Hvernig fæ ég fólk til að hlusta?
1 „Kona nokkur“ í bænum Filippí, „Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði [Jehóva] hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.“ (Post. 16:14) Hvað kennir þessi frásaga okkur? Það sem opnar leiðina fyrir einhvern að læra sannleikann er að hann hlusti. Sá árangur, sem við náum þegar við boðum boðskapinn um Guðsríki, er fyrst og fremst háður fúsleika húsráðandans til að hlusta. Þegar við eitt sinn höfum náð athygli hans er tiltölulega auðvelt að kynna boðskap okkar. En það getur reynst þrautin þyngri að fá fólk til að hlusta. Hvað getum við gert?
2 Áður en við förum í boðunarstarfið ættum við að gefa gaum að útliti okkar og verkfærunum sem við ætlum að nota. Af hverju? Fólk hefur meiri tilhneigingu til að hlusta á þann sem kemur fram af reisn. Er klæðnaður okkar smekklegur og siðsamlegur? Þó að það kunni að vera vinsælt í heiminum að vera illa til hafður forðumst við slíkt kæruleysi vegna þess að við komum til fólks sem fulltrúar Guðsríkis. Hreint og snyrtilegt útlit okkar er jákvæður vitnisburður um ágæti ríkisboðskaparins sem við prédikum.
3 Verum vingjarnleg og kurteis: Þrátt fyrir breytt viðhorf nú á tímum eru enn margir sem hafa mætur á Biblíunni og hafa ekkert á móti vingjarnlegum og kurteislegum samræðum um það sem Biblían hefur að geyma. Hlýlegt og óþvingað bros getur verkað róandi á húsráðandann og opnað leið til ánægjulegra samræðna. Einlægni okkar og góðir mannasiðir ættu líka að endurspeglast í tali okkar og hegðun, og í því felst að hlusta kurteislega á það sem húsráðandinn hefur fram að færa.
4 Tilgangur okkar er að deila biblíulegri von okkar með öðrum. Með það í huga ættum við að gæta þess að það sem við segjum höfði til fólks en sé ekki fjandsamlegt eða ögrandi. Engin þörf er á að eyða tíma í að deila við fólk sem er greinilega andsnúið okkur. (2 Tím. 2:23-25) Við getum valið úr fjölbreyttu úrvali uppbyggjandi og tímabærra kynningarorða sem komið hafa fram í Ríkisþjónustu okkar og í Rökræðubókinni. Að sjálfsögðu þurfum við að undirbúa okkur vel til þess að við getum talað með hlýju og sannfæringu. — 1. Pét. 3:15.
5 Að lokinni heimsókn okkar muna fáir húsráðendur nákvæmlega eftir því sem við sögðum. Hins vegar geta þeir svo til allir munað eftir því á hvaða hátt við fluttum mál okkar. Við ættum aldrei að vanmeta áhrifamátt góðvildar og vingjarnleika. Vissulega er margt sauðumlíkt fólk á starfssvæði okkar sem mun hlýða á sannleikann alveg eins og Lýdía gerði á fyrstu öldinni. Ef við gætum vandlega að útliti okkar og hvernig við tölum getur það orðið einlægu fólki hvatning til að hlusta á orð Guðs og taka við því. — Mark. 4:20.