Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 8.98 bls. 3-4
  • Verum framsækin að gera menn að lærisveinum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verum framsækin að gera menn að lærisveinum
  • Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Svipað efni
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • Hvernig nota skal Þekkingarbókina til að gera menn að lærisveinum
    Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • ‚Hvernig get ég það ef enginn leiðbeinir mér?‘
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1996
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1998
km 8.98 bls. 3-4

Verum framsækin að gera menn að lærisveinum

1 Áður en Jesús fór til himna fyrirskipaði hann fylgjendum sínum að gera „allar þjóðir að lærisveinum.“ Það krafðist þess að þeir færu í rækilega prédikunar- og kennsluherferð og færðu starfsemina út til allra heimshorna. (Matt. 28:19, 20; Post. 1:8) Litu þeir á þetta umboð sem of þunga byrði? Ekki er svo að skilja á Jóhannesi postula. Eftir að hafa gert menn að lærisveinum í 65 ár skrifaði hann: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ —1. Jóh. 5:3.

2 Frásaga Biblíunnar af starfi hinna frumkristnu sýnir að þeir sinntu af kappi því umboði sínu að gera menn að lærisveinum Jesú Krists. (2. Tím. 4:1, 2) Þeir gerðu þetta ekki aðeins af skyldukvöð heldur af því að þá langaði til að lofa Guð og veita öðrum hjálpræðisvonina. (Post. 13:47-49) Kristni söfnuðurinn á fyrstu öld óx hratt af því að allir, sem gerðust lærisveinar, tóku síðan sjálfir þátt í því starfi að gera menn að lærisveinum. — Post. 5:14; 6:7; 16:5.

3 Kennslustarfinu er hraðað: Aldrei fyrr hefur kennslustarfið verið jafnumfangsmikið og nú á 20. öldinni. Hingað til hafa milljónir manna tekið við fagnaðarerindinu og breytt í samræmi við það. (Lúk. 8:15) Þar sem dagar núverandi heimskerfis eru taldir hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ séð okkur fyrir verkfærum sem gera hjartahreinu fólki kleift að kynnast sannleikanum á skömmum tíma. — Matt. 24:45.

4 Árið 1995 fengum við bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs og árið 1997 bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur? Varðturninn sagði um Þekkingarbókina í mars 1996 á bls. 14: „Hægt er að nema þessa 192 blaðsíðna bók á tiltölulega skömmum tíma, og þeir sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ ættu að geta lært nóg af henni til að vígjast Jehóva og láta skírast.“ — Post. 13:48, NW.

5 Viðaukinn „Hvernig nota skal Þekkingarbókina til að gera menn að lærisveinum“ í Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1996 gaf okkur þetta markmið: „Flestir kaflarnir eru þannig að það ætti að vera mögulegt að fara yfir þá í einni námsstund sem tekur um það bil einn klukkutíma, án þess að þurfa að vaða í gegnum efnið, en það er þó háð kringumstæðunum og hæfni nemandans. Nemendurnir taka meiri framförum þegar kennarinn og nemandinn halda sér báðir við það að hafa námið í hverri viku.“ Greinin sagði enn fremur: „Gera skyldi ráð fyrir að þegar nemandinn hefur lokið námi sínu í Þekkingarbókinni sé orðið augljóst hvort hann sé einlægur og hversu djúpt áhugi hans á að þjóna Guði ristir.“ Spurningakassinn í Ríkisþjónustu okkar fyrir október 1996 útskýrði: „Þess [er] vænst að dugmikill kennari geti á tiltölulega skömmum tíma hjálpað einlægum meðalnemanda að öðlast nægilega þekkingu til að ákveða af skynsemi að þjóna Jehóva.“

6 Þekkingarbókin ber árangur: Við skírn sína sagði ung kona frá því hvernig henni fannst að nema Þekkingarbókina. Hún hafði numið Lifað að eilífu bókina um nokkurn tíma. Systirin, sem stjórnaði námskeiðinu, skipti yfir í Þekkingarbókina þegar hún kom út. Konan sá fljótlega að þetta krafðist þess að hún tæki ákvörðun og hún fann hjá sér hvöt til að taka skjótum framförum upp frá því. Unga konan, sem er nú systir okkar, segir: „Lifað að eilífu bókin hjálpaði mér að elska Jehóva en Þekkingarbókin hjálpaði mér að taka þá ákvörðun að þjóna honum.“

7 Önnur kona var fljót að læra sannleikann. Eftir aðra námsstundina sótti hún samkomu í ríkissalnum meðan á heimsókn farandhirðisins stóð. Þá viku, í þriðju námsstundinni, sagði hún honum að hún hefði vígt sig Jehóva og vildi gerast óskírður boðberi. Hún ræddi við öldungana sem féllust á að hún gerðist boðberi og í vikunni á eftir fór hún í boðunarstarfið. Hún sökkti sér svo niður í biblíunámið að hún tók sér frí úr vinnu til að geta numið tvisvar eða þrisvar í viku og varið sem mestum tíma til boðunarstarfsins. Einstaka sinnum var farið yfir tvo eða þrjá kafla í einni námsstund. Hún byrjaði að fylgja því sem hún lærði á öllum sviðum lífsins, lauk Þekkingarbókinni á fjórum vikum og varð fljótlega hæf til að láta skírast!

8 Eiginmaður systur einnar segist hafa verið „dæmigerður vantrúaður maki.“ Dag einn bauð bróðir honum biblíunámskeið í Þekkingarbókinni með því skilyrði að maðurinn gæti hætt eftir fyrsta skiptið eða hvenær sem væri eftir það. Eiginmaðurinn féllst á að gefa þessu tækifæri þrátt fyrir að hafa verið lélegur nemandi á yngri árum og ekki lesið trúarleg rit í meira en 20 ár. Hver voru viðbrögð hans við að nema Þekkingarbókina? Hann sagði: „Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu einfalt þetta biblíunámsrit var. Efnið var borið fram svo skýrt og rökrétt að áður en langt um leið var ég farinn að hlakka mikið til næstu námsstundar. Kennari minn fylgdi fagmannlega þeim aðferðum sem Félagið leggur til að notaðar séu til að gera menn að lærisveinum. Og með hjálp anda Jehóva var ég skírður fjórum mánuðum seinna. Ég get sagt með sanni að ef við ræktum með okkur kærleika til að gera menn að lærisveinum, höldum áfram að leita hjartahreinna manna í boðunarstarfinu, notum Þekkingarbókina og önnur biblíunámsrit sem Félagið lætur í té, og síðast en ekki síst biðjum um leiðsögn Jehóva, getum við öðlast þau sérstöku sérréttindi að hjálpa til við að gera menn að lærisveinum.“ Frásögurnar hér að ofan eru mjög óvenjulegar. Flestir nemenda okkar taka ekki svona fljótt við sannleikanum.

9 Nemendur taka mishröðum framförum: Það verður að viðurkenna að hæfni bæði kennara og nemenda orðs Guðs getur verið býsna breytileg. Andlegur vöxtur getur verið hægur eða hraður. Sumir nemendur taka á nokkrum mánuðum þeim framförum sem aðrir eru mun lengur að taka. Menn hafa mismikla menntun, mismikinn áhuga á andlegum málum og misdjúpa hollustu við Jehóva. Allt hefur þetta áhrif á andlegan vaxtarhraða. Ekki hafa allir sem við kennum sömu ‚góðfýsi‘ til að nema ritningarnar daglega eins og Berojumenn til forna sem tóku trú. — Post. 17:11, 12.

10 Þess vegna gefur viðaukinn „Hefjum biblíunámskeið með fleirum“ í Ríkisþjónustu okkar í apríl 1998 þessar raunhæfu leiðbeiningar: „Að sjálfsögðu taka ekki allir biblíunemendur jafnskjótum framförum. Það er misjafnt hversu andlega sinnaðir menn eru eða hve fljótt þeir meðtaka það sem þeim er kennt. Sumir eru mjög uppteknir og geta því ekki varið þeim tíma til námsins sem þyrfti til að fara yfir heilan kafla. Því getur í sumum tilfellum verið nauðsynlegt að verja fleiri en einni námstund í að komast yfir vissa kafla og nema í fleiri mánuði en ella til að ljúka við bókina.“

11 Boðberar gæta jafnvægis: Það er nauðsynlegt að miða námshraða við aðstæður og hæfni nemandans. Við erum hvött til að hefja námskeið í Kröfubæklingnum og það gæti tekið tvo eða þrjá mánuði að ljúka honum áður en farið er yfir í Þekkingarbókina. Ef við notfærum okkur allar tillögurnar í viðauka Ríkisþjónustu okkar í júní 1996 gæti vel verið að það tæki sex til níu mánuði í viðbót að ljúka Þekkingarbókinni. Sumir sem hafa nýlega hafið námskeið í Þekkingarbókinni skiptu yfir í Kröfubæklinginn til að hjálpa nemandanum að vera fljótari að læra grundvallarsannindi Biblíunnar. Síðan var haldið áfram í Þekkingarbókinni. Ef námskeið er hafið í Þekkingarbókinni og miðar vel áfram gæti verið gagnlegt að nema Kröfubæklinginn eftir að bókinni er lokið og rifja þannig upp í fljótu bragði grundvallarsannindi orðs Guðs. Hvort heldur sem er, viljum við ekki leggja svo mikið upp úr námshraðanum að nemandinn fái ekki skýran skilning á Biblíunni. Allir nemendur þurfa traustan grunn fyrir nýfundna trú sína á orð Guðs.

12 Í ljósi þess hvar við stöndum í rás tímans er það brýnna núna en nokkru sinni fyrr að hjálpa öðrum að læra sannleikann. Auk þess að biðja stöðuglega um hjálp til að hefja biblíunámskeið með fleirum, skulum við biðja fyrir þeim sem við erum nú þegar að leiðbeina. Þá verðum við þeirrar gleði aðnjótandi að skíra fleiri lærisveina „alla daga allt til enda veraldar.“ — Matt. 28:20.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila