Endurheimsóknir eru undanfari biblíunámskeiðs
1. Hvers vegna eru endurheimsóknirnar svona mikilvægar?
1 Jesús sagði fylgjendum sínum ekki aðeins að prédika heldur einnig að ‚gera menn að lærisveinum og kenna þeim.‘ (Matteus 28:19, 20) Boðberi kunngerir en kennari gerir meira. Hann leiðbeinir, útskýrir og leggur fram sannanir. Ein leið, sem við notum til að kenna öðrum, er að fara í endurheimsóknir til fólks með það í huga að hefja biblíunámskeið heima hjá þeim sem hafa áhuga.
2. Hverja ættum við að heimsækja aftur?
2 Hverja ættirðu að heimsækja aftur? Gættu þess að fara aftur til allra sem taka við ritum eða sýna þó ekki væri nema smávægilegan áhuga á fagnaðarerindinu. Ef þú verður var við áhuga þegar þú ert að vitna fyrir fólki á förnum vegi reyndu þá að fá heimilisfang viðkomanda eða símanúmer til að fylgja áhuganum eftir. Gerðu ráð fyrir að hefja biblíunámskeið. Haltu áfram að leita þeirra sem þiggja það og þú munt sennilega finna þá. — Matteus 10:11.
3, 4. Hvað þarf til að endurheimsóknir verði árangursríkar?
3 Sýndu persónulegan áhuga: Undirbúningur fyrir árangursríka endurheimsókn hefst með fyrstu heimsókninni. Reyndir boðberar skrifa niður til minnis það sem húsráðandinn hefur áhuga á og nota það sem grundvöll til frekari umræðna. Sumum finnst gagnlegt að varpa fram spurningu í lok heimsóknarinnar til að undirbúa húsráðandann fyrir næstu heimsókn. Einlægur áhugi okkar á fólki verður til þess að við erum með hugann hjá því jafnvel eftir að við höfum skilið við húsráðandann og það hvetur okkur til að fara fljótlega í heimsókn aftur. Reyndu að gera það áður en dregið hefur úr áhuganum ef þú mögulega getur, jafnvel innan eins eða tveggja daga.
4 Reyndu að byggja á fyrri umræðum þegar þú ferð í endurheimsókn. Hafðu það markmið að kynna að minnsta kosti einn uppbyggilegan ritningarstað hverju sinni og vertu fús til að hlusta. Kynnstu húsráðandanum betur. Í heimsóknunum á eftir skaltu kynna þá þætti sannleikans í orði Guðs sem snerta hann mest.
5. Hvaða einfalda aðferð væri hægt að nota til að hefja biblíunámskeið?
5 Vertu vakandi fyrir því að hefja biblíunámskeið: Farðu í endurheimsóknir með það markmið að hefja biblíunámskeið. Hvernig er hægt að gera það? Segðu að þig langi til að kynna áhugaverða hugmynd og flettu upp á málsgrein í Þekkingarbókinni eða Kröfubæklingnum sem þú heldur að höfði til viðkomanda. Lestu málsgreinina, fjallaðu um spurninguna og ræddu um einn eða tvo ritningarstaði sem vitnað er í. Þetta er hægt að gera við dyrnar á fimm til tíu mínútum. Ljúktu samtalinu með því að varpa fram næstu spurningu og mæla þér mót við húsráðanda til að halda umræðunum áfram seinna.
6. Hvernig getum við sýnt að við skiljum hve mikilsvert það er að fara í endurheimsóknir?
6 Það allra nauðsynlegasta í boðunarstarfinu er að glæða þann áhuga sem við verðum vör við. Taktu því frá tíma í hverri viku til að fara í endurheimsóknir. Það mun gera boðunarstarf þitt árangursríkara og verða til mikillar gleði.