Gef gætur að hinu spámannlega orði
1 „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð.“ (2. Pét. 1:19) Af hverju sagði Pétur þetta? Spádómarnir um Guðsríki í Hebresku ritningunum, svo og þeir sem Jesús Kristur bar fram sjálfur, höfðu verið staðfestir eða orðið ‚áreiðanlegri‘ með því sem Pétur og tveir aðrir lærisveinar höfðu séð og heyrt á fjallinu þar sem Jesús ummyndaðist um 32 árum áður. Þessi áhrifamikla sýn hafði fullvissað þá um að Jesús Kristur myndi sannarlega koma í mætti Guðsríkis í geislandi dýrð og með fullum stuðningi föður síns. ‚Það var rétt af‘ kristnum mönnum á fyrstu öldinni ‚að gefa gaum að þessu spámannlega orði eins og ljósi sem skín,‘ því að hjörtu þeirra yrðu að öðrum kosti í myrkri. Ef þeir gæfu gaum hinu lýsandi spádómsorði héldi það þeim vökulum og upplýstum þangað til nýr dagur ljómaði þegar ‚morgunstjarnan,‘ Kristur, rynni upp í dýrð Guðsríkis. — 2. Pét. 1:16-19; Matt. 17:1-9.
2 Við vorum ekki viðstödd til að sjá með Pétri hina dýrlegu ummyndun. Engu að síður hafa kristnir menn núverandi kynslóðar, sem hafa gefið gaum að hinu spámannlega orði, notið þeirra miklu sérréttinda að sjá, ekki forsýningu konungsstjórnar Krists, heldur yfirþyrmandi vitnisburð um að hinn dýrlegi konungur hafi í raun sest að völdum. Með hverju ári, sem liðið hefur frá 1914, hefur hið spámannlega orð orðið áreiðanlegra er við verðum vitni að uppfyllingu hinna ýmsu þátta þess eftirtektarverða ‚tákns‘ sem Jesús gaf um „nærveru“ sína sem konungur. Mikilvægur hluti þess tákns er að öllum þjóðum verður tilkynnt um stjórn hans, eða ríki, áður en konungurinn lætur þetta heimskerfi líða undir lok. Undir leiðsögn Krists er prédikunarstarfið um Guðsríki núna unnið í 231 landi í þeim mæli sem menn höfðu aldrei ímyndað sér. (Matt. 24:3-14) Er tími ‚þrengingarinnar miklu‘ nálgast hefur hinn krýndi konungur þar að auki verið að safna saman ‚miklum múgi‘ „af alls kyns fólki“ sem iðkar trú á ‚blóð lambsins,‘ lausnarfórnina. — Opinb. 7:9, 10, 14.
3 Er enn þá ástæða til að gefa gaum að hinu spámannlega orði úr því að ‚morgunstjarnan‘ hefur runnið upp, það eð Kristur er kominn sem konungur Guðsríkis? Já! Hinn dýrlega gerði Jesús Kristur gaf Jóhannesi postula röð sýna sem eru innihald Opinberunarbókarinnar. Þó að þær hafi verið frumkristnum mönnum til uppörvunar og fræðslu, hafa þær sérstakt gildi fyrir þá sem uppi eru á „Drottins degi,“ en þar erum við núna stödd í tímans rás. — Opinb. 1:10.
4 „Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ (Opinb. 1:3) Til að vera sæl verðum við raunverulega að skilja þessar spádómlegu sýnir. Hvað þarf til þess? Það þarf að fara yfir Opinberunarbókina oftar en einu sinni til þess að ná að grípa til fulls mikilvægi þess sem hún hefur að geyma. Pétur postuli, sem var meðlimur hins stjórnandi ráðs á fyrstu öldinni, gerði sér ljóst gildi þess að endurtaka grundvallarsannindi til þess að „halda [bræðrum sínum] vakandi“ andlega. (2. Pét. 1:12, 13) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ nútímans hjálpar okkur á sama hátt að viðhalda jákvæðu mati okkar og þakklæti með því að draga athygli okkar hvað eftir annað að hinu spámannlega orði. — Matt. 24:45-47.
5 Hvernig gefa skal því gaum: Hvers konar gaum verðskuldar spádómsorðið í Opinberunarbókinni? Páll postuli minnir okkur á að Guð hafi ekki talað til kristinna manna í gegnum engla eða spámenn, eins og hann kom boðun til þjóna sinna fyrir daga kristninnar. Jehóva hefur þess í stað miðlað okkur upplýsingum í gegnum sinn ástkæra son sem hann setti „erfingja allra hluta.“ (Hebr. 1:1, 2) „Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ (Hebr. 2:1) Já, við verðum að gefa orði Guðs gaum og þá sér í lagi spádómsorðinu sem kemur fyrir milligöngu Jesú Krists. Hvernig getum við gefið Opinberunarbókinni sérstakan gaum?
6 Árið 1988 kom út bókin Revelation — Its Grand Climax At Hand! (Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!). Núna er verið að nema hana í safnaðarbóknáminu þar sem hún er til á tungumáli íbúanna og sums staðar er það í þriðja sinn. Þessi ríka áhersla á að nema Opinberunarbókina er meðal annars vegna þess að með hverju árinu sem líður verður þetta spádómsorð meira viðeigandi og tímabært. Við þurfum öll að vera vakandi fyrir því sem er að gerast nú á tímum og stefnir hröðum skrefum að því að uppfylla spádómana í Opinberunarbókinni. Þá getum við verið undir það búin að bregðast við í samræmi við vilja Jehóva.
7 En hvað getum við gert til að gefa Opinberunarbókinni sérstakan gaum úr því að þessi biblíunámsbók er ekki enn til á íslensku og hefur þar af leiðandi ekki enn þá verið notuð í safnaðarbóknáminu hér á landi? Í fyrsta lagi getum við reynt að nota þessa bók í einkanámi okkar og fjölskyldunámi í þeim mæli sem málakunnátta okkar leyfir. Það getur kostað talsverða vinnu en uppskeran verður líka ríkuleg. (Orðskv. 2:4, 5) Þegar þú lest bókina skaltu fletta upp ritningarstöðunum sem vísað er í og íhuga hvernig þeir styðja útskýringarnar á versunum í Opinberunarbókinni sem verið er að fjalla um. Það hjálpar þér að afla þér ekki aðeins þekkingar heldur einnig visku og skilnings. (Orðskv. 4:7) Í öðru lagi getur þú notfært þér vel það sem Félagið hefur gefið út á íslensku um hið spámannlega orð. Dæmi um það eru námsgreinar í Varðturninum, eins og í tölublöðunum frá maí, júlí og ágúst á þessu ári.
8 Til að gefa hinu spámannlega orði enn betur gaum þarf meira en aðeins að lesa það og nema. Við þurfum einnig að halda áfram að ‚stunda þetta, vera öll í þessu.‘ (1. Tím. 4:15) Ef hið spámannlega orð á að vera eins og ljós sem skín í hjörtum okkar, verðum við að leyfa því að hafa djúpstæð áhrif á okkar innri mann — hugsanir okkar, þrár, tilfinningar, hvatir og markmið. (2. Pét. 1:19) Þess vegna ættum við að spyrja okkur spurninga eins og þessara: Hvað þýða þessar upplýsingar fyrir mig persónulega? Hvað hef ég lært um Jehóva og son hans, Jesú Krist? Hvaða frumreglur liggja efninu til grundvallar? Skil ég af hjarta það sem ég var að nema? Hvernig get ég notað þessi sannindi í lífi mínu? Í fjölskyldunni? Í söfnuðinum? Ef við hagnýtum okkur það sem við lærum getum við sagt eins og sálmaritarinn: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálm. 119:105; Job. 29:3, 4.
9 Höldum vöku okkar á örlagatímum: Árið 33 varaði Jesús lærisveina sína við komandi eyðingu Jerúsalem og þeim aðstæðum sem yrðu þeim til merkis um að nú væri kominn tími til að flýja á öruggan stað. (Lúk. 19:41-44; 21:7-21) Síðan liðu meira en 30 ár. Sumum kristnum mönnum í Júdeu gæti hafa virst að lítið myndi breytast í náinni framtíð. Hún var því tímabær áminning Péturs postula í öðru bréfi hans, sem skrifað var um árið 64, þess efnis að ‚gefa gaum að hinu spámannlega orði.‘ (2. Pét. 1:19) Litlu seinna, árið 66, umkringdu rómverskar hersveitir Jerúsalem. Þegar her Rómverja dró sig skyndilega til baka, af því er virtist að ástæðulausu, fylgdu kristnir menn í Júdeu, sem voru vakandi, leiðbeiningum Jesú og flýðu. Árið 70 sneru rómversku hersveitirnar síðan aftur og lögðu Jerúsalem algerlega í rúst. Hve glaðir hljóta þessir kristnu menn ekki að hafa verið að þeir skyldu hafa gefið gaum að spámannlegu orði Jesú!
10 Gagnvart hverju eru kristnir nútímamenn á varðbergi? Í sýnum Opinberunarbókarinnar gerði Jesús kristnum mönnum, sem núna eru uppi, viðvart um marga atburði sem myndu eiga sér stað á Drottins degi. Síðastliðin 80 ár hafa margir þessara atburða þegar gerst: Fæðing Guðsríkis, stríðið á himni sem lauk með ósigri Satans og djöfla hans og því að þeir fengu aðeins að athafna sig á jörðinni, fall Babýlonar hinnar miklu og skarlatsrauða villidýrið, áttunda heimsveldið, hefur komið í ljós. Uppfylling þessara þátta spádómsorðsins í Opinberunarbókinni tryggir enn betur að við sjáum bráðlega mikilfenglegu atburðina sem enn eiga eftir að gerast: Innsiglun síðustu meðlima hinna 144.000, mikla múginum að fullu safnað inn, eyðingu Babýlonar hinnar miklu, Satan varpað í undirdjúpið og þúsundárastjórn Krists. Það er vissulega mikilvægt að við gefum gaum að viðvörun Jesú: „Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.“ — Opinb. 16:15.
11 Höldum við okkur vakandi? Hversu alvarlega tökum við hið spádómlega orð? Hvort sem við vígðum Jehóva líf okkar fyrir 5 árum eða 50 árum má með sanni segja að orð Páls postula til kristinna Rómverja eigi við okkur: „Þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd.“ Páll áminnir því næst kristna menn að ‚leggja af verk myrkursins‘ og ‚framganga sómasamlega.‘ (Rómv. 13:11-13) Við lifum í heimi sem er í niðamyrkri siðferðislega. Það sem þótti hneykslanlegt fyrir aðeins 30 til 40 árum er mörgum manninum eðlilegt núna á síðasta áratugi tuttugustu aldarinnar. Verið á verði, bræður, að þið látið ykkur aldrei reka inn í myrkur heimsins og að á ykkur leggist siðferðislegur drungi. Ef þið leyfið ykkur að verða eftirlátir eða umburðarlyndir gagnvart vansæmilegum hugsunarhætti og líferni þessa heims munið þið missa sjónar á hinu mikla deilumáli sem við stöndum núna andspænis og verður brátt útkljáð um eilífð: Réttlæting drottinsvalds Jehóva og helgun nafns hans. Andlegur drungi stofnar hjálpræði okkar í hættu, því hjálpræði sem er alveg á næstu grösum.
12 Lærið að meta æ betur hið spámannlega orð: Hebresku spámennirnir til forna höfðu brennandi áhuga á uppfyllingu þeirra orða sem andinn blés þeim í brjóst um Messías. Þeir ‚könnuðu og rannsökuðu vandlega‘ hvernig tilgangur Guðs næði fram að ganga. (1. Pét. 1:10, 11) Þú munt á sama hátt, þegar þú gefur gaum að spádómlega orðinu í Opinberunarbókinni, læra að meta æ betur andleg efni. Þú færð aukna andlega matarlyst og það ýtir á þig að grafa niður í „djúp Guðs.“ (1. Kor. 2:10) Þegar þú fyllir hjarta þitt af þakklæti og kærleika til hins spámannlega orðs fær það þig til að sækja samkomur og nema orð Guðs reglulega. Þá þarft þú ekki hvatningu annarra til þess. (Lúk. 6:45) Og ef ‚orðið er í hjarta þínu‘ finnur þú þig knúinn til að ‚játa það með munninum til hjálpræðis.‘ — Rómv. 10:8-10.
13 Því lengra sem líður á tíma endalokanna því meira hæðast spottarar að okkur fyrir að vera ótrauð í trú okkar á spádómlegar yfirlýsingar Guðs. (2. Pét. 3:3, 4) Við höldum samt vöku okkar gagnvart hinu spámannlega orði. Lampi orðs Guðs sýnir okkur hvar við erum í tímans straumi. Það varpar skæru ljósi á þá staðreynd að við lifum á síðustu dögum þessa myrka heims. Morgunstjarnan hefur runnið upp! Kristur er sestur að völdum í Guðsríki! Við sjóndeildarhringinn sjáum við nú þegar dögun nýs dags. Megi hinn fyrirheitni nýi heimur Guðs halda áfram að vera okkur eins raunverulegur og Guðsríki var postulunum þremur sem fengu þau sérréttindi að sjá forsýningu þess í hinni yfirnáttúrlegu sýn þá er Kristur ummyndaðist.