Hjálpum öðrum að sjá að Guð ber í raun umhyggju fyrir okkur
1 Margir sem hafa lesið bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? hafa tjáð sig um hversu áhrifaríkur hann er. Á einfaldan en rökvísan hátt sýnir hann að sköpunarverkið hlýtur að eiga sér skapara og að misnotkun manna á því afsannar ekki tilvist Guðs. Jehóva hefur tilgang með því sem hann hefur skapað og hann hefur upplýst mennina um þann tilgang. Menn hafa sjálfir leitt yfir sig þjáningar með því að misnota frjálsan vilja sinn.
2 Bæklingurinn hjálpar fólki að fá á skömmum tíma svör við spurningum sem brunnið hafa á vörum friðelskandi manna um aldir. Fleiri hafa þjáðst á þessari öld en á nokkurri annarri öld mannkynssögunnar og virðist þar ekkert lát á. Æ ljósara verður að aukin tækniþekking og bætt lífskjör eru engin trygging fyrir friði og hamingju. Spurningin um tilvist Guðs og tilgang og hvers vegna hann leyfir illskuna kemur því oft upp á yfirborðið. En fæstir koma auga á svarið þótt einfalt sé, þar sem heimurinn er í andlegu myrkri. (Jes. 60:2) Þessi bæklingur getur hjálpað mönnum að stíga úr myrkrinu inn í ljósið. — Lúk. 1:79; Ef. 5:8.
3 Mörgum hefur reynst auðvelt að bjóða þennan bækling í starfinu hús úr húsi. En látum ekki þar við sitja. Á blaðsíðu 4 í þessu tölublaði Ríkisþjónustu okkar eru tillögur um hvernig stofna megi biblíunám í bæklingnum. Reynum að nota þær eða aðrar vel í boðunarstarfinu næstu mánuði.
4 Óformlegur vitnisburður: Sumarmánuðirnir bjóða oft upp á óformlegan vitnisburð. Í júní og júlí munum við einkum leggja áherslu á að bjóða bæklingana okkar og þeir henta mjög vel til óformlegs vitnisburðar. Gleymum ekki að hafa þá með þegar við förum í ferðalag, jafnvel þótt stutt sé. Margir hafa getað borið vitni fyrir ferðafélaga í flugvél, í langferðabíl, járnbrautarlest eða á áningarstöðum. Oft hefur slíkur vitnisburður borið góðan árangur. Systir, sem var á ferð í flugvél, ræddi við ferðafélaga sinn sem var kaþólskur prestur á leið til vígsluathafnar nýs kardínála. Presturinn hafði verið í Páfagarði í 40 ár og hann þáði bók hjá systur okkar.
5 Hlutdeild ungmenna: Sumarfríið er framundan hjá skólafólkinu. Er til betri leið að nota skólafríið en sú að taka sem mestan þátt í boðun Guðsríkis? Lítið á það sem áskorun þegar þið hittið jafnaldra ykkar eða skólafélaga í starfinu hús úr húsi. Búið ykkur undir að nota bæklingana við slíkar aðstæður. Mörg ungmenni hafa áhyggjur af framtíðinni og áhuga á orði Guðs. Óttaleysi ykkar við að tala um fagnaðarerindið getur aukið þeim kjark til að skoða málið frekar. — Orðskv. 29:25.
6 Fólk þarf að gera sér ljóst að Guð ber í raun umhyggju fyrir okkur. En til að njóta velþóknunar hans þurfa menn að taka afstöðu með stjórn hans og sameinast þeim sem gefa sig á vald ‚Guðs vegum og ganga á hans stigum.‘ (Jes. 2:2, 3) Við skulum nota bæklingana vel til að hjálpa hreinhjörtuðu fólki að skilja þessi mikilvægu sannindi.