Taktu þátt í starfi sem aldrei verður endurtekið
1 Jehóva hefur af og til í sögu mannkynsins þurft að fullnægja dómi yfir óvinum sínum. En í miskunn sinni veitti hann þeim sem höfðu rétt hjartalag tækifæri til að að bjargast. (Sálm. 103:13) Afdrif þeirra réðust af því hvernig þeir nýttu sér þennan möguleika.
2 Til dæmis var Nói „prédikari réttlætisins“ fyrir flóðið árið 2370 f.o.t. Þeir sem fórust höfðu ekki skeytt viðvörun hans. (2. Pét. 2:5; Hebr. 11:7) Fyrir eyðingu Jerúsalemborgar árið 70 útskýrði Jesús greinilega til hvaða ráða þyrfti að grípa til að umflýja eyðilegginguna sem myndi dynja yfir borgina. Skelfilegar þrengingar biðu allra þeirra sem höfnuðu viðvörun hans. (Lúk. 21:20-24) Þess háttar guðlegar viðvaranir og dómar voru margsinnis bornir fram í mannkynssögunni.
3 Viðvörun nú á tímum: Fyrir óralöngu lýsti Jehóva því yfir að hann myndi úthella reiði sinni yfir hið núverandi illa heimskerfi og að einungis auðmjúkir menn kæmust af. (Sef. 2:2, 3; 3:8) Tíminn til að prédika þennan viðvörunarboðskap er að renna út! ‚Þrengingin mikla‘ er á næsta leiti og verið er að safna hinum auðmjúku saman. ‚Akrarnir‘ eru svo sannarlega orðnir „hvítir til uppskeru.“ Þar af leiðandi er ekkert annað starf jafnmikilvægt og knýjandi. — Matt. 24:14, 21, 22; Jóh. 4:35.
4 Við verðum að taka þátt í að vara menn við, „hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum.“ Þetta er verkefni frá Guði sem við vogum okkur ekki að hunsa. (Esek. 2:4, 5; 3:17, 18) Full þátttaka okkar í þessu starfi sýnir á sannfærandi hátt djúpan kærleika okkar til Guðs, ósvikna umhyggju fyrir náunganum og óbifanlega trú á frelsarann, Jesú Krist.
5 Núna er tími til athafna: Eftir dóma Jehóva forðum daga spratt illskan alltaf upp á ný vegna þess að Satan og illir andar hans voru enn þá að. En í þetta skipti verður reyndin önnur. Áhrif Satans verða að engu gerð. Aldrei framar verður þörf á að vara við yfirvofandi ‚mikilli þrengingu‘ um heim allan. (Opinb. 7:14; Rómv. 16:20) Við höfum þau einstöku sérréttindi að fá hlutdeild í starfi sem aldrei verður endurtekið. Núna er tíminn til að nýta okkur þetta tækifæri til fulls.
6 Páll postuli sagði með miklum sannfæringarkrafti um prédikunarstarf sitt: „Eg er hreinn af blóði allra.“ (Postulasagan 20:26, Biblían 1912) Hann fann ekki til blóðskuldar því hann hafði á engan hátt vanrækt að flytja viðvörunarboðskapinn. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hann gat sagt um þjónustu sína: „Að þessu strita ég og stríði.“ (Kól. 1:29) Njótum þessarar sömu ánægju og tökum af fremsta megni þátt í starfinu sem aldrei verður endurtekið! — 2. Tím. 2:15.