Tilkynningar
◼ Rit sem nota skal í febrúar: Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Mars: Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans. Apríl og maí: Varðturninn og Vaknið! Á svæðum, sem oft er farið í, má nota hvaða bækling sem er. Þegar vart verður við áhuga í endurheimsóknum mætti gjarnan bjóða áskrift. ATHUGIÐ: Söfnuðir, sem vantar ofannefnd rit, ættu að panta þau á næsta mánaðarlega pöntunareyðublaðinu (S(d)-14).
◼ Ritari safnaðarins og starfshirðir skulu fara yfir starfsemi allra reglulegra brautryðjenda. Ef einhver á í erfiðleikum að mæta þeim tímakröfum sem gerðar eru ættu öldungarnir að gera ráðstafanir til að honum verði veitt aðstoð. Ætlast er til að reglulegur brautryðjandi noti að minnsta kosti eitt þúsund klukkustundir til boðunarstarfsins á hverju þjónustuári. Ef brautryðjandi sér, þegar komið er fram í febrúar, að hann er farinn að dragast aftur úr getur það dregið úr honum kjarkinn. Hjálp öldunganna getur riðið baggamuninn um það hvort brautryðjandinn nær að uppfylla tímakröfurnar yfir árið eða hverfur af brautryðjendalistanum. Brautryðjendurnir meta að verðleikum slíka einlæga umhyggju öldunganna. Söfnuðurinn nýtur líka góðs af ánægðum brautryðjendum sem halda sér trúfastir við verkefni sitt. Tillögur varðandi þessa aðstoð öldunga er að finna í bréfi Félagsins (S-201) frá 1. október 1993 og 1. október 1992. Sjá einnig tölugreinar 12-20 í viðaukanum við Ríkisþjónustu okkar (á ensku) fyrir ágúst 1986.
◼ Minningarhátíðin verður haldin föstudaginn 14. apríl 1995. Þó að ræðan megi hefjast fyrr skal þess gætt að brauðið og vínið sé ekki borið fram fyrr en eftir sólarlag. Gangið úr skugga um hvenær sólin gengur til viðar á ykkar svæði. Þennan dag skyldi ekki hafa neinar aðrar samkomur en samkomur til boðunarstarfsins (samansafnanir). Ef söfnuður ykkar er vanur að hafa samkomur á föstudögum munuð þið vilja færa þær yfir á annan dag þessarar viku ef ríkissalurinn er laus þá.
◼ Þegar safnaðarsamkomunum lýkur, svæðismótum og sérstökum mótsdögum þar sem svo háttar til, sunnudaginn 23. apríl, 1995 verður lesin upp tilkynning sem varðar sérstakt starf til að hrinda af stað víðtækri dreifingu á fjögurra blaðsíðna smáriti sem inniheldur tímabæran boðskap. Boðberarnir verða hvattir til að gefa hreinhjörtuðu fólki sérstakan gaum, fólki sem íhugar alvarlega hin flóknu vandamál sem það á við að etja og leitar að áreiðanlegri leiðsögn. Sérhver boðberi, þar með taldir nýjir sem hefja þátttöku í boðunarstarfinu í mars, apríl og maí, munu vilja taka fullan þátt í þessu starfi og styðja þessa sérstöku herferð.
◼ Boðberar, sem ætla að vera aðstoðarbrautryðjendur í mars, apríl eða maí, ættu að gera áætlanir sínar sem fyrst og leggja inn umsóknir sínar tímanlega. Það mun hjálpa öldungunum að skipuleggja heppilegar samansafnanir og hafa nægilegar birgðir rita í söfnuðinum. Beiðni um breytingu á blaðapöntun safnaðar eða pöntun á aukablöðum af ákveðnum tölublöðum þarf að berast deildarskrifstofunni ekki síðar en 8 vikum fyrir útgáfudag.