Innihaldsríkar samkomur fyrir boðunarstarfið
1 Í Lúkasi 10:1-11 er greint frá því að Jesús hafi haft fund með hinum 70 nýútnefndu lærisveinum sínum til að hjálpa þeim að búa sig undir boðunarstarfið. Hann veitti sérstakar leiðbeiningar til að hjálpa þeim að skipuleggja málin, undirbúa það sem þeir ætluðu að segja og takast á við erfiðar aðstæður. Við getum lært af því að skoða þessa frásögu.
2 Allir lærisveinarnir 70 voru greinilega viðstaddir þennan fund með Jesú. Á samkomum fyrir boðunarstarfið eða samansöfnunum fer mikill tími til spillis ef sumir leggja það í vana sinn að koma of seint. Vegna þess að þeir koma of seint er oft nauðsynlegt að endurskipuleggja hverjir starfa saman og hvar. Það tefur gjarnan allan hópinn. Við getum öll lagt okkar af mörkum með því að koma á réttum tíma og vera tilbúin að halda án tafar af stað út á starfssvæðið.
3 Jesús gaf hópnum sérstakt umræðuefni til að nota í starfinu, það er að segja „Guðsríki.“ (Lúk. 10:9) Okkur er falið að prédika sama boðskapinn og við kunnum yfirleitt að meta nokkrar gagnlegar tillögur um hvað við skyldum segja. Stjórnandinn gæti vísað í Rökræðubókina sem hefur fram að færa að meira en 40 mismunandi tillögur að inngangsorðum og viðeigandi ritningarstöðum sem nota má við mjög margvíslegar aðstæður. Stutt athugun á einni eða tveimur kynningum getur hjálpað okkur að fá eitthvað upp í hugann til að segja og gert okkur mögulegt að tala af meira öryggi við húsráðendur.
4 Jesús sagði lærisveinum sínum ekki aðeins hvað þeir ættu að segja heldur líka hvernig þeir ættu að segja það. (Lúk. 10:5, 6) Sýnikennslur á þjónustusamkomunni sýna okkur hvernig við getum tjáð okkur á áhrifaríkan hátt. Stjórnandinn gæti rifjað upp það sem var sett fram á síðustu samkomunni og gefið tillögur um hvernig mætti nota það í boðunarstarfinu þennan dag. Á sama hátt getur hann farið yfir og notað tillögurnar á baksíðu Ríkisþjónustu okkar. Stutt, vel undirbúin sýnikennsla um einfalda kynningu frá Biblíunni getur hjálpað okkur að draga saman hugmyndir okkar og koma orðum að þeim.
5 Jesús gaf lærisveinum sínum líka fyrirmæli um framkomu þeirra. (Lúk. 10:7, 8) Stjórnandinn kann á sama hátt að gefa okkur markvissar leiðbeiningar til að hjálpa okkur að forðast að gera nokkuð það sem gæti spillt fyrir starfi okkar. Hann varar okkur ef til vill við að safnast saman á götuhornum eða eyða tíma í að deila við andstæðinga. Hann kann að minna okkur á nauðsyn þess að skrá nákvæmar upplýsingar á millihúsaminnisblöðin eða láta húsráðandann vita af því að frjáls framlög til alþjóðastarfsins eru vel þegin. Kannski þarf að minna foreldra á að fylgjast vandlega með börnum sínum.
6 Lærisveinarnir 70 fóru eftir leiðbeiningum Jesú og komu síðan til baka „með fögnuði.“ (Lúk. 10:17) Ef við tökum til okkar leiðbeiningar, sem við fáum á samkomum fyrir boðunarstarfið, getum við líka vænst aukinnar ánægju við að prédika boðskapinn um Guðsríki. — Post. 13:48, 49, 52.