Að stofna biblíunám með Lifað að eilífu bókinni
1 Kærleikur til manna ætti að fá okkur til að draga ekki á langinn að fara aftur til að hjálpa þeim sem hungrar og þyrstir í sannleikann. (Matt. 5:6) Við ættum að taka eftir og glæða hvern þann áhuganeista sem við finnum ef við viljum ekki að hann kulni út. Undirbúningur er lykill að góðum árangri.
2 Markmið okkar ætti að vera að stofna biblíunám. (Matt. 28:20) Í fyrstu prentun Lifað að eilífu bókarinnar á ensku voru þessi inngangsorð: „Þetta er vissulega frábær bók að nota til að nema með hverjum sem er, ungum sem gömlum, á hvaða menntunarstigi sem þeir standa.“ Hún er skrifuð á þann hátt að það er auðvelt að stjórna námi með hjálp hennar þannig að jafnvel nýir boðberar geta tekið þátt í því. Hversu vel okkur gengur að stofna ný biblíunám er háð því hve góðum tökum við náum á endurheimsóknastarfinu.
3 Hvernig getum við stofnað nám? Þegar við förum aftur er yfirleitt gott að flétta inn í samræður okkar atriði eða spurningu sem nefnd var í fyrri heimsókn. Ef til vill ræddir þú um ástand hinna dánu og barst fram spurninguna: „Hvaða von er um látna ástvini okkar?“ Útskýrðu að upprisan er ekki von sem enginn fótur er fyrir. Biblían segir frá mörgum dæmum um upprisu sem þegar hefur átt sér stað. Farðu yfir myndirnar á blaðsíðu 167-9. Ræddu síðan um það sem segir í grein 1 og 2 á blaðsíðu 166. Ef áhugi er fyrir hendi skaltu bjóðast til að koma aftur til að ræða efnið frekar.
4 Þú talaðir ef til vill við foreldri sem lét í ljós áhyggjur af hve erfitt væri orðið að ala upp börn. Þú gætir, með eigin orðum, sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Allir foreldrar vilja það besta fyrir börnin sín. Biblían inniheldur leiðbeiningar sem geta hjálpað foreldrum að beina börnum sínum inn á ánægjulega braut sem gefur lífinu gildi og tilgang. Þess vegna mælum við eindregið með því að fjölskyldan nemi Biblíuna saman. [Vísaðu í grein 23 á blaðsíðu 246.] Þekkingin, sem þannig fæst, getur fært allri fjölskyldunni eilífa blessun.“ Lestu Jóhannes 17:3. Segðu að þú sért fús til að koma aftur til að sýna fjölskyldunni hvernig hægt sé að koma náminu þeirra af stað.
5 Ef þú ert ungur eða nýr boðberi og talaðir stuttlega um paradísarvonina í fyrstu heimsókn, skaltu hafa bókina opna á blaðsíðu 3 og segja einfaldlega eitthvað á þessa leið:
◼ „Biblían lofar að þeir sem gera vilja Guðs geti hlakkað til að búa í heimi eins og þessum, þar sem verður hamingja og friður. Þessi bók sýnir hvað við verðum að gera til að öðlast þá blessun.“ Útskýrðu með fáum orðum kennsluaðferð okkar og bjóðstu til að sýna hvernig námið fer fram.
6 Sú skylda hvílir á okkur, sem erum lærisveinar Jesú, að hjálpa fólki. (Rómv. 10:14) Ef við útbreiddum rit eða áttum einfaldlega góðar samræður ber okkur skylda til að hlúa að þeim áhuga sem þar kom fram. (Matt. 9:37, 38) Ef við sinnum þessu verkefni á réttan hátt geta allir átt hlutdeild í þeirri blessun sem leiðir af því. — 1. Tím. 4:16.