‚Hvernig get ég það ef enginn leiðbeinir mér?‘
1 Þegar Filippus trúboði spurði eþíópska hirðmanninn hvort hann skildi það sem hann var að lesa í orði Guðs, svaraði hann: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Filippus aðstoðaði hann fúslega við að skilja fagnaðarerindið um Jesú og maðurinn lét umsvifalaust skírast. (Post. 8:26-38) Filippus var að framfylgja fyrirmælum Krists um að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum, skíra þá og og kenna þeim.‘ — Matt. 28:19, 20.
2 Við verðum að fylgja fyrirmælunum um að gera menn að lærisveinum líkt og Filippus. Það er sjaldgæft að biblíunemendur okkar taki eins hröðum andlegum framförum og eþíópski hirðmaðurinn. Hann var gyðingatrúar og vel að sér í Ritningunni, hafði rétt hjartalag og þurfti einungis að viðurkenna að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. Það er krefjandi verk að kenna fólki sem þekkir lítt til Biblíunnar, hefur látið falstrúarkenningar villa um fyrir sér eða á við erfið og íþyngjandi vandamál að stríða. Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til vígslu og skírnar?
3 Komdu auga á andlegar þarfir nemandans: Viðauki Ríkisþjónustu okkar í ágúst 1998 ræddi um hve lengi nám í Kröfubæklingnum og Þekkingarbókinni gæti staðið yfir og gaf þessar leiðbeiningar: „Það er nauðsynlegt að miða námshraða við aðstæður og hæfni nemandans. . . . Við [viljum] ekki leggja svo mikið upp úr námshraðanum að nemandinn fái ekki skýran skilning á Biblíunni. Allir nemendur þurfa traustan grunn fyrir nýfundna trú sína á orð Guðs.“ Það er því óráðlegt að flýta sér gegnum námsefnið til þess eins að ljúka Þekkingarbókinni á sex mánuðum. Það getur þurft mun lengri tíma en þetta til að hjálpa sumum að verða hæfir til skírnar. Notaðu þann tíma sem þarf í hverri námsstund til að nemandinn skilji og viðurkenni það sem hann lærir í orði Guðs. Stundum getur þurft tvær eða þrjár námsstundir til að komast yfir einn kafla í Þekkingarbókinni og gera ritningarstöðunum góð skil. — Rómv. 12:2
4 En hvað skal gera þegar Þekkingarbókinni sleppir og enn virðist þurfa að bæta skilning nemandans á sannleikanum eða glæða hjá honum sterkari hvöt svo að hann taki afstöðu með honum og vígi sig Guði? (1. Kor. 14:20) Hvað annað er hægt að gera til að beina honum inn á veginn til lífsins? — Matt. 7:14.
5 Fullnægðu andlegum þörfum nemandans: Ef ljóst er að nemandinn er að taka framförum, þótt hægt miði, og kann að meta það sem hann er að læra skaltu halda biblíunáminu áfram í annarri bók eftir að farið hefur verið yfir Kröfubæklinginn og Þekkingarbókina. Það er ekki nauðsynlegt í öllum tilfellum en sé þess þörf skaltu fara með nemandanum yfir bókina Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði. Flestir boðberar eiga eintak af henni en annars má verða sér úti um eintak í bókadeild safnaðarins. Í öllum tilvikum skal þó fara fyrst yfir Kröfubæklinginn og Þekkingarbókina. Telja má biblíunámskeið, endurheimsóknir og starfstíma meðan á náminu stendur og skrá á starfsskýrslu, jafnvel þótt nemandinn láti skírast áður en hann hefur lokið yfirferð síðari bókarinnar.
6 Þýðir þetta að nýskírðir boðberar, sem hafa aðeins farið yfir aðra bókina, eigi að fá aðstoð við að fara yfir hina? Það er ekki sjálfgefið. En ef þeir eru orðnir óvirkir eða hafa ekki tekið framförum í sannleikanum gætu þeir talið sig þurfa á persónulegri aðstoð að halda til að fylgja sannleikanum betur. Ráðfærðu þig við starfshirðinn áður en námskeiði er komið á hjá skírðum boðbera. Ef þú veist hins vegar um fólk sem hefur farið yfir Þekkingarbókina áður fyrr en ekki tekið framförum að því marki að vígja sig Guði og láta skírast, gætirðu boðist til að taka námskeiðið upp að nýju.
7 Það ber vott um kristilegan kærleika að sýna sérhverjum áhugasömum nemanda einlæga umhyggju. Markmið okkar er að hjálpa nemandanum að fá meiri innsýn í sannleika orðs Guðs. Með góða þekkingu að bakhjarli getur hann tekið einarða afstöðu með sannleikanum, vígt sig Jehóva og táknað það með niðurdýfingarskírn. — Sálm. 40:9; Ef. 3:17-19.
8 Manstu hvað eþíópski hirðmaðurinn gerði eftir að hann lét skírast? Hann „fór fagnandi leiðar sinnar“ sem nýr lærisveinn Jesú Krists. (Post. 8:39, 40) Megum við og þeir sem okkur tekst að beina inn á sannleiksveginn þjóna Jehóva Guði með gleði, nú og að eilífu!