Gagnið sem við höfum af endurskoðuðu opinberu fyrirlestrunum
1 Nútímasögu votta Jehóva er nákvæmlega lýst með orðum Orðskviðanna 4:18: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“
2 Kristni söfnuðurinn heldur þess vegna áfram að fá tímabærar, nánari útskýringar á kenningum Biblíunnar og nýjustu upplýsingar þar að lútandi. (Matt. 24:45-47) Líklega getur þú nefnt dæmi um þetta sem þú hefur tekið eftir frá því þú hófst að hafa félagsskap við votta Jehóva. Safnaðarsamkomur, opinberir fyrirlestrar meðtaldir, hjálpa okkur að fylgjast með þessu aukna sannleiksljósi.
3 Endurskoðuð uppköst: Félagið hefur nýlega endurnýjað allmörg uppköst að opinberum fyrirlestrum. Nýtt efni hefur verið bætt inn í þá og mikilvæg atriði útskýrð nánar. Til þess að söfnuðurinn hafi full not af þessum endurnýjuðu upplýsingum ættu bræðurnir, sem flytja opinbera fyrirlestra, að nota aðeins allra nýjustu uppköstin.
4 Í því augnamiði að hafa sem mest út úr opinberu fyrirlestrunum skaltu leiða hugann að titli ræðunnar sem flutt verður. Áður en þú kemur til að hlýða á opinbera fyrirlesturinn skaltu reyna að rifja upp nýjustu upplýsingarnar frá guðræðislegum heimildum um þetta efni. Síðan, þegar samkoman er hafin, skaltu hlusta með eftirvæntingu á hvernig unnið er úr þessum upplýsingum. Taktu eftir nýjum aðferðum í framsetningu þessara sanninda til að geta notfært þér þær síðar. Þetta tryggir að þú hafir hvað mest gagn af endurskoðuðu opinberu fyrirlestrunum.
5 Opinberir fyrirlestrar ættu að fræða áheyrendurna og líka örva þá til dáða: Þegar Jesús talaði náði hann til hjartna áheyrenda sinna. Þegar Jesús hafði lokið fjallræðunni, frægustu ræðu sem flutt hefur verið, lýsir Matteus 7:28 áhrifunum þannig: „Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans.“
6 Með fordæmi Jesú í huga ættu öldungaráð að sýna góða dómgreind þegar þau samþykkja nýja ræðumenn sem flytja mega opinbera fyrirlestra, útnefna aðeins þá bræður sem eru góðir kennarar, munu ekki víkja út frá uppköstum Félagsins og eru færir um að halda athygli áheyrendanna. Bræður, sem eru fengin þau sérréttindi að flytja opinbera fyrirlestra, ættu sífellt að leitast við að bæta hæfni sína sem ræðumenn og þiggja hverjar þær ráðleggingar og tillögur sem öldungarnir veita þeim.
7 Eins og spáð var í Jesaja 65:13, 14 heldur andleg velsæld fólks Guðs áfram að koma betur og betur í ljós. Opinberu fyrirlestrarnir eru ein af mörgum ráðstöfunum Jehóva til að kenna okkur sem lærisveinum sínum. — Jes. 54:13.