Hvað um ættingja okkar?
1 Við eigum flestöll ættingja utan sannleikans. Við óskum þess heitt að ástvinir okkar gangi með okkur á veginum til lífsins. Sérstaklega er okkur annt um eilífa velferð maka okkar og barna. En við ættum ekki að halda að ástandið sé vonlaust jafnvel þótt við höfum reynt árum saman að vekja áhuga þeirra á sannleikanum.
2 Þegar Jesús prédikaði „trúðu [jafnvel bræður hans] ekki á hann.“ (Jóh. 7:5) Eitt sinn héldu ættingjar hans að hann væri vitskertur. (Mark. 3:21) Samt gafst Jesús ekki upp á þeim. Og er fram liðu stundir tóku bræður hans við sannleikanum. (Post. 1:14) Jakob, hálfbróðir hans, varð máttarstólpi í kristna söfnuðinum. (Gal. 1:18, 19; 2:9) Ef þú vilt njóta þeirrar gleði að sjá ættingja þína taka við sannleikanum skaltu aldrei gefast upp á að koma fagnaðarerindinu um ríkið á framfæri við þá.
3 Vertu upplífgandi, ekki yfirþyrmandi: Þegar Jesús prédikaði fannst áheyrendum hans þeir vera endurnærðir, ekki kúgaðir. (Matt. 11:28, 29) Hann kaffærði þá ekki í kenningum sem þeir skildu ekki. Til að endurnæra ættingja þína með vatni sannleikans skaltu gefa þeim lítið í einu, ekki drekkja þeim. Farandhirðir nokkur sagði: „Þeir sem vekja forvitni ættingja sinna með því að bera vitni fyrir þeim jafnt og þétt en lítið í einu, ná bestum árangri.“ Þá byrja jafnvel mótstöðumenn að spyrja spurninga og fer svo að þyrsta eftir sannleikanum. — 1. Pét. 2:2; samanber 1. Korintubréf 3:1, 2.
4 Margir giftir kristnir menn hafa gefið vantrúuðum maka sínum góðan vitnisburð með því að láta liggja frammi opin blöð eða önnur rit með efni sem gæti vakið áhuga þeirra. Systir sem gerði þetta kenndi einnig börnum sínum í áheyrn eiginmanns síns og gaf útskýringar sem hann gat haft gagn af. Stundum spurði hún: „Ég lærði þetta og þetta í námi mínu í dag. Hvað finnst þér um það?“ Að lokum tók eiginmaður hennar við sannleikanum.
5 Vertu tillitssamur, ekki óþolinmóður: Boðberi nokkur sagði: „Jafnvel ættingjar hafa rétt á eigin skoðunum.“ Við ættum því að virða skoðanir þeirra og vera tillitssöm þegar þeir biðja okkur sérstaklega að tala ekki við sig um sannleikann. (Préd. 3:7; 1. Pét. 3:15) Með því að vera þolinmóð, kærleiksrík og hlusta vel getum við leitað að viðeigandi tækifærum til að lauma sannleikanum að þeim. Slík þolinmæði getur verið umbunarrík eins og kristinn eiginmaður, sem þolinmóður sætti harðri mótspyrnu af hendi vantrúaðrar eiginkonu sinnar í 20 ár, er gott dæmi um. Um leið og hún byrjaði að breytast sagði hann: „Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að hann skyldi hjálpa mér að rækta með mér langlyndi, vegna þess að núna sé ég árangurinn: Konan mín er byrjuð að ganga á vegi lífsins!“
6 Hvað með þína ættingja? Það getur verið að með góðri kristinni framkomu þinni og bænum þínum í þeirra þágu „geti [þeir] unnist orðalaust.“ — 1. Pét. 3:1, 2.