Stjórnum biblíunámum í Lifað að eilífu bókinni
1 Kona nokkur sagði yfir sig hrifin af Lifað að eilífu bókinni: „Næst á eftir Biblíunni hef ég aldrei lesið bók sem reynst hefur svo nákvæm og veitt mér slíkan hugmóð og hvatningu sem þessi bók.“ Við erum öll á einu máli um að þessi bók er ein sú besta sem gefin hefur verið út til að hjálpa fólki að skilja Biblíuna og sér í lagi að hvetja það til að vegsama Jehóva á virkan hátt.
2 Árið 1984, árið sem Lifað að eilífu bókin kom út á íslensku, stýrði 141 boðberi 102 biblíunámum á Íslandi. Í október síðastliðnum stýrðu 265 boðberar 191 biblíunámi. Fram til þessa dags hafa 62 milljónir eintaka af Lifað að eilífu bókinni verið prentaðar á 115 tungumálum. Svo sannarlega hefur þessi bók haft og hefur enn mikil áhrif á starf okkar um allan heim!
3 Setjum okkur markmið: Þessi framúrskarandi vöxtur er árangurinn af blessun Jehóva og ákafa þjóna hans við að hjálpa einlægu fólki með lífgefandi boðskap Biblíunnar. (Rómv. 10:13-15; 1. Tím. 2:4) Okkur er ljóst mikilvægi tímanna og nauðsyn dugnaðar við að kunngera ríki Guðs.
4 Skipulagið stefnir fram á við, en hvernig gengur okkur sem einstaklingum? Erum við staðráðin í að eiga fullan þátt í því mikilvæga starfi að gera menn að lærisveinum? Til að svo megi verða ættum við að setja okkur markmið. Getum við verið duglegri við að fylgja áhuganum eftir? Hvernig væri að setja sér það markmið að stofna nýtt biblíunám í febrúar?
5 Hver getur stýrt biblíunámi?: Mörgum boðberum með ýmiss konar bakgrunn hefur hlotnast sú gleði að stýra biblíunámi í Lifað að eilífu bókinni. Einfaldur stíll hennar gerir stjórnun námsins auðveldari svo að jafnvel nýir boðberar geta átt hlutdeild í þessu mikilvæga starfi. Mörg okkar hafa auk þess numið hana sjálf og eru því vel kunnug efni hennar. Boðberi, sem hafði ekki stýrt neinu biblíunámi áður en hann notaði Lifað að eilífu bókina, skrifaði af þakklæti: „Ég hef þrjú nám og það fjórða er alveg að hefjast. Ég get ekki þakkað ykkur nægilega fyrir að gera það svo auðvelt að stjórna biblíunámum.“
6 Ungmennin eiga einnig virkan þátt í biblíunámsstarfinu með því að nota Lifað að eilífu bókina. Ungur bróðir skilur bókina eftir á skólaborðinu sínu. Það hefur rutt brautina fyrir góðar samræður og nokkur biblíunám. Sumir unglingar hafa notað beinu aðferðina með því að spyrja foreldra sem þeir hitta í starfinu hús úr húsi hvort þeir megi hafa biblíunám með börnunum þeirra. Börnin okkar eru aldrei of ung til að tala um fyrirheit Jehóva um eilíft líf í paradís á jörð.
7 Ein sú mesta gleði fyrir unga sem aldna, sem hægt er að öðlast í boðunarstarfinu, er sú að stýra heimabiblíunámi. Við skulum því biðja um hjálp Jehóva og grípa hvert tækifæri til að kunngera opinberlega von okkar. Notum Lifað að eilífu bókina til að hjálpa öðrum að læra hvernig þeir geti átt hlut í að vegsama Guð okkar, Jehóva. — Sálm. 148:12, 13.