Spurningakassinn
◼ Núna þegar við höfum bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs, hversu lengi ættu þá heimabiblíunám að standa yfir?
Ríkisþjónusta okkar í september 1993 mælti með að halda áfram heimabiblíunámi með þeim sem nýlega hefðu fengið áhuga uns búið væri að nema tvær bækur. Núna þegar við höfum Þekkingarbókina virðist ráðlegt að gera hér breytingu á, eins og fram kemur á blaðsíðu 17 í Varðturninum frá 1. mars 1996.
Þekkingarbókin er samin til að hjálpa þeim sem ‚ætlaðir eru til eilífs lífs‘ að læra það sem þeir þurfa að vita til að vígja sig Jehóva og láta skírast. (Post. 13:48) Eftir að lokið er við að fara yfir þessa nýju bók ætti þess vegna ekki að vera nauðsynlegt að nema aðra bók með sama nemandanum. Þegar biblíunemendur þínir fara að taka til sín sannleikann getur þú smám saman hvatt þá til að fylla inn í þekkingu sína með því að sækja samkomur votta Jehóva, svo og með því að lesa Biblíuna og ýmis kristin rit.
Það gæti komið þér að góðu gagni að þekkja vel til spurninganna í bæklingnum Grundvallarkenningar Biblíunnar. Þó að þú ættir ekki að vísa til þessara spurninga eða fara yfir þær með nemandanum, gæti verið gott að leggja áherslu á atriði í Þekkingarbókinni sem gera nemandanum kleift að láta í ljós réttan skilning á grundvallarsannindum Biblíunnar þegar öldungarnir fara yfir spurningar með skírnþegum.
Það er engin þörf á að auka við upplýsingarnar í Þekkingarbókinni með því að koma með utanaðkomandi efni eða viðbótarrök til stuðnings kenningum Biblíunnar eða til að afsanna falskenningar. Það yrði aðeins til þess að námið tæki lengri tíma. Öllu heldur er vonast til að hægt sé að fara frekar hratt yfir bókina, kannski á um það bil sex mánuðum. Það undirstrikar nauðsyn þess að við nemum sjálf efnið rækilega fyrirfram til þess að við getum sett það fram skýrt og án málalenginga. Á sama hátt ætti að hvetja nemandann til að nema efnið fyrirfram, fletta upp ritningarstöðum og leitast við að koma greinilega auga á hvað bókin er að kenna í hverjum kafla.
Varðturninn hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að vottar Jehóva stýri fleiri árangursríkum biblíunámum en undanfarið og þar að auki á skemmri tíma. (Sjá Jesaja 60:22.) Áhrifarík notkun Þekkingarbókarinnar getur hjálpað hinum nýju að afla sér þeirrar þekkingar sem leiðir til eilífs lífs og breyta í samræmi við hana. — Jóh. 17:3.