Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • wp17 Nr. 4 bls. 4-7
  • Það sem Biblían segir um líf og dauða

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það sem Biblían segir um líf og dauða
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • BIBLÍAN SKÝRIR MYNDINA
  • HEIÐIN KENNING BREIÐIST ÚT
  • „SANNLEIKURINN MUN GERA YÐUR FRJÁLSA“
  • Hve sterk er trú þín á upprisuna?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Sálin — er hún þú eða er hún í þér?
    Vaknið! – 1985
  • Skilningur þinn á sálinni hefur áhrif á líf þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Hefur þú einhvern tíma hugleitt?
    Vaknið! – 1994
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
wp17 Nr. 4 bls. 4-7
Látinn maður í gröf.

FORSÍÐUEFNI | HVAÐ SEGIR BIBLÍAN UM LÍFIÐ OG DAUÐANN?

Það sem Biblían segir um líf og dauða

Í sköpunarsögu Biblíunnar í 1. Mósebók kemur fram að Guð sagði við Adam, fyrsta manninn: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Af þessu er ljóst að hefði Adam hlýtt boðum Guðs hefði hann ekki dáið heldur lifað áfram í Edengarðinum.

Adam og Eva á gamals aldri.

Í stað þess að hlýða og lifa að eilífu valdi Adam því miður að hunsa lög Guðs og borðaði af forboðna ávextinum sem Eva, konan hans, gaf honum. (1. Mósebók 3:1-6) Við finnum enn fyrir afleiðingunum af óhlýðni Adams. Páll postuli orðar það þannig: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Þessi ,eini maður‘ var að sjálfsögðu Adam. En hver var syndin og hvers vegna leiddi hún til dauða?

Það sem Adam gerði – að óhlýðnast lögum Guðs vísvitandi – er synd. (1. Jóhannesarbréf 3:4) Og refsingin fyrir að syndga er dauði eins og Guð hafði varað Adam við. Ef Adam og afkomendur hans hefðu verið hlýðnir lögum Guðs hefðu þeir verið syndlausir og aldrei þurft að deyja. Guð skapaði ekki manninn til þess að deyja heldur til að lifa – og það um alla eilífð.

Dauðinn er augljóslega „runninn til allra manna“ eins og Biblían segir. En er eitthvað í okkur sem lifir eftir að líkaminn deyr? Margir halda því fram. Þeir telja að hluti af okkur – sem kallaður er sál – sé ódauðlegur. Það myndi þýða að Guð hefði logið að Adam. Af hverju segjum við það? Vegna þess að ef eitthvað innra með okkur héldi áfram að lifa á öðru tilverusviði eftir að við erum dáin væri dauðinn ekki refsing fyrir syndina eins og Guð hélt fram. Biblían segir: „Það er óhugsandi að Guð fari með lygi.“ (Hebreabréfið 6:18) Það var í raun Satan sem laug þegar hann sagði við Evu: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ – 1. Mósebók 3:4.

Ef kenningin um ódauðlega sál er byggð á lygi, hvað verður þá um okkur þegar við deyjum?

BIBLÍAN SKÝRIR MYNDINA

Í sköpunarsögu Biblíunnar segir: „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.“ Orðalagið „lifandi vera“ er þýðing á hebreska orðinu nefes,a sem merkir bókstaflega „vera sem andar“. – 1. Mósebók 2:7.

Biblían segir að maðurinn sé greinilega ekki skapaður með ódauðlega sál heldur að hver og einn maður sé „lifandi vera“. Þess vegna er orðalagið „ódauðleg sál“ ekki að finna í neinum biblíutexta.

Hvers vegna kenna mörg trúarbrögð að sálin sé ódauðleg þótt Biblían tali hvergi um það? Til að finna svarið við því þurfum við að leita í sögunni allt aftur til Egyptalands til forna.

HEIÐIN KENNING BREIÐIST ÚT

Heródótos, grískur sagnfræðingur sem var uppi á fimmtu öld f.Kr., sagði að Egyptar hefðu verið „fyrstir manna til að rökstyðja þá kenningu að sálin sé ódauðleg“. Önnur fornþjóð, Babýloníumenn, gældu líka við hugmyndina um ódauðlega sál. Þegar Alexander mikli sigraði Mið-Austurlönd árið 332 f.Kr. höfðu grískir heimspekingar gert kenninguna vinsæla og hún breiddist fljótt út um allt gríska heimsveldið.

Orðalagið „ódauðleg sál“ er ekki að finna í neinum biblíutexta.

Á fyrstu öld voru essenar og farísear, tveir áberandi sértrúarflokkar Gyðinga, farnir að kenna að sálin lifi áfram eftir líkamsdauðann. The Jewish Encyclopedia segir: „Gyðingar kynntust kenningunni um ódauðleika sálarinnar í gegnum grískar hugmyndir, einkum heimspeki Platóns.“ Jósefus, sagnfræðingur Gyðinga á fyrstu öld, bendir líka á að kenningin sé ekki frá Biblíunni heldur eigi hún rætur að rekja til „trúar afkomenda Grikkja“, en hann leit á trú þeirra sem samansafn goðsagna.

Eftir því sem grísk menning breiddist út fóru þeir sem kölluðu sig kristna að tileinka sér þessa heiðnu kenningu. Sagnfræðingurinn Jona Lendering segir: „Kenning Platóns um að sálir okkar hafi áður verið á betri stað en dvelji nú í föllnum heimi auðveldaði mönnum að sameina kristna trú og heimspeki Platóns.“ Þar með var heiðin kenning um ódauðlega sál tekin inn í kristnina og hún varð síðan ein af grundvallarkenningum hennar.

„SANNLEIKURINN MUN GERA YÐUR FRJÁLSA“

Á fyrstu öld gaf Páll postuli þessa viðvörun: „Andinn segir berlega að á síðustu tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Þetta hefur svo sannarlega ræst. Kenningin um ódauðleika sálarinnar er aðeins einn af „lærdómum illra anda“ og á rætur sínar að rekja til heiðinna trúarbragða og heimspeki – ekki Biblíunnar.

Jesús sagði: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Með því að afla okkur nákvæmrar þekkingar á Biblíunni getum við verið frjáls undan trúarkenningum og siðum margra trúarbragða sem smána Guð. Við erum líka laus úr fjötrum erfðavenja og hjátrúar um það hvað gerist við dauðann. – Sjá rammann „Hvar eru hinir dánu?“

Við vorum ekki sköpuð til þess að lifa bara í sjötíu eða áttatíu ár á jörðinni og fara svo á annað tilverusvið til að lifa þar að eilífu. Upprunaleg fyrirætlun skapara okkar með mannkynið var sú að menn áttu að lifa að eilífu hér á jörð sem hlýðin börn hans. Þessi stórfenglega fyrirætlun skaparans með mannkynið lýsir kærleikanum sem hann ber til okkar og ekkert mun hindra hann í að sýna þann kærleika. (Malakí 3:6) Þessi innblásnu orð í Sálmunum eru uppörvandi: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.

Nánari upplýsingar um hvað Biblían segir um ástand hinna dánu er að finna í 6. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og hægt er að nálgast hana á www.jw.org/is.

a Sumar biblíuþýðingar, eins og íslenska biblían frá 1981, þýða orðið nefes „lifandi sál“. Það sama er að segja um King James Version og hina kaþólsku Douay Version.

Geta menn lifað að eilífu?

Fyrir nokkrum árum fundu vísindamenn neðansjávarplöntu sem er talin hafa lifað í þúsundir ára og er hugsanlega elsta lífvera á jörðinni. Plantan er af tegundinni Posidonia oceanica – sjávarþang sem þekur stór svæði á botni Miðjarðarhafs á milli Spánar og Kýpur.

Fyrst planta getur lifað svona lengi, hvað þá um manninn? Vísindamenn, sem rannsaka áhrif öldrunar, eru bjartsýnir á að hægt verði að lengja líf manna. Bók um þetta málefni er sögð kafa ofan í „ýmsar framúrskarandi vísindauppgötvanir“ á þessu sviði. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort vísindauppgötvanir á þessu sviði muni lengja líf fólks.

Raunveruleg von um eilíft líf er þó ekki háð því hvað nútímavísindi gera. Biblían beinir athyglinni að skapara okkar, Jehóva Guði, þegar hún segir: „Hjá þér er uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Jesús Kristur sagði í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Það sem við leggjum á okkur til þess að kynnast og þóknast Jehóva Guði og syni hans, Jesú Kristi, verður okkur til ævarandi blessunar.

Sjávarþang

Vísindamenn telja að plöntur af þessari tegund sjávarþangs hafi lifað í þúsundir ára.

HVAR ERU HINIR DÁNU?

Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum.

Biblían segir einfaldlega að hinir dánu séu í gröfinni og bíði upprisunnar. (Jóhannes 5:28, 29) Þeir þjást ekki því að „hinir dauðu vita ekki neitt“. (Prédikarinn 9:5) Jesús líkti dauðanum við djúpan svefn. (Jóhannes 11:11-14) Við þurfum því ekki að óttast þá sem eru sofnaðir dauðasvefni eða friða þá með einhverjum hætti. Þeir geta hvorki gert gott né illt „því að í dánarheimum ... er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“. (Prédikarinn 9:10) En með upprisunni mun Guð afmá dauðann að eilífu. – 1. Korintubréf 15:26, 55; Opinberunarbókin 21:4.

Geturðu treyst því sem Biblían segir?

Við getum verið fullviss um að hægt sé að treysta því sem Biblían segir. Af hverju? Hugleiddu eftirfarandi:

  • Fjöður og blekbytta.

    Einstakur höfundur: Biblían er samansafn 66 bóka sem voru skrifaðar af um 40 riturum á 1.600 ára tímabili frá 1513 f.Kr. til um það bil 98 e.Kr. Þó er innra samræmi í henni allri. Þetta sýnir að raunverulegur höfundur Biblíunnar er almáttugur Guð. Hann opinberaði mönnum upplýsingar sem þeir rituðu síðan niður.

  • Stólpi

    Söguleg nákvæmni: Atburðir, sem lýst er í Biblíunni, eru í samræmi við sögulegar staðreyndir. Bókin A Lawyer Examines the Bible segir: „Í ástarsögum, þjóðsögum og fölskum vitnisburði er þess gætt að atburðirnir gerist á fjarlægum stað og á ótilteknum tíma ... Frásagnir Biblíunnar nefna stund og stað atburðanna af mikilli nákvæmni.“

  • Atóm

    Vísindaleg nákvæmni: Þó að Biblían sé ekki vísindarit er hún nákvæm og langt á undan sinni samtíð þegar hún talar um vísindaleg mál. Í 3. Mósebók í 13. og 14. kafla eru nákvæm lög um hreinlæti og sóttvarnir sem Ísraelsmenn áttu að fylgja. Það var löngu áður en menn vissu nokkuð um sýkla og smithættu. Biblían segir líka að jörðin sé kringlótt og svífi í tómum geimnum – vísindalegar staðreyndir sem menn skildu ekki til fulls fyrr en mörgum öldum síðar. – Jobsbók 26:7; Jesaja 40:22.

Þetta eru bara nokkur dæmi sem staðfesta áreiðanleika Biblíunnar og þessa fullyrðingu hennar: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila