Fyrirmynd til nákvæmrar eftirbreytni
1 Jesús var tvímælalaust mesta mikilmenni sem lifað hefur. Hann gaf lærisveinum sínum fullkomið fordæmi. Þó að við náum ekki að fylgja hinum fullkomna staðli hans erum við hvött til að „feta í hans fótspor.“ (1. Pét. 2:21) Við ættum að þrá að líkjast Jesú eins mikið og mögulegt er og segja öðrum kappsamlega frá sannleikanum.
2 Jesús var meira en prédikari; hann var afburðakennari. „Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu [„kennsluaðferð,“ NW] hans.“ (Matt. 7:28) Hvers vegna náði hann svo góðum árangri? Lítum nánar á „kenningu hans.“
3 Hvernig við getum fylgt Jesú: Jesús hafði fengið kennslu hjá föður sínum. (Jóh. 8:28) Það sem knúði hann var löngun til að heiðra Jehóva og vegsama nafn hans. (Jóh. 17:4, 26) Við ættum einnig að prédika og kenna af löngun til að heiðra Jehóva, ekki til að draga athyglina að sjálfum okkur.
4 Allt sem Jesús kenndi var byggt á orði Guðs. Hann vísaði sífellt til hinnar innblásnu Ritningar. (Matt. 4:4, 7; 19:4; 22:31) Við viljum beina áheyrendum okkar að Biblíunni. Með því móti látum við þá sjá að það sem við prédikum og kennum sé byggt á hinni æðstu heimild.
5 Jesús notaði stutta, raunhæfa og augljósa framsetningu. Þegar hann til dæmis var að útskýra hvernig við getum öðlast fyrirgefningu Guðs hvatti hann okkur til að vera sjálf fús að fyrirgefa öðrum. (Matt. 6:14, 15) Við ættum að reyna að útskýra boðskap Guðsríkis með einföldu og jarðbundnu orðalagi.
6 Jesús notaði líkingar og spurningar af leikni til að örva hugsun manna. (Matt. 13:34, 35; 22:20-22) Líkingar, sem sóttar eru í algenga hluti og daglegt líf, geta hjálpað fólki að skilja flóknar kennisetningar í Biblíunni. Við ættum að spyrja spurninga sem hvetja áheyrendur okkar til að hugsa um það sem þeir heyra. Leiðandi spurningar geta hjálpað þeim að draga réttar ályktanir.
7 Jesús tók sér tíma til að útskýra erfið mál fyrir þeim sem báðu um meiri upplýsingar. Þeir sem höfðu sannan áhuga, eins og lærisveinar hans, gátu skilið það sem Jesús kenndi. (Matt. 13:36) Við ættum á sama hátt að vera hjálpleg þegar spurningar eru bornar fram í einlægni. Ef við vitum ekki svörin getum við kannað málið og komið aftur seinna með upplýsingarnar sem um var beðið.
8 Jesús greip stundum til áþreifanlegra dæma. Það gerði hann þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna, jafnvel þótt hann væri meistari þeirra. (Jóh. 13:2-16) Ef við sýnum hógværðaranda mun það hvetja þá sem við kennum til að taka til sín það sem þeir eru að læra.
9 Jesús höfðaði til hjarta fólks og réttlætisástar. Við viljum líka ná til hjartans. Við reynum að höfða til meðfæddrar löngunar allra að tilbiðja æðri persónu og búa í friði og hamingju.
10 Í desember ber nafn Jesú oft á góma. Við viljum hjálpa fólki með því að kenna því sannleikann um hlutverk hans í tilgangi Guðs. Ef við líkjum eftir kennslueiginleikum Jesú kann það að fá einlægt fólk til að hlusta á okkur þegar við útskýrum það sem hann kenndi. — Matt. 10:40.