Flóðsögn styður frásögu biblíunnar
HEIMSFLÓÐIÐ á dögum Nóa er sannsöguleg staðreynd. Flóðsagan er til í ýmsum myndum í munnlegri geymd margra ólíkra menningarsamfélaga víða um heim. Í Afríkuríkinu Tsjad segir Mússaje-ættflokkurinn þessa flóðsögu:
‚Einu sinni bjó fjölskylda í fjarlægu landi. Dag einn vildi húsmóðirin elda dýrindismáltíð handa ástvinum sínum. Hún tók sér því staut og mortél til að mala kornið. Á þeim tíma var himinninn miklu nær jörðinni en núna. Maður gat meira að segja snert hann með því að teygja höndina upp í loftið. Hún malaði kornið af öllum kröftum og á skammri stundi breyttist það í mjöl. En þegar konan var að mala var hún svo kærulaus að hún lyfti stautnum of hátt og stakk gat á himininn! Þegar í stað byrjaði vatnið að fossa til jarðar. Þetta var engin venjuleg rigning. Það rigndi í sjö daga og sjö nætur uns öll jörðin var vatni hulin. Um leið og regnið féll til jarðar lyftist himinninn uns hann var kominn þangað sem hann er núna — svo hátt að við náum ekki upp í hann. Hvílík ógæfa fyrir mannkynið! Eftir það höfum við ekki getað snert himininn með höndum okkar.‘
Athyglisvert er að til eru fornar flóðsagnir í öllum heimshornum. Frumbyggjar Norður- og Suður-Ameríku og Ástralíu eiga sér slíkar sagnir. Þær eru ólíkar á ýmsan hátt, en í þeim flestum er sami kjarninn, að jörðin hafi verið vatni hulin og aðeins fáeinir hafi bjargast í skipi sem þeir smíðuðu sér. Útbreiðsla þessarar sagnar styður þá staðreynd að heimsflóðið hafi átt sér stað eins og Biblían greinir frá. — 1. Mósebók 7:11-20.