Mannkynið hefur náð mikilleik sínum með eilífri baráttu, og aðeins í eilífum friði tortímist það. . . . Hinir sterkari verða að drottna og mega ekki blandast hinum veikari.“ En í stað þess að upphefja mannkynið fórnaði Hitler milljónum mannslífa og lagði heilt meginland í rúst.

En ef stríð er ekki líffræðileg nauðsyn, hvað er það þá sem rekur mannkynið í átt til sjálfstortímingar? Hvaða öfl keyra þjóðir út í þessa „iðju barbarans“?a Hér á eftir eru talin upp sum grundvallaratriði sem koma í veg fyrir að jafnvel besta viðleitni friðarstilla beri árangur.

Orsakir stríðs

Þjóðernishyggja. Stjórnmálamenn og hershöfðingjar skírskota oft til þjóðernishyggju sem er einhver öflugasti orsakavaldur hernaðar. Mörg stríð hafa verið hafin til að vernda „þjóðarhagsmuni“ eða verja „þjóðarheiður.“ Þegar það hugarfar ríkir að þjóð manns gangi fyrir, hvort sem hún hefur á réttu að standa eða röngu, er hægt að réttlæta jafnvel augljósa árás að fyrra bragði með því að hún sé fyrirbyggjandi aðgerð.

Þjóðernishatur. Langvarandi hatur milli kynþátta, ættflokka og þjóðabrota hefur orðið kveikja margra svæðisbundinna átaka og síðan kynt undir þeim. Hin hörmulegu borgarastríð í fyrrverandi Júgóslavíu, í Líberíu og Sómalíu eru nýleg dæmi.

Efnahagsleg og hernaðarleg samkeppni. Á tímabilinu fyrir fyrri heimsstyrjöldina, sem var friðsamt á yfirborðinu, voru Evrópuveldin í raun að byggja upp öfluga heri. Þýskaland og Stóra-Bretland áttu í kapphlaupi um herskipasmíði. Þar eð allar helstu þjóðir, sem drógust inn í blóðbaðið fyrr eða síðar, héldu að stríð myndi auka völd þeirra og færa þeim skjótan, efnahagslegan ávinning, var frjó jörð fyrir átök.

Trúarerjur. Einkum þegar trúarágreiningur sækir styrk til kynþáttasundrungar getur orðið úr sprengifim blanda. Átökin í Líbanon og á Norður-Írlandi, svo og stríðin milli Indverja og Pakistana, hafa átt sér rætur í trúarhatri.

Ósýnilegt stríðsæsingarafl. Biblían opinberar að „guð þessarar aldar,“ Satan djöfullinn, sé nú athafnasamari en nokkru sinni fyrr. (2. Korintubréf 4:4) Hann er fullur reiði og hefur aðeins „nauman tíma“ og æsir til ástands, meðal annars styrjalda, sem auka enn á bágindi jarðar. — Opinberunarbókin 12:12.

Það er ekki auðvelt að uppræta þessar grundvallarorsakir styrjalda. Platón sagði fyrir meira en 2000 árum að ‚einungis hinir dánu hafi séð endi styrjalda.‘ Er þessi dapurlegi dómur hans beiskur sannleikur sem við verðum að læra að kyngja eða höfum við ástæðu til að vona að einn góðan veðurdag verði heimurinn laus við stríð?

[Neðanmáls]

a Það var Napóleon sem kallaði stríð „iðju barbarans.“ Sjálfur hafði hann eytt flestum fullorðinsárum sínum í hernum og nálega 20 árum sem æðsti yfirmaður hersins, þannig að hann þekkti villimennsku styrjalda af eigin raun.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]

Instituto Municipal de Historia, Barcelona

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila