Hefjum biblíunámskeið með fleirum
1 Jehóva Guð blessar jarðneskt skipulag sitt með áframhaldandi vexti. Á síðastliðnu þjónustuári létu 375.923 skírast í heiminum — en það jafngildir yfir 1000 nýjum lærisveinum á dag eða 43 á klukkustund! Víða í heiminum blómstrar starf Guðsríkis og aukningin er frábær þrátt fyrir að bræðurnir hafi mátt þola harðræði í marga áratugi. Það er spennandi að lesa um það hvernig útbreiðsla fagnaðarerindisins hefur aukist.
2 Íslenska deildin greindi líka frá aukningu á síðasta ári. Aukning varð á meðaltali boðbera, aðstoðarbrautryðjenda og fjölda klukkustunda í boðunarstarfinu. Aðsókn að minningarhátíðinni sló öll met. En hvað um endurheimsókna- og biblíunámsstarfið? Endurheimsóknum fjölgaði lítillega en biblíunámskeiðum fækkaði eilítið. En það að gera menn að lærisveinum byggist einkum á þessum greinum þjónustunnar. Hvað getur hvert og eitt okkar gert til að efla endurheimsóknir enn frekar og stofna fleiri biblíunámskeið?
3 Efldu löngunina til að stjórna biblíunámskeiði: Við þurfum sjálf að einbeita okkur að því að vera andlega sterk og virk. Sannir fylgjendur Krists eru ‚kostgæfnir til góðra verka.‘ (Tít. 2:14) Þegar við lítum yfir þjónustu okkar getum við þá sagt að við höfum brennandi löngun til að fylgja eftir allri dreifingu rita á akrinum? Erum við áköf að bjóða öllum sem sýna áhuga heimabiblíunámskeið? (Rómv. 12:11) Eða þurfum við að temja okkur sterkari löngun til að fara í endurheimsóknir og hefja biblíunámskeið?
4 Daglegur biblíulestur, regluleg samkomusókn og nám í ritunum heldur okkur andlega vakandi og veitir okkur jafnframt anda Guðs. (Ef. 3:16-19) Það styrkir trú okkar og traust til Jehóva og eflir náungakærleikann. Það hvetur okkur til að kenna öðrum sannleikann og þannig verður þjónusta okkar áhugaverð, árangursrík og örvandi. Já, okkur ætti að langa að stjórna fleiri biblíunámskeiðum.
5 Byrjið á fjölskyldunni: Meðan börnin eru enn í föðurhúsum ættu kristnir foreldrar að sinna reglubundnu fjölskyldunámi í Biblíunni. (5. Mós. 31:12; Sálm. 148:12, 13; Orðskv. 22:6) Gott væri að foreldrar notuðu Kröfubæklinginn og síðan Þekkingarbókina til að fræða börn sín og búa þau undir að uppfylla kröfurnar til óskírðra boðbera og undir vígslu og skírn. Að sjálfsögðu má fara yfir viðbótarefni allt eftir þörfum og aldri barnsins. Foreldri, sem nemur með óskírðu barni, má telja nám, tíma og endurheimsókn í samræmi við Spurningakassann í Ríkisþjónustu okkar frá apríl 1987.
6 Bættu skipulagningu þína: Á því leikur enginn vafi að verið er að dreifa miklu sæði eins og sést af útbreiðslu blaða, bæklinga og bóka. Miklir vaxtarmöguleikar búa í sannleiksfræjunum sem sáð hefur verið. Af þeim má rækta nýja lærisveina. En myndi bóndi eða garðyrkjumaður gera sig fullkomlega ánægðan með að gróðursetja stanslaust en taka sér aldrei tíma til að skera upp eftir alla fyrirhöfnina? Tæplega. Eins er líka nauðsynlegt að fylgja sáningarstarfinu eftir.
7 Tekur þú reglulega frá tíma til að fara í endurheimsóknir? Farðu fljótlega aftur til allra sem sýna áhuga. Farðu í endurheimsókn með það að markmiði að hefja biblíunámskeið. Heldur þú snyrtilega og vel skipulagða skrá yfir endurheimsóknir þínar sem þú færir stöðugt nýjustu upplýsingarnar í? Auk nafns og heimilisfangs húsráðandans skaltu skrá dagsetningu fyrstu heimsóknar, rit, um hvað var rætt og hvað taka má fyrir næst. Skildu eftir pláss á eyðublaðinu fyrir viðbótarupplýsingar svo að þú getir skráð þær eftir hverja heimsókn.
8 Að fara í endurheimsókn: Hvað ber að hafa í huga þegar farið er í endurheimsókn til áhugasamra? (1) Vertu hlýlegur, vingjarnlegur, áhugasamur og óformlegur. (2) Ræddu málefni og spurningar sem húsráðandi hefur áhuga á. (3) Hafðu umræðurnar einfaldar og biblíulegar. (4) Leitastu við að kenna honum eitthvað í hverri heimsókn sem hann finnur að er verðmætt fyrir hann. (5) Vektu tilhlökkun að ræða viðfangsefni næstu heimsóknar. (6) Stoppaðu ekki of lengi. (7) Spyrðu ekki spurninga sem geta gert húsráðandann vandræðalegan eða stillt honum upp við vegg. (8) Sýndu dómgreind svo að þú dæmir ekki röng viðhorf eða venjur áður en búið er að rækta hjá honum andlegt verðmætamat. — Sjá viðauka Ríkisþjónustu okkar frá mars 1997 þar sem viðbótarupplýsingar er að finna um árangursríkar endurheimsóknir og hvernig hefja má biblíunámskeið.
9 Kannið alla möguleika: Söfnuður nokkur gat haft upp á nöfnum og síma allra íbúa í byggingu með stranga öryggisgæslu. Bréf var stílað á hvern íbúa og tvö smárit látin fylgja. Síðast í bréfinu var boðið biblíunámskeið og símanúmer gefið upp svo að viðtakandinn gæti svarað boðinu. Innan fárra daga hringdi ungur maður og bað um námskeið. Farið var í endurheimsókn daginn eftir og námskeið hafið í Þekkingarbókinni. Þetta sama kvöld kom hann í safnaðarbóknámið og hélt áfram að koma á allar samkomurnar. Svo til strax fór hann að lesa Biblíuna daglega. Hann tók stöðugum framförum í átt til skírnar.
10 Nokkrir boðberar voru saman í bíl í starfinu og bjuggu sig undir að fara í endurheimsóknir. Þegar systir í hópnum fór í eina af sínum heimsóknum var konan, sem hún ætlaði að hitta, ekki heima, en önnur ung kona kom til dyra og sagði: „Ég hef verið að bíða eftir ykkur.“ Hún hafði fengið Þekkingarbók frá kunningja. Þegar systurnar bönkuðu upp á hjá henni var hún búin að lesa bókina tvisvar og var djúpt snortin af efni hennar. Hún sagðist ekkert undrast að vottarnir skyldu banka upp á hjá sér þennan dag þar sem hún hafði verið að biðja um að þeir kæmu til að fræða sig um Biblíuna. Biblíunámskeið var hafið og hún fór að stunda samkomurnar og tók skjótum framförum.
11 Nýlega gaf systir, sem er búin að vera skírð í næstum 25 ár, móður sinni Þekkingarbók. Móðirin, sem var virk í kirkjunni, fór að lesa bókina. Eftir að hafa lesið tvo kafla hringdi hún til dóttur sinnar og sagði henni til mikillar undrunar: „Ég vil verða vottur Jehóva!“ Móðirin fór að nema og er nú skírð.
12 Reyndu þessar tillögur: Hefur þú nokkurn tíma notað beinu aðferðina til að hefja námskeið? Þú gætir einfaldlega sagt: „Ef þú vilt fá ókeypis biblíunámskeið get ég sýnt þér á fáeinum mínútum hvernig það fer fram. Ef þér líkar það getur þú haldið áfram.“ Margir hika ekki við að þiggja slíkt boð og kynna sér fúslega hvernig biblíunám fer fram.
13 Fljótlega skaltu sýna nemandanum hvernig hann getur undirbúið sig með því að fletta upp ritningarstöðunum sem vitnað er í og strikað undir lykilorð sem svar við prentuðu spurningunum. Einbeittu þér aðeins að aðalatriðunum. Þótt við getum þurft að vera sveigjanleg fyrstu skiptin er mikilvægt að námskeiðið sé haldið á reglulegum grundvelli. Veltu fyrir þér hvernig þú munir koma því á framfæri að bæn sé nauðsynlegur þáttur námsins og hvernig þú munir, með hjálp Ritningarinnar, búa nemandann undir andstöðu. Hafðu námið fyrir alla muni líflegt!
14 Að sjálfsögðu taka ekki allir biblíunemendur jafnskjótum framförum. Það er misjafnt hversu andlega sinnaðir menn eru eða hve fljótt þeir meðtaka það sem þeim er kennt. Sumir eru mjög uppteknir og geta því ekki varið þeim tíma til námsins sem þyrfti til að fara yfir heilan kafla. Því getur í sumum tilfellum verið nauðsynlegt að verja fleiri en einni námstund til að komast yfir vissa kafla og nema í fleiri mánuði en ella til að ljúka við bókina. Stundum er farið fyrst yfir Kröfubæklinginn og síðan farið yfir í Þekkingarbókina. Ef þetta helst í hendur við samkomusókn mun hver nemandi fá góða fótfestu í sannleikanum.
15 Þú skalt fyrir alla muni biðja um biblíunámskeið í bænum þínum. (1. Jóh. 3:22) Ein umbunarríkasta reynsla kristins manns er sú að Jehóva noti hann til að hjálpa einstaklingi að verða lærisveinn Jesú Krists. (Post. 20:35; 1. Kor. 3:6-9; 1. Þess. 2:8) Nú er rétti tíminn til að sýna mikla kostgæfni í biblíunámsstarfinu í trausti þess að Jehóva blessi ríkulega viðleitni okkar að hefja fleiri biblíunámskeið.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Biður þú Jehóva um hjálp til að hefja biblíunámskeið með nýjum nemanda?