Árbókin – uppörvandi gullnáma
1 Skýrslur og reynslufrásagnir af dásamlegum verkum Jehóva hafa alltaf reynst mjög hressandi fyrir þjóna Guðs. (Job. 38:4, 7; Orðskv. 25:25; Lúk. 7:22; Post. 15:31) Af þeim sökum er Árbók votta Jehóva uppörvandi gullnáma.
2 Í hverri Árbók er að finna fréttir alls staðar að úr heiminum um það sem vottar Jehóva hafa unnið að og komið til leiðar. Trústyrkjandi reynslufrásagnir draga skýrt fram hvernig Jehóva hefur leiðbeint, verndað og blessað fólk sitt. Árbókin segir frá hugrökkum körlum og konum sem yfirgáfu fjölskyldu, vini og ættjörð til að færa þjóðum á öllum meginlöndum og flestum úthafseyjum sannindi Biblíunnar.
3 Árbókin hefur fengið marga lesendur sína til að auka þjónustu sína við Guð. Einn þeirra skrifaði: „Ég get ekki lesið hana nógu hratt. Það sem ég hef lesið hingað til hefur verið mjög uppbyggjandi. Þegar ég sé hvað aðrir gera undir álagi finnst mér ég geta gert meira til að prédika fagnaðarerindið.“
4 Innan tíðar munum við fá nýja Árbók í hendur. En erum við búin að lesa alla síðustu Árbókina? Hættir okkur til að blaða aðeins í Árbókinni þegar við fáum hana, lesa stuttu frásagnirnar fremst í bókinni en láta aldrei verða úr að lesa til fulls ítarlegu frásagnirnar þar á eftir? Árbókin úreltis ekki. Ef við eigum einhverja kafla í árbókum síðustu ára ólesna ættum við að setja okkur það markmið að ljúka lestri þeirra áður en of langt um líður.
5 Á hverju ári síðan 1927 hefur Árbók votta Jehóva verið sönn gullnáma hrífandi frétta og reynslufrásagna. Hefur þú fullt gagn af þessari einstæðu uppörvunarlind? Til að svo megi verða skaltu gæta þess að lesa Árbókina strax og þú færð hana í hendur. Síðan skaltu, það sem eftir er ársins, rifja upp sérstaka hluta hennar til að fá þá uppörvun sem þú og fjölskylda þín þarfnast.