Hjálpum þeim að hlusta „öðru sinni“
1 „Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.“ (Post. 17:32) Þannig brugðust sumir við frægri ræðu Páls á Aresarhæð. Nú á tímum eru sumir á sama hátt fúsir til að heyra meira um boðskapinn um Guðsríki sem við sögðum þeim frá í fyrstu heimsókn okkar.
2 Stærstur hluti kennslu okkar fer fram þegar við förum aftur til fólks til að byggja upp áhugann. Góður undirbúningur hjálpar okkur að ná jákvæðum árangri. Á blaðsíðu 51 í Handbók Guðveldisskólans segir: „Byrjaðu á því að gera þér ljósa grein fyrir rökunum sem styðja málið. Reyndu að finna út hvers vegna málinu er þannig háttað. Athugaðu hvort þú getir tjáð hugmyndirnar með eigin orðum. Aflaðu þér góðs skilnings á hinum biblíulegu sönnunum. Vertu reiðubúinn að heimfæra ritningarstaðina á áhrifaríkan hátt.“
3 Ef þú útbreiddir bæklinginn „Hver er tilgangur lífsins?“ gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Þegar við töluðum saman um daginn ræddum við um það hvar hægt sé að finna áreiðanlegt svar við spurningunni: Hver er tilgangur lífsins? Bæklingurinn, sem ég skildi eftir hjá þér, fjallar um það efni. Í þriðja kaflanum eru sett fram rök fyrir því að Biblían sé sú bók sem veitir okkur svörin. [Lestu fyrstu setninguna í grein 36 á blaðsíðu 16. Reyndu að fá húsráðandann til að tjá sig um þau atriði sem sýna að Biblían sé innblásið orð Guðs.] Biblían segir okkur hvað Guð hefur gert og hvað hann ætlar að gera í náinni framtíð mannkyninu til heilla. Þessi bæklingur er gefinn út til að hjálpa okkur að finna svör Biblíunnar við nokkrum mjög mikilvægum spurningum. Það væri mér ánægja að fá að sýna þér hvernig þú getur notað hann.“
4 Hjá þeim sem fengu smáritið „Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni“ gætir þú sagt:
◼ „Við höfum öll áhuga á því hvað framtíðin ber í skauti sér. Hver heldur þú að verði framvinda mála í heiminum í ljósi þess ástands sem núna ríkir? [Gefðu kost á svari.] Maðurinn getur þó aðeins getið sér til um hvað muni gerast en Guð veit nákvæmlega hver framtíðin verður. [Lestu Jesaja 46:10.] Það kann að koma þér á óvart að heyra að Biblían spáir að innan tíðar verði jörðinni breytt í paradís. [Lestu fyrstu efnisgreinina á blaðsíðu 5.] Leyfðu mér að segja þér meira frá þessu dásamlega fyrirheiti.“
5 Ef þú ert að fylgja því eftir að hafa boðið biblíunám formálalaust, gæti þessi tillaga ef til vill komið að notum:
◼ „Nýlega kom ég hingað til að vekja athygli á nauðsyn þess að kynna sér Biblíuna og sjá hversu gagnleg hún er fyrir mann. Mönnum gengur oft illa að lynda hver við annan en Biblían gefur okkur mörg góð ráð í því efni. Leyfðu mér að sýna þér fáein dæmi. [Notaðu ritningarstaði eins og 1. Korintubréf 13:4; Kólossubréfið 3:14 og 1. Pétursbréf 4:8. Útskýrðu stuttlega hvernig það getur borið góðan árangur að tileinka sér þessar frumreglur.] Þetta dæmi sýnir hvernig Biblían kemur með hagnýtar lausnir á vandamálum okkar. Í næsta skipti langar mig til að sýna þér á hvaða annan hátt Biblían getur hjálpað okkur að finna hamingju og hugarfrið.“
6 Við getum ekki fært fólki meiri fjársjóð en nákvæma þekkingu á orði Guðs. Slík þekking getur kennt því að óttast Jehóva og hvatt það til að ganga á vegum hans, en það leiðir til eilífs lífs. — Orðskv. 2:20, 21.