Byggðu á áhuganum með því að fara í áhrifaríkar endurheimsóknir
1 Í hverri vel undirbúinni ræðu er að finna áhugaverðan inngang, fræðandi meginmál og hvetjandi niðurlag. Inngangurinn grípur athygli áheyrendanna en án meginmálsins og niðurlagsins væri ræðan ófullgerð. Sama meginregla gildir um boðunarstarf okkar. Það er mjög gott að vekja upp áhuga hjá húsráðandanum strax í fyrstu heimsókn, en við verðum að halda áfram að byggja á fyrsta áhuganum með því að fara í áhrifaríkar endurheimsóknir.
2 Hvers vegna leyfir Guð þjáningar? Sannarlega umhugsunarverð spurning! Ert þú ekki sammála því að þessi spurning sé í hugum margra nú á tímum? Þess vegna var í greininni hér að ofan lagt til að þú bærir fram þessa spurningu í lok fyrstu heimsóknar með það í huga að svara henni þegar þú ferð í endurheimsóknina.
3 Þetta gætir þú sagt:
◼ „Góðan daginn. Síðast þegar við ræddum saman kom upp sú spurning hvers vegna Guð leyfir hið illa og ég lofaði að koma aftur með nokkrar upplýsingar um það. Mörgum finnst að Guð hlyti að binda enda á þjáningar ef honum væri í raun annt um okkur. Þú ert ef til vill sama sinnis. [Leyfðu honum að svara.] Biblían fullvissar okkur um að Guð beri í raun umhyggju fyrir okkur. [Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:8.] Guð hefur góðar ástæður fyrir að hafa leyft þjáningar allt til þessa. Ein þeirra er útskýrð í 2. Pétursbréfi 3:9. [Lestu.] Í þessum bæklingi er bent á aðrar ástæður.“ Flettu upp á bls. 12-14 í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? og ræddu um það sem vekur áhuga.
4 Sumir húsráðendur kunna að hafa áhuga á nánari útskýringu og nauðsynlegt getur reynst að fara í allmargar endurheimsóknir áður en þeir eru alveg ánægðir með svarið. Í bókinni Sannur friður og öryggi — hvernig? má finna ítarlega umfjöllun um þetta efni og nota má hana til að taka eina og eina hlið þessa máls fyrir í hvert sinn.
5 Þegar þú ert að ljúka samtalinu skalt þú bera fram aðra spurningu og segja húsráðandanum að þú myndir hafa ánægju af að miðla honum athyglisverðum upplýsingum í næstu heimsókn. Margir vilja vita hvað gerist við dauðann. Þú gætir stungið upp á að ræða það málefni þegar það hentar viðmælanda þínum vel.
6 Það væri gagnlegt fyrir þig að hafa þrjár grundvallarreglur í huga. Vertu sveigjanlegur. Húsráðandinn er væntanlega ekki vanur því að taka frá sérstakan tíma til biblíuumræðna. Vertu stuttorður. Vertu ekki of lengi og farðu ekki yfir of mörg atriði í fyrstu. Í flestum tilfellum munu viðbrögðin við heimsókn þinni verða jákvæðari ef þú ferð aðeins yfir fáein atriði á stuttum tíma. Vertu hlýlegur og vingjarnlegur. Sýndu húsráðandanum að þú hafir áhuga á honum persónulega sem einstaklingi.
7 Fyrsta takmark okkar er að fá húsráðandann til að tala við okkur um biblíulegt efni. Því næst viljum við stofna með honum árangursríkt heimabiblíunám í heppilegu riti, eins og Lifað að eilífu bókinni. Sú gleði kanna að veitast þér ef þú þolinmóðlega byggir á upphaflega áhuganum með því að fara í áhrifaríkar endurheimsóknir.